Skellur að missa af skötunni
Knattspyrnumaðurinn Rúnar Þór Sigurgeirsson hóf sinn feril í atvinnumennsku í byrjun árs 2023 þegar hann gekk til liðs við sænska B-deildarliðið Öster. Hann staldraði þó ekki lengi við þar, heldur flutti sig yfir til Hollands þá um haustið og gekk til liðs við Willem II sem leikur í hollensku úrvalsdeildinni.
Höfum fengið margar heimsóknir
Með Rúnari í þessu ævintýri eru Lovísa Guðjónsdóttir, sambýliskona hans, ásamt ungri dóttur þeirra en Rúnar segir að það fari mjög vel um litlu fjölskylduna úti í Hollandi. Við Rúnar byrjum spjall okkar á gengi liðsins.
„Því hefur gengið ágætlega en það kom smá hikst á okkur í síðustu leikjum. Við rétt náðum í stig á móti NAC og töpuðum næstu tveimur, þetta eru leikir sem við áttum að sækja stig í,“ segir Rúnar en liðið hans komst aftur á sigurbraut síðasta föstudag þegar Willem II vann sigur á PEC Zwolle með einu marki gegn engu.
„Í leiknum gegn NAC jöfnuðum við á 97. mínútu. Þessir leikir eru svolítið eins og Keflavík á móti Njarðvík ... sinnum svona nítján. Það er mjög mikill rígur á milli áhangenda liðanna og það var tekin ákvörðun fyrir tímabilið að sama hvort við séum að spila hjá þeim eða þeir hjá okkur, og ef við yrðum dregnir á móti hvor öðrum í bikarnum og svona, að það yrðu ekki útistuðningsmenn á vellinum á leikjum þessara liða. Það væri bara ávísun á eitthvað vesen.
Svo er líka svo heimskulegt á vellinum hjá okkur að svæði aðalstuðningsmannanna er við hliðina á stuðningsmönnum gestanna. Á flestum völlum er það þannig að aðalstuðningsmennirnir eru fyrir aftan annað markið og gestirnir eru við hitt markið.“
Ykkur hefur samt gengið ágætlega og þú ert alltaf fastamaður í liðinu.
„Já, ég er allavega búinn að koma við sögu í öllum leikjunum nema einum og er búinn að byrja einhverja þrettán leiki af sextán.“
Og fjölskyldunni líður vel?
„Já, við höfum fengið margar heimsóknir, ég held að það sé ekki búinn að vera sá leikur að það sé ekki einhver á honum frá mér. Það er líka mjög notalegt,“ segir Rúnar en þau búa sunnarlega í Hollandi, alveg upp við belgísku landamærin. „Ætli ég þurfi ekki að keyra í svona tíu mínútur í suður og þá er ég kominn til Belgíu.“
Það getur orðið kalt í Hollandi og Rúnar segir að hitinn hafi farið undir frostmark fyrir stuttu en síðustu vikurnar hafi aðeins hlýnað. „Ég var orðinn svolítið stressaður fyrir því hvað myndi gerast því við æfum úti og á grasi. Þegar það var frost í fyrra þá æfðum við á einhverju ömurlegu gervigrasi, þannig að það er fínt að geta æft þar sem við erum að æfa núna.“
Hvað er frúin að gera núna?
„Lovísa er í námi núna, í fjarnámi frá Bifröst. Frá því að við fluttum út hefur hún haft lítið fyrir stafni og það er mjög þreytandi til lengdar að hafa ekkert að gera. Þannig að hana langaði að fara að læra.“
Og hvenær ætlarðu að koma aftur í Keflavík?
„Vonandi ekki alveg strax – en vonandi einhvern tímann,“ segir Rúnar. „Ég er með samning hérna í eitt og hálft ár í viðbót, til sumarsins 2026.
Núna er ég að spila í mjög sterkri deild og vonast til að fá áframhaldandi samning hér eða að það komi eitthvað annað skemmtilegt upp.“
Halda jólin á Íslandi
Rúnar og fjölskylda bregða sér heim um jólin, Lovísa og dóttir þeirra héldu til Íslands í síðustu viku en Rúnar er að spila 22. desember og flýgur heim að morgni Þorláksmessu.
„Það er skellur að ég missi af skötunni en það er alltaf skötuveisla heima í hádeginu, ég kem ekki heim fyrr en seinni partinn.“
Þú verður bara að taka skötu með þér út og bjóða liðsfélögum þínum upp á kæsta skötu.
„Ég efast hreinlega um að nokkur þeirra myndi setja þetta upp í sig þegar þeir finna lyktina – en mér finnst hún góð. Þetta er líka ákveðin stemmning,“ sagði Rúnar að lokum.