Halda íslensk jól á aðfangadag og á jóladagsmorgun byrja svo ensku jólin
Oskar Brown er úr Garðinum en býr í dag ásamt Robin, manninum mínum, og kisunni þeirra henni Milly, í Ewell á Englandi. Oskar þekkja mörg úr útvarpinu. Hann er m.a. með útvarpsþátt á Trölla FM á föstudögum sem heitir Egg, beikon og bakaðar baunir. Hvað getur verið meira breskt? „Í minningunni er jólin á Íslandi alltaf sérstök og það væri frábært að geta upplifað þau aftur,“ segir hann í samtali við Víkurfréttir á aðventunni.
Hvernig var árið 2024 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Árið var mjög blandað hjá okkur og við upplifðum bæði góðar stundir og slæmar. Ég tók til dæmis þátt í fjórum söngleikjum með áhugaleikfélögum hér í grenndinni, safnaði pening fyrir Cancer Research UK með því að taka þátt í tveimur hálfum maraþonum og fór í yndisleg frí til Póllands og Íslands. Af því slæma má til dæmis nefna það að önnur kisan okkar, hún Molly, veiktist snögglega og við urðum að láta svæfa hana.
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?
Úff, þau eru ansi mörg, og þá sérstaklega „gömlu“ jólalögin sem komu út þegar ég var krakki. Þar á meðal eru: „Hátíðarskap“ með Þú og Ég, „Jólahjól“ með Sniglabandinu, og „Skrámur skrifar Jólasveininum“ með Glámi og Skrámi.
Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?
Kvikmyndin „Sound of Music“ (Tónaflóð) er sýnd hér í Bretlandi á hverjum jólum og hún er orðin hluti af jólunum hjá okkur. Annars þykir mér afskaplega vænt um myndina „Elf“ með Will Farrell, og reyni að sjá hana um öll jól.
Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?
Við Robin höfum reynt að samræna íslenskar og enskar jólahefðir og það má segja að við höldum tvöföld jól. Við höldum íslensk jól á aðfangadag með mat klukkan sex og hlustum á messuna í útvarpinu í gegnum tölvuna, þrátt fyrir það að Robin skilji ekki orð. Þegar við erum búnir að ganga frá eftir matinn þá opnum við íslensku pakkana og hringjum svo í vini og vandamenn á Íslandi og þökkum fyrir okkur. Á jóladagsmorgun byrja svo ensku jólin. Þá eru ensku pakkarnir opnaðir og jólamaturinn er síðan borðaður upp úr hádeginu. Eftir það förum við í göngutúr og slöppum svo af fyrir framan sjónvarpið þegar við komum til baka.
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
Jólaskraut, jólatónlist, góður matur, og síðast en ekki síst, góð bók til að lesa yfir hátíðarnar.
Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem það var sem þú gafst eða fékkst?
Ég hef fengið stórkostlegar jólagjafir í gegnum árin og hef alltaf verið ánægður með það sem mér hefur verið gefið, en það er tvennt sem að stendur upp úr. Íþróttagalli frá ömmu og afa sem var keyptur í Noregi, og einhverjum árum síðar fékk ég skíðagalla frá mömmu og pabba.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir - áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Ég man eftir jólaboði í litlu íbúðinni hjá ömmu og afa í Reykjavík. Öll fjölskyldan var þar samankomin og ég smakkaði malt og appelsín blöndu í fyrsta skipti. Ætli ég hafi ekki verið sirka þriggja ára.
Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð? Og áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?
Ég hef ekkert á móti heimagerðu jólaskrauti, en það jólaskraut sem við eigum er allt úr búð. Það getur vel verið að eitthvað af skrautinu hans Robins eigi sér sögu en því miður þá er mitt skraut bara venjulegt skraut sem ég hef keypt í búðum hingað og þangað síðustu ár.
Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?
Ég vann lengi sem flugþjónn og þurfti oft að vinna um jól og/eða áramót og það var því lítið um fagnaðarlæti. Maður leit bara á þessa daga eins og hverja aðra og gerði lítið í því að fagna jólunum. Þetta breyttist hins vegar allt þegar ég byrjaði að eiga frí um jólin og þau urðu fljótt aftur hátíðleg.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Og eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?
Við vorum alltaf með skinku með kartöflum og grænmeti á aðfangadag og kalkún með kartöflum og grænmeti á jóladag. Þetta breyttist hins vegar allt á síðasta ári þegar ég gerðist grænmetisæta. Ég hef verið að prófa mig áfram með hina ýmsu grænmetisrétti, en á eftir að finna eitthvað sem mér finnst ómissandi sem jólamatur.
Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?
Ætli ég myndi ekki velja Ísland og verja jólunum með fjölskyldunni. Ég hef ekki haft tækifæri til þess síðan ég flutti erlendis fyrir tæpum 30 árum síðan. Í minningunni er jólin á Íslandi alltaf sérstök og það væri frábært að geta upplifað þau aftur.
Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?
Ég trúi enn á jólaandann og finnst afskaplega gaman þegar desember gengur í garð. Ég syng jólalög með kórnum mínum, skreyti húsið, skrifa jólakort og reyni að eiga góðar stundir með þeim sem mér þykir vænt um.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Það er alltaf gaman að fá íslenskar bækur og tónlist í jólagjöf, en það er ekkert sérstakt á óskalistanum eins og er.
Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?
Friður um allan heim og nægur matur fyrir alla.
Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?
Ég er byrjaður að skipuleggja næsta ár og það verður bæði skemmtilegt og áhugavert. Ég byrja að æfa söngleikinn „Fiðlarinn á þakinu“ í janúar, en hann verður sýndur um miðjan maí. Ég ætla að hlaupa mitt fyrsta maraþon í Brighton í apríl og svo kem ég til Íslands til þess að hlaupa hálft maraþon í ágúst. Þetta er svona það sem ég veit um en það á sjálfsagt eitthvað fleira spennandi eftir að dúkka upp og það verður gaman að takast á við nýtt ár.