HS Orka
HS Orka

Mannlíf

Krefjandi ár í bæjarpólitíkinni í Grindavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 24. desember 2024 kl. 07:00

Krefjandi ár í bæjarpólitíkinni í Grindavík

Ánægð að geta haldið grindvísk jól á nýjan leik

„Ég er bjartsýn á framtíð bæjarins míns, ég hlakka til þegar fyrstu tillögur um uppbyggingu og endurreisn bæjarins verða kynntar á næstunni,“ segir forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, Ásrún Kristinsdóttir. Síðasta ár var henni erfitt, hún missti bæði bróður sinn og föður og það að vera forseti bæjarstjórnar var síður en svo einfalt. Síðustu jól voru á allan hátt frábrugðin fyrri jólum en Ásrún hlakkar til komandi jóla, sem fjölskyldan ætlar að halda í Grindavík.

Ásrún og fjölskylda ætla að halda jólin í ár í Grindavík eftir að hafa verið í sumarbústað um síðustu jól.

„Við erum með okkar jólahefðir en þær fóru fyrir lítið í fyrra má segja. Við vorum í sumarbústað föðursystur minnar við Flúðir, við fórum þangað strax eftir rýmingu og það fór vel um okkur þar en jólin voru samt ekki eins og við vorum vön. Þetta voru fyrstu jólin okkar annars staðar en heima hjá okkur og það var sérstakt. Það var líka búinn að vera erfiður tími hjá mér í aðdraganda 10. nóvember, pabbi var jarðaður fjórum dögum fyrir rýmingu og bróðir minn kvaddi fyrr á árinu svo árið 2023 var krefjandi og erfitt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bernskujólin fylgja manni alla tíð en það eru þessar litlu jólahefðir sem ég met svo mikið. Ég lít t.d. á það sem hefð að taka jólaskraut upp úr kössunum, skraut sem geyma minningar liðinna jóla. Eins að fara út í kirkjugarð á aðfangadag með Valdísi systur, setja greinar og kveikja ljós á leiði ástvina sinna. Mér finnst afar hátíðlegt að fara í kirkju á jólunum, ég er glöð að það eigi að halda jólaguðþjónustu í Grindavík á aðfangadag, fyrr en venjulega en það er líka allt í lagi. Það verður notalegt að hitta aðra Grindvíkinga og syngja saman jólin inn, það eru þessi litlu atriði sem ég held að við öll höfum saknað mikið. Eins er ég ánægð með að Villi á Vörinni verði með skötu á Þorláksmessu. Þó svo að skatan sé ekki í sérstöku uppáhaldi þá hlakka ég til að mæta.

Annars höfum við fjölskyldan tekið nýja stefnu undanfarin jól, þó svo að í mörgu sé að snúast í desember og aðdraganda hátíðanna þá er mikilvægt að staldra við og njóta augnabliksins. Það er svo notalegt að geta hjúfrað sig heima, kveikja á kerti, hlusta á ljúfa jólatónlist og bíða eftir að birti af degi. Mér finnst jólatónlistin svo mikilvægur þáttur á aðventunni en með henni fylgja kærleikur, gleði og góðar óskir og við það er svo gott að dvelja.

Við hlökkum til að geta notið jólanna á heimili Margrétar eldri dóttur okkar en hún keypti draumahúsið sitt sem ætlunin var og er að gera upp. Gamla læknishúsið sem byggt var fyrir sjálfan Sigvalda Kaldalóns og bjó hann þar um nokkurt skeið. Húsið var hannað af Guðjóni Samúelssyni húsasmíðameistara ríkisins og er því sögufrægt hús. Það verður yndislegt að eyða aðfangadagskvöldi í húsinu og hlusta jafnvel á tónlist Kaldalóns og láta anda hans um leið svífa yfir.“

Öðruvísi bæjarpólitík

Ásrún sem er kennari og er forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, átti engan veginn von á því hlutverki sem hún og aðrir bæjarfulltrúar fengu upp í hendurnar, árið hefur verið mjög krefjandi.

„Ég hef kunnað vel við mig í bæjarpólitíkinni en ekkert gat undirbúið okkur fyrir það sem gekk á í fyrra. Ég rifjaði upp um daginn þegar ég svaraði páska spurningum í Víkurfréttum þegar covid var í gangi, þá grínaðist ég með að fínt yrði að fá ekki jarðskjálfta yfir 3,5 á skólatíma. Mér er minnisstæður íbúafundurinn sem var haldinn í ársbyrjun 2020, þar var talað um hvað gæti hugsanlega gerst en ég held að enginn hafi undirbúið sig fyrir það sem síðan varð. Maður vandist einhvern veginn þessum jarðskjálftum en í raun finnst manni ótrúlegt að þetta allt saman hafi raungerst á okkar tíma. Það að reka bæjarfélagið á þessum tímum hefur heldur betur verið mikil áskorun en ég var þakklát fyrir að fá frí frá kennslunni og getað helgað mig bæjarmálunum. Ég mætti nánast daglega í Tollhúsið en keyrslan þangað frá Flúðum tók u.þ.b. einn og hálfan tíma, minni á að þetta eru fáfarnir sveitavegir og ekki mokað eins og maður er vanur heima hjá sér svo stundum festi ég bílinn. Þessi vetur var einfaldlega mjög erfiður og það var krefjandi að vera bæjarfulltrúi á þessum tíma. Það var gott að fá aðstoð frá Grindavíkurnefndinni og ég vil trúa að við séum komin yfir það versta, þessi síðustu eldgos hafa blessunarlega verið fjær Grindavík og ég vona innilega að nú getum við farið að snúa vörn í sókn,“ segir Ásrún

Spennandi uppbyggingarhugmyndir

Nú í vikunni verða kynntar hugmyndir um uppbyggingu og endurreisn í Grindavík í kjölfar jarðhræringanna og er Ásrún spennt yfir þeirri vinnu.

„Við fengum Batteríið Arkitekta til að aðstoða okkur við vinnu rammaskipulags og skoða hvaða möguleika Grindavík hefur upp á að bjóða nú og í framtíðinni. Ljóst er að bærinn verður aðdráttarafl ferðamanna og er mikilvægt að vinna framtíðarskipulag í sátt við íbúa bæjarins. Við stöndum líka frammi fyrir því að þurfa að rífa hús og mikilvægt að vanda til verka þar sem slíkar aðgerðir geta verið erfiðar fyrir íbúa og við þurfum að nálgast verkefnið að virðingu. Kallað var eftir hugmyndum íbúa í haust og það er ánægjulegt að aðalhráefni þessarar fyrstu tillögu kemur frá fólkinu okkar.  Það eru mikil tækifæri fyrir hendi og mjög gott fyrir okkur að fá utanaðkomandi fagaðila með okkur í lið sem þekkja inn á þessi fræði.

Rekstur bæjarins hefur verið mikil áskorun, þetta sveitarfélag sem var eitt það öflugasta á landinu hefur heldur betur misst spón úr aski sínum og við þurfum að halda vel á spilunum. Íbúum hefur fækkað um tæp 63% á þessum tíma og atvinnustarfsemi er löskuð.“

Ásrún ásamt öðrum bæjarfulltrúum í bæjarstjórn Grindavíkur, starfsmönnum Grindavíkurbæjar og þáverandi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni og forsetafrú. Myndin var tekin á 50 ára afmæli Grindavíkurkaupstaðar.

Bjarnargreiði?

Margir Grindvíkingar vilja halda tryggð við sinn heimabæ og borga sitt útsvar þangað. Ef viðkomandi er með barn á leik- eða grunnskólaaldri, er samt viðbúið að tryggðin við bæinn, kosti meira en sem nemur útsvarinu sem viðkomandi skilar í bæjarsjóðinn. Ásrún segir að þetta sé alls ekki einfalt mál.

„Þetta er kannski erfiðasta áskorunin fyrir okkur bæjarfulltrúana, á sama tíma og við erum ánægð með að Grindvíkingar vilji halda tryggð við bæinn sinn þá viljum við samt hvetja þá sem eru að þiggja þjónustu í því sveitarfélagi sem fjölskyldan býr, að skrá frekar lögheimili sitt þar þannig að útsvarið renni þangað sem þjónustan er þegin. Það var líka ekki til að bæta stöðu bæjarsjóðs að missa fasteignagjöldin, fasteignafélagið Þórkatla er undanþegið fasteignagjöldum. Miðað við að Þórkatla mun eiga rúmlega 90% íbúðarhúsnæðis þá hefði hlutur Þórkötlu í fasteignagjöldum verið  372 milljónir. Grindavíkurbær þarf samt sem áður að standa straum af kostnaði t.d. fráveitu þessara eigna. Við verðum að vera bjartsýn á að þetta verði að einhverjum hluta leiðrétt.

Ég vona bara innilega að nú getum við farið að stíga ákveðin skref að uppbyggingu bæjarins. Ef náttúran gefur okkur grið og allir gangi í takt sé ég þessi skref raungerast. Ég kýs að dvelja ekki í því liðna heldur horfa brött og vongóð fram á veginn. Grindvíkingar hvar sem þeir eru eiga að snú bökum saman og sameinast, sama hver ákvörðun um framtíðarbúsetu er. Við erum öll Grindvíkingar og eigum að bera virðingu fyrir skoðunum hvors annars. Þetta er yndislegt samfélag í þessum yndislega bæ og sama hvað verður, trúi ég að samfélagið verði alltaf til að einhverju leyti. Ég er bjartsýn á framtíð Grindavíkur,“ sagði Ásrún að lokum.