Marteinn blæðir appelsínugulu Þróttara-blóði
Elskar félagið sitt og samfélagið í Vogum Fór á dögunum til Barcelona og kynnti sér starfsemi íþróttafélaga í borginni.
„Ég held að raunhæft markmið fyrir Þrótt sé að vera stöðugt lið í annarri deild knattspyrnu karla en ef allt smellur innan sem utan vallar og gott fólk er í kringum starfið, þá förum við alltaf upp í Lengjudeildina, við höfum t.d. reynsluna af því þegar Hermann Hreiðarsson þjálfaði liðið sælla minninga,“ segir Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar í Vogum, betur þekktur sem Matti í Þrótti. Hann hefur verið í þessu draumastarfi sínu síðan árið 2015 og hefur unnið frábært starf, og er hvergi nærri hættur. Á dögunum skellti hann sér til Barcelona og var tilgangurinn tvíþættur, annars vegar að taka sér frí eftir annasamt ár í starfi og hins vegar að kynna sér íþróttastarfið í þessari miklu knattspyrnu- og íþróttaborg og fór hann í þeim tilgangi í heimsókn til nokkurra minni félaga. Hann hefði kíkt á Camp Nou, heimavöll Börsunga, undir venjulegum kringumstæðum en endurbætur eru í gangi á þeim fræga velli og hann á þá heimsókn inni þangað til síðar, Marteinn kom til baka frá Spáni reynslunni ríkari. Það eru venjulega stóru klúbbarnir sem fara í slíkar heimsóknir, að kynna sér hvernig akademíur virka en Þróttur er stórhuga félag, þetta er félag sem rekið er að langstærstum hluta til af einkar samheldum og vinnusömum sjálfboðaliðum og hefur knattspyrna verið fjölmennasta hópíþróttin en þar eru einnig sunddeild, rafíþróttir og svo almennar íþróttir. Einnig hefur félagið teflt fram meistaraflokki í körfubolta og handbolta. Þróttarar komust upp í Lengjudeildina í fótboltanum fyrir tímabilið ´22 en fyrir þá sem ekki vita er það næstefsta deildin í íslenskri knattspyrnu. Þeir stöldruðu reyndar bara við í eitt tímabil en hafa síðan þá verið í baráttunni um að komast upp aftur.
Hvað fékk Matta til að halda svona út í víking til Barcelona?
„Þetta hefur blundað í mér í nokkurn tíma, það eru svona akademíur víða á Norðurlöndum og Íslendingar hafa nokkuð mikið farið þangað til að kynna sér fræðin en ég var með augastað á Spáni sem er mjög framarlega í þessum akademíupælingum og þetta var frábær ferð í alla staði. Ég vildi einfaldlega víkka út sjóndeildarhringinn og sjá hvernig svona frábær knattspyrnu- og íþróttaþjóð eins og Spánn gerir hlutina. Við vorum tveir sem fórum í þessa ferð, vorum allan tímann í Barcelona en það er auðvitað risastór klúbbur og hefði verið gaman að sjá hvernig hlutirnir eru gerðir á þeim bæ, alla vega að fá litla innsýn. En þetta snerist meira um litlu klúbbana í borginni og m.a. vorum við mikið hjá félagi sem heitir Espanyol, fornfrægt félag stofnað árið 1900. Þetta er lið sem mun líklega aldrei ná að keppa við stóru liðin eins og granna sína í Barcelona og núverandi Evrópumeistara Real Madrid. Þeir eru mjög stoltir af akademíunni sinni sem er talin á meðal þeirra bestu á Spáni. Þeir hafa búið til marga frábæra leikmenn sem þeir selja svo til stóru liðanna á Spáni og annars staðar. Það eru hundruðir barna í akademíu Espanyol og hún var einmitt að fagna 100 ára afmæli á þeim tíma sem við dvöldum úti. Við vorum boðnir í afmælisveislu og í hana komu margar gamlar kempur úr röðum félagsins. Við nutum okkar til hins ýtrasta. Það er fróðlegt að sjá hvernig Espanyol gerir hlutina, þeir eru með akademíu og reyna taka á móti öllum en svo eru þeir líka með öflugt unglingastarf, eru með nokkur lið með ungum leikmönnum og þeir getuskipta hópnum.“
Þróttur með stórt hjarta
Espanyol er mjög heimilislegur og fallegur klúbbur sem minnti Matta mikið á klúbbinn sinn, Þrótt.
„Við erum ekki „stórir“ á íslenskan mælikvarða en erum með risastórt hjarta og viljum ná árangri en þá á ég auðvitað ekki við að við stefnum á að vinna titla. Árangur má líka meta út frá öðru, t.d. hversu heilsteyptum einstaklingum við skilum út í samfélagið og ef viðkomandi er líka góður í sinni íþrótt, er það aukabónus.
Það sem kom kannski einna mest á óvart var að sjá vellina þeirra alla nánast með gervigrasi, maður hefði einhvern tíma haldið að á Spáni væru bara grasvellir því það er alltaf sól þar. Álagið á vellina bara hjá Espanyol er slíkt að grasið þolir það ekki á árs grundvelli. Spánverjar eru komnir mjög framarlega í svokölluðu „hybrid“-grasi en það er blanda af náttúrulegu og gervigrasi líkt og verið er að gera með Laugardalsvöll um þessar mundir.
Við heimsóttum fleiri smáklúbba í Barcelona. Sérstaka athygli vakti lítið lið sem heitir SD Europa, önnur lítil félög líta mikið upp til þeirra en þeir eru með 800 unga iðkendur, kvennalið félagsins er í næst efstu deild á Spáni en karlaliðið eitthvað neðar en þarna er unnið gífurlega gott og fagmannlegt uppeldisstarf. Ég kom mér líka í kynni við aðra flotta aðila, t.d. Egypta sem á og rekur umboðsskrifstofu fyrir knattspyrnumenn með Mito, sem lék m.a. með Roma á Ítalíu og Tottenham. Hann var mjög áhugasamur um Ísland og er nú þegar byrjaður að kynna sér hlutina.
Tilgangur minn með ferðinni var að sjá hvernig aðrir gera hlutina og ég kom heldur betur ríkari maður úr þessari ferð sem vonandi nýtist félaginu og jafnvel öðrum félögum á landinu,“ segir Matti.
Fæddur og uppalinn í Vogum
Marteinn hefur blætt appelsínugulu Þróttarablóði frá því að hann fæddist árið 1979, mamma hans er þaðan en pabbinn er frá Sandgerði og spilaði með Reyni á sínum yngri árum.
„Pabbi minnir mig reglulega á feril sinn með Reyni en foreldrar mínir, þau Ægir Axelsson og Ásta Björk Marteinsdóttir, ráku bensínstöð í Vogum í tuttugu ár og þar hófst minn vinnuferill. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á öllum íþróttum, minn uppáhalds knattspyrnumaður var alltaf Skagamaðurinn Pétur Pétursson. Ég sá hann skora tvö mörk í bikarúrslitaleik á móti Fram 1986 og eftir það var ekki aftur snúið, hugsanlega er ég eini Suðurnesjamaðurinn sem held með KR en þangað fór Pétur tímabilið eftir bikarúrslitaleikinn. Ég reyndi að fá hann til að taka við liði Þróttar og voru það mér mikil vonbrigði að það tækist ekki en það sakaði ekki að reyna. Mér fannst alltaf gaman að fara með Nonna bróður á körfuboltaleiki í Ljónagryfjunni, hef alltaf haldið með Njarðvík í þeirri íþrótt, þ.e.a.s. þegar við Þróttarar sendum ekki lið til leiks. Annars æfði ég allar íþróttagreinar sem voru í boði í Vogum þegar ég var gutti en aðstæðurnar voru ekki beint til að hrópa húrra fyrir, ekkert íþróttahús fyrr en 1993. Á veturna æfðum við í samkomuhúsinu Glaðheimum og utan Voga á laugardögum, þar sem var laus salur. Við vorum með ágætis malarvöll sem við notuðum óspart og túnin þess á milli á sumrin og það var mikil bylting þegar gamli grasvöllurinn kom árið 1992, íþróttahúsið svo ári síðar. Fyrir íþróttafíkil eins og mig var þetta sem himnasending og ég æfði allar íþróttir og þá aðallega knattspyrnu með Þrótti upp að 25 ára aldri þegar ég flutti um tíma í Reykjavík. Ég var samt alltaf með puttana í starfinu, hafði verið þjálfari yngri flokka Þróttar og sinnt ýmsum verkefnum og svo ákváðum við nokkrir að hætta öllu hálfkáki og reyna gera hlutina betur þegar sveitarfélagið fór í mikla framkvæmd 2008 í gerð knattspyrnuvalla. Fram að því hafði Þróttur aldrei farið upp um deild en mikill uppgangur var framundan og ekki síst í eflingu félagsstarfs.“
Síðastir á Suðurnesjum til að eignast lið í hópíþrótt í meistaraflokki
Marteinn hefur frá því að hann man eftir sér verið viðloðandi starf Þróttar, fjölmörg skemmtileg verkefni hafa litið dagsins ljós, t.d. skráning liðs í bikarkeppni HSÍ á sínum tíma. Fyrir rúmum fimmtán árum ákváðu hann og aðrir hugsjónamenn í Vogum, að gera hlutina betur og reyna ná árangri með meistaraflokkinn í knattspyrnu.
„Ég æfði og spilaði með Þrótti þar til ég flutti í bæinn 25 ára gamall og þá var þetta meira til gamans, það verður að segjast alveg eins og er enda spiluðum við í neðstu deildum og utandeildinni. Mér var hent í þær stöður sem þurfti að fylla upp í en ég hafði afskaplega gaman af þessu. Spilaði aðeins með ÍH en var samt alltaf með puttann á púlsinum varðandi íþróttastarfið í heimabænum. Það varð nett sprenging í íþróttastarfinu þegar íþróttahúsið var vígt og fjölmargar íþróttagreinar voru stofnaðar. Það er ekki fyrr en 2008 sem við skráum lið til leiks í meistaraflokki karla í fótbolta og eðlilega var byrjað á 0-punkti. Við höfðum sett saman lið í handbolta sem tók þátt í bikarkeppni, við skráðum lið í firmakeppnir í fótbolta o.s.frv. en loksins árið 2008 var komið að fótboltanum og við skráðum lið til leiks á Íslandsmótinu. Neðsta deildin þá var þriðja deildin en á þessum tíma var ég formaður knattspyrnudeildar og við félagarnir ákváðum að ég myndi ekki spila, heldur myndi einbeita mér að rekstri knattspyrnudeildarinnar, hvort geta mín sem knattspyrnumaður spilaði inn í þessa ákvörðun skal ég ekki segja til um. Jakob Jónharðsson var fyrsti þjálfarinn, hann hafði verið aðstoðarþjálfari hjá Keflavík og okkur þótti stórt að fá Kobba til okkar. Okkar fyrsta markmið var bara að festa okkur í sessi. Við fengum fljótlega stimpil á okkur fyrir að vera harðir í horn að taka og miklir baráttumenn og það fleytti okkur langt. Við bættum árangur okkar á hverju ári og fyrsta markmiðið náðist, að vera til í fjögur ár. Árið 2012 var svo nýi grasvöllurinn klár en fram að því höfðum við verið á undanþágu á gamla vellinum sem nú er tjaldsvæðið. Það ár var deildum fjölgað og við hefðum þurft að enda í fjórða sæti okkar riðils, annars myndum við falla. Það tókst ekki og við féllum niður í nýja fjórðu deild en í dag er meira að segja sú fimmta komin. Árið 2013 varð kúvending má segja, við réðum Þorstein Gunnarsson sem þjálfara en hann hafði verið formaður knattspyrnudeildar UMFG í Grindavík og framkvæmdastjóri ÍBV. Mikil fagmennska kom með Steina og markmið okkar var að komast í úrslitakeppnina. Árið eftir komumst við í úrslitakeppnina en töpuðum í einvígi fyrir Álftanesi en ég gleymi ekki viðbrögðum okkar eftir leikinn, við hefðum getað verið grátandi tapsárir en við nikkuðum hvorn annan, við fundum og vissum að við værum komnir á beinu brautina, vorum sannfærðir um að við færum upp á næsta tímabili og sú varð raunin,“ segir Matti.
Alla leið upp í Lengjudeildina
Þarna voru Voga-Þróttarar komnir á beinu brautina. Steini Gunn þurfti að hætta með liðið vegna anna í vinnu og námi og nokkrir þjálfarar komu við sögu á næstu tímabilum.
„Við vorum ákaflega lánsamir á þessum árum varðandi vinnusemi stjórnarliða og við þjálfararáðningar. Úlfur Blandon, Binni Gests, Andri Steinn Birgis, Nonni Kristjáns, Hallur Kristján Ásgeirsson og fleiri góðir hafa gert frábæra hluti fyrir okkur. Allt saman frábært fólk sem setti mark sitt á félagið. Við héldum sama kjarna leikmanna og það var í raun aldrei spurning hvort við færum upp en það er sturluð staðreynd að fyrir tíu árum hafði Þróttur aldrei farið upp um deild. Við vorum mjög góðir þetta sumar 2015, flugum í raun upp í þriðju deildina og lentum í fimmta sæti á okkar fyrsta tímabili og lentum svo í öðru sæti árið eftir og komumst því upp í aðra deildina, sem jafngildir C-deild á Íslandi. Þarna er kominn mjög góður gangur hjá okkur og við náðum algerlega að festa liðið í sessi í deildinni og lögðum grunninn má segja að þeim stöðugleika sem við búum ennþá að í dag. Það var mikilvægt að taka yfir 30 stig fyrstu tvö árin í 2. deildinni árið 2018 og 2019.
Eftir þrjár umferðir tímabilið 2020 þurfti þáverandi þjálfari að hætta með liðið vegna fjölskylduaðstæðna og ég sem framkvæmdastjóri, fékk skipun um að finna nýjan þjálfara og helst svipaða týpu og Eyjapeyjann Hermann Hreiðarsson. Ég var búinn að þreifa á nokkrum aðilum en samt ekki kominn í neinar viðræður. Ég var staddur heima hjá mér þetta kvöld, ákvað að henda nafni Hermanns inn í Google og þar kom upp frétt, hann hafði hætt sem aðstoðarþjálfari Southend í Englandi sex dögum fyrr. Steini Gunn reddaði mér númerinu hjá Hermanni en sagði í leiðinni að Hemmi væri aldrei að fara taka við Þrótti en það sakaði ekki að reyna! Hermann tók símtalinu vel og var til í að hitta mig morguninn eftir. Við skildum þannig að hann myndi koma inn í fjóra leiki þar sem Sol Campbell væri hugsanlega að fara taka við liði erlendis og vildi fá hann með sér í það. Við áttum leik á útivelli á móti Njarðvík í millitíðinni. Skemmst er frá því að segja að Gunni Helga og Andy Pew stýrðu liðinu í leiknum, náðu upp dúndur stemningu og Hermann varð vitni að flottum sigri okkar. Hann sendi mér sms strax eftir leikinn, sagði mér að baða leikmenn upp úr Voga-ídýfu, hann væri klár. Það fagnaði enginn eins mikið eins og ég inni í klefa eftir leikinn, ég var að fagna því að vera kominn með Hemma Hreiðars sem þjálfara! Daginn eftir sagði ég við Gunna Helga sem þá var jafnframt stjórnarmaður, að við værum að fara skrifa undir við nýjan þjálfara en sagði honum ekki hver það væri. Ég sagði honum að við værum að fara á rúntinn og sótti hann fyrir klukkan átta daginn eftir, Gunni gat fengið sig lausan úr vinnu og við brunuðum. Þegar við vorum komnir á Selfoss spurði Gunni hvern við gætum notað þar og giskaði á Gunna Borgþórs, við keyrðum lengra og þegar við nálguðumst Hellu spurði Gunni hver þetta væri eiginlega. Ég sagði honum að teygja sig í möppu í aftursætinu og þá sá hann nafn Hermanns og við stoppuðum við Stracta hótelið sem hann á ásamt föður sínum, og þar var gengið frá samningnum. Við tókum góðan sprett við komu Hemma og enduðum í þriðja sæti og árið eftir unnum við svo aðra deildina og Þróttur var kominn upp í Lengjudeild, næstefstu deild í íslenskri knattspyrnu.“
Stöðugt annarar deildar lið og aðrar greinar
Hermann er Eyjamaður og gat ekki hafnað boði frá heimaklúbbnum að taka við liðinu fyrir tímabilið ´22 en það var einmitt fyrsta, og eina ár Þróttar í Lengjudeildinni.
„Hermann reyndist sannkallaður hvalreki á fjörur Vatnsleysustrandarinnar, það kom mikil stemning með honum en Hermann er frábær náungi og góð manneskja. Hann gaf sér alltaf góðan tíma fyrir og eftir æfingar og sinnti ungviðinu, þegar hann fékk boð um að taka við heimafélaginu þá skyldum við hann mjög vel, þú tekur ekki Eyjarnar úr Eyjamanninum. Hlutirnir gengu ekki upp með nýjum þjálfara sem gerði sitt besta og átti hrós skilið þrátt fyrir allt, og auk þess urðu breytingar á liðinu sem lukkuðust ekki. Við skiptum um þjálfara á tímabilinu en fall blasti fljótlega við, okkar eini sigur þetta tímabil var á móti grönnum okkar í Grindavík í eftirminnilegum leik. Síðan þá eru liðin tvö tímabil og í bæði skipti höfum við verið í baráttunni um að komast upp, lentum í fjórða sæti í fyrra og þriðja sæti á liðnu sumri. Það er mjög mikill getumunur á annarri deild og Lengjudeildinni en við erum að keyra okkar lið á mun minna fjármagni heldur en flest lið, ég held að mér sé alveg óhætt að halda því fram. Þess vegna tel ég gott og raunhæft markmið fyrir Þrótt í Vogum, að festa liðið í sessi í annarri deildinni sem stöðugt og gott lið en ef þannig árar og liðið er það gott, fái það að njóta sín og fara upp í Lengjudeildina. Þegar það gerist, þá verðum við að setja okkur strax nýtt markmið og læra af fyrri árum. Að vera með yfirlýst markmið um að festa okkur í sessi í næstefstu deild á Íslandi er kannski ekki raunhæft ef mið er tekið af fólksfjölda í Vogum og stærð Þróttar í dag. En hvur veit hvað framtíðin ber í skauti sér.
Ég er mjög ánægður með stöðuna hjá Þrótti í dag. Við höfum verið mjög heppnir með þjálfara, bæði í meistaraflokknum, yngri flokkunum og öðrum íþróttagreinum, og mér er til efs að til séu duglegri sjálfboðaliðar en þeir sem búa í Vogum. Við erum einstaklega samheldinn hópur og stemningin í klúbbnum er alltaf mjög góð, það þykir mér vera mjög mikilvægt. Við tökum reglulega inn nýjar greinar en þá gerist það venjulega þannig að einhver mjög áhugasamur um viðkomandi grein, dregur vagninn en ef hann eða hún yfirgefur skútuna, er erfitt að halda henni á floti. Við reynum alltaf að styðja vel við hugsjónafólkið. Ég tek sem dæmi körfuna, við náðum mjög langt í henni en þegar enginn var tilbúinn til að vera í forsvari, var þessu sjálfhætt. Við vorum komnir upp í fyrstu deildina en máttum þá ekki leika heimaleikina í Vogum, eftir það var þetta þungur róður og því miður lognaðist karfan út af. Það var okkur mörgum mikið áfall enda árangur liðsins frábær og mikil stemmning í kringum liðið. Þarna fékk Þróttur og bæjarfélagið kjörið tækifæri til að festa körfuna í sessi á mettíma. Eiginlega svindl í gangi, ef húsið í Vogunum hefði verið löglegt þá hefði verið farið af stað með yngri flokka í körfunni innan fárra ára þar sem fyrirmyndirnar voru þegar til staðar.
Félagið heldur líka úti sunddeild. Það er mikill uppgangur í sundinu, iðkendum hefur fjölgað. Thelma Rún Rúnarsdóttir þjálfari er grjóthörð og heldur öllum við efnið. Rafíþróttirnar eru nýjar og við erum ennþá að læra inn á þá íþrótt. Markmið félagsins er að halda úti öflugu yngri flokka starfi í knattspyrnunni frá 4. til 8. flokki þar sem sjö leikmenn eru inni á vellinum í einu.
Þarf að taka næsta skref í uppbyggingu íþróttamannvirkja
Marteinn leggur áherslu á að barna- og unglingastarf sé kjarninn í starfi Þróttar og það sé grunnurinn af afreksstarfi.
„Eftir mikla uppbyggingu í Vogunum síðustu árin þar sem mikil fólksfjölgun hefur átt sér stað þarf að fara að taka næsta skref í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Grunnurinn að slíku væru t.d. að gera íþrótta- og æskulýðsstefnu með aðkomu sveitarfélagsins og einn kaflinn í henni væri innviðauppbygging. Sveitarfélagið kom inn með miklum krafti 2014 þvert á flokka en núna þurfum við að taka þetta lengra tíu árum seinna. Okkur vantar betri vetraraðstöðu fyrir fótboltann og þurfum að horfa annað hvort til knattspyrnuhúss og/eða leggja gervigras með flóðljósum á knattspyrnuvöllinn okkar, þannig er hægt að fjölga æfingatímum og aðrar greinar fá að njóta sín betur í íþróttahúsinu“ segir Marteinn.
Stærsta ár í sögu Þróttar
Þróttur Vogum í samstarfi við sveitarfélagið héld Landsmót UMFÍ 50+ í sumar en það var útaf fyrir sig risa afrek að ná því í Vogana.
„Það tókst vel til og við erum ákaflega stolt af því hvernig Þróttarafjölskyldan stóð saman í þessu risastóra verkefni. Þarna lögðust allir á eitt og við fengum mjög jákvæða umsögn frá UMFÍ,“ segir Marteinn.
Þróttarar hafa einig verið að fikra sig áfram í starfinu.
„Í ár fórum við af stað með tilraunaverkefni og erum með níu æfingar á viku á sama tíma og börnin eru í frístundinni. Þarna er félagið að þjónusta skólann, frístundina og krakkarnir þurfa ekki að fara á æfingu þegar skóla lýkur á daginn. Vonandi verður hægt að halda áfram með þetta verkefni eftir áramót.“
Kæmi til greina að starfa fyrir annað félag?
„Ég er mikill Vogamaður og Þróttari, hér líður mér vel og ég hlakka alltaf til að mæta í vinnuna þó verkefnin geti verið krefjandi suma daga. Síminn sefur ekki í þessu starfi. Það er ekki á dagskrá að hætta. Eflaust kemur að því einn góðan veðurdag en þá myndi ég alltaf vilja hjálpa klúbbnum og velja að létta á með stjórnarliðum og öðrum. Ætli það gæfist ekki tími til að fara í golf en það er mikil pressa á mér frá vinum mínum að skella mér í þá göfugu íþrótt. Ég brenn fyrir íþrótta- og æskulýðsmál. Ef ég færi í bæjarpólitíkina mynd ég reyna styðja vel við bakið á þessum málaflokki. Einnig er ég áhugasamur um að móta stefnu í uppbyggingu á íþróttamannvirkjum og hlúa vel að að öllu því fólki sem starfar í kringum félagasamtökin í Vogum. Við erum sverð og skjöldur fyrir ungmennin í sveitarfélaginu. Íþróttir eru besta forvarnarstarf sem til er og verkfærin verða að vera til staðar svo hægt sé að vinna þessa vinnu á faglegan máta.
Það er öflugt fólk í stjórnum Þróttar með hjartað á réttum stað, þau eru að gera þetta af heilindum og af mikilli hugsjón. Ég hlakka mikið til framtíðarinnar og er sannfærður um að hún er björt fyrir Þrótt í Vogum,“ sagði þessi geðþekki maður, Marteinn Ægisson að lokum.
Lýsingar nokkurra valinkunna á Marteini.
Jónas Þórhallsson, guðfaðir grindvískrar knattspyrnu.
„Marteinn er einstakur gleðigjafi sem hlustar og framkvæmir, setti bæjarfélagið Voga á kortið! Hann brennur fyrir Þrótt og hefur auðveldað ungu fólki að velja sér búsetu í Vogum með öryggið fyrir börn í leik og starfi.
Ekki skemmir að hann á ættir að rekja til Sandgerðis, faðir hans og ég erum fæddir á sömu torfunni, nánast inn í vítateig.
Ég er stoltur yfir að hafa leiðbeint Matta frá fyrsta degi í hugsjónastarfi.“
Haukur Hinriksson, yfirlögfræðingur KSÍ
„Marteinn er fyrst og fremst kraftmikill, metnaðar- og ástríðufullur einstaklingur sem brennur fyrir íþróttastarfi Voga á Vatnsleysuströnd. Hans einkenni er réttlæti, væntumþykja, kurteisi og glaðlyndi og virðist hann eiga afar auðvelt með að fá fólk í lið með sér. Marteinn er júník!“
Tinna Sigurbjörg Hallgrímsdóttir, fyrrum formaður Þróttar í Vogum.
„Matti er auðvitað bara gull af manni, sannur vinur og lifir fyrir Þrótt. Hann er fjársjóður fyrir Þrótt sem ekki má vanmeta. Hann er traustur, það traustur að ég treysti honum fyrir veislustjórn í brúðkaupinu mínu. En svo fékk hann reyndar Covid og komst ekki!
Svo er hann líka bara svo skemmtilega óskipulagður í því sem hann gerir. En einhvern veginn gengur það bara alltaf upp hjá honum.
Þar sem Matti er, þar er gaman.“
Haukur Einarsson, formaður knattspyrnudeildar UMFG.
„Marteinn er einn kraftmesti liðsmaður sem ég hef kynnst. Þróttur í Vogum duttu í lukkupottinn að eignast hann. Ekki skemmir fyrir að hann er helvíti skemmtilegur.“
Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Þróttar.
„Marteinn hefur gefið líf sitt og sál í þau verkefni sem hann sinnir fyrir Þrótt Vogum og þykir honum ótrúlega vænt um félagið sitt. Hann leggur sitt af mörkum fyrir samfélagið og sinnir því af heilum hug. Einn af hans styrkleikum er að fá fólk með sér í lið og nær hann alltaf að draga fólk með sér í allskonar verkefni og sannfæra fólk um að taka þátt. Honum þykir vænt um vini sína og fjölskyldu og passar alltaf upp á sitt fólk. Hann getur verið með allt út um allt á skrifborðinu og hausinn á fjölmörgum stöðum í einu en þannig vinnur hann best og þar gerast töfrarnir og fáranlega góðar hugmyndir fæðast.“
Hermann Hreiðarsson, Eyjapeyji:
„Fyrst og fremst er Marteinn eldhugi sem lætur verkin tala. Ástríða hans fyrir klúbbnum sínum skín í gegnum hann og í kringum hann og þ.a.l smitar hann alla í kringum sig sem starfa í kringum klúbbinn. Og ást hans á skemmtilegasta sporti heims, knattspyrnu, skemmir ekki fyrir. Síðast en ekki síst er hann frábær vinur og fallegt eintak af mannveru.“
Þorsteinn Gunnarsson, borgarritari og fyrrverandi þjálfari Þróttar:
„Marteinn er ákaflega traustur og drífandi einstaklingur sem hefur borið félagið á herðum sér í meira en áratug. Hann lætur verkin tala og drífur samfélagið með sér til að byggja upp Þróttarafjölskylduna. Við urðum góðir vinir eftir að hann fékk mig til að þjálfa Þrótt á sínum tíma og ég fer reglulega á völlinn til að fylgjast með Þrótti spila.“