Hamfarir og körfubolti rauði þráðurinn í nýjum sjónvarpsþáttum
Heimildaþættir um Grindavík á Stöð 2 Sport Fyrsti þáttur frumsýndur 29. desember. Byrjaði sem körfuboltasería en varð að einhverju miklu stærra.
„Ég fékk skilaboð seint um kvöld viku eftir 10. nóvember þar sem hugmyndinni var skotið að mér, annar aðili skaut svo sömu hugmynd að mér daginn eftir,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn, leikstjórinn og framleiðandinn Garðar Örn Arnarson en 29. desember mun Stöð 2 Sport frumsýna fyrsta þáttinn í sex þátta seríu sem heitir einfaldlega Grindavík. Rauði þráðurinn í þáttunum er körfuknattleikslið Grindvíkinga á síðasta tímabili en fljótlega varð Garðari og þeim sem koma að gerð þáttanna ljóst, að þetta snerist um eitthvað miklu meira en bara körfuknattleik.
Garðar er ekkert að flækja heitin á þeim þáttum og kvikmyndum sem hann hefur komið að.
„Fyrsta heimildarmyndin sem ég gerði var um körfuknattleiksmanninn Örlyg Sturluson, ég skírði hana Ölli. Svo gerði ég þætti um annan körfuknattleiksmann, Jón Arnór Stefánsson, þeir þættir heita Jón Arnór og þættirnir um keflvíska knattspyrnumanninn Guðmund Steinarsson heita einfaldlega Gummi Steinars. Þegar hugmyndin að vikulegu þáttunum um körfuboltann fæddist hugsaði ég nafnið lengi, þátturinn fjallaði um körfubolta og yrði í beinni útsendingu á kvöldin; Körfuboltakvöld varð niðurstaðan. Ég er ekkert að flækja hlutina og því heita þættirnir um Grindavík einfaldlega Grindavík.“
Það var ekki Garðar sem fékk hugmyndina að þessum þáttum en viðfangsefnið átti heldur betur eftir að breytast frá því að tökur hófust, ekki löngu eftir 10. nóvember í fyrra.
„Það er alls ekki ég sem á hugmyndina að þessum þáttum og í raun eru þau tvö. Viku eftir rýminguna 10. nóvember fékk ég skilaboð frekar seint um kvöld frá Ólöfu Helgu Pálsdóttur sem er frá Grindavík og hefur verið að vinna við þættina um kvennakörfuna. Hún var að horfa á seríuna um Jón Arnór og sagði að það þyrfti að gera það sama með Grindavík. Daginn eftir skaut Ingibergur Þór Jónasson, formaður Körfuknattleiksdeildar Umfg, sömu hugmynd að mér. Tveimur dögum seinna vorum við í raun byrjaðir. Fyrsti tökudagurinn var fyrir útileikinn gegn Val en á þessum tímapunkti var lið Grindavíkur eiginlega með allt í skrúfunni. Þeir unnu Hamar viku eftir rýmingu en steinlágu svo fyrir Keflavík og töpuðu líka þessum leik fyrir Val. Það var ekki erfitt að ímynda sér að leikmenn ættu í erfiðleikum með einbeita sér að því að spila körfubolta þegar þeir vissu kannski ekki hvar þeir myndu gista í næstu viku eða í hvaða leikskóla eða skóla börnin þeirra væru að fara í. Við byrjuðum sem sagt að mynda inni í klefa fyrir leik, í hálfleik og eftir, mynduðum alla leiki liðsins þannig og líka nokkra leiki hjá kvennaliðinu. Fljótlega fæddist sú hugmynd að fylgja ákveðnum leikmanni eftir á leikdegi en eins og sjá má fórum við af stað með körfuboltaseríu í huga, byrjuðum með tómt blað og handritið fæddist einfaldlega eftir því sem atburðarrásinni fleytti fram og hún átti heldur betur eftir að breytast,“ segir Garðar Örn.
Kúvending í janúar
Segja má að allt breytist fyrir Grindavík og Grindvíkinga í byrjun janúar á þessu ári þegar hið hörmulega slys gerist þar sem maður féll ofan í sprungu og hefur ekki fundist, og hraun tekur þrjú hús. Þættirnir tóku sömuleiðis miklum breytingum þá.
„Þessir þættir fara frá því að vera körfuboltasería sem höfðar til þeirra sem hafa áhuga á þeirri íþrótt, yfir í að vera raunveruleikasería um líf fólks sem er að takast á við ótrúlegar áskoranir. Rauði þráðurinn er auðvitað körfubolti en við þessa hörmulegu atburði í janúar þegar maðurinn fellur ofan í sprunguna og skömmu síðar þegar eldgosið nær inn fyrir varnargarða og tekur þrjú hús, erum við með miklu alvarlegra viðvangsefni. Fram að því var umræða Grindvíkinga að þeir væru að fara flytja fljótlega heim aftur en þetta breytti öllu held ég að mér sé óhætt að segja. Eftir það förum við að fókusera jafn mikið á hinn almenna Grindvíking, eins og körfuboltafólkið. Í flestum tilvikum stuðningsfólk liðsins en líka tekin viðtöl við fólk sem var ekki endilega að mæta á leiki liðsins. Tökur voru í gangi í allt sumar og lauk við eldgosið í ágúst, við vorum að taka upp viðtöl í gömlu dráttarbrautinni í Keflavík þá en öll sitjandi viðtöl voru tekin upp þar. Við brunuðum upp á Patterson-svæðið og sáum eldgosið byrja.“
Sýnt út um allan heim?
Garðar hefur í nægu að snúast í vinnu sinni hjá Stöð 2 Sport en þessi sería um Grindavík er sú fimmtánda sem hann kemur að, aðrar eru í smíðum og hann mun á nýju ári fara á kvikmynda- og sjónvarpsþáttahátíðir úti í heimi með það fyrir augum að selja þessa þætti.
„Það eru klárlega tækifæri á að selja þessa seríu. Þetta er verkefni sem þú dettur inn í einu sinni á ævinni og viðvangsefnið er mjög dramatískt. Að fólk sé hrakið frá heimilum sínum og samfélaginu tvístrað út um allt, en á sama tíma séu grindvískir körfuknattleiksmenn og -konur að reyna standa sig inni á vellinum og búa til frábærar samverustundir fyrir Grindvíkinga. Inn í þetta fléttast svo mannlífið í heild sinni í Grindavík, ég vil trúa að við séum með einstaka þáttaseríu í höndunum sem muni eiga erindi annars staðar en bara á Íslandi. Ég er mínum yfirmönnum á Stöð 2 Sport mjög þakklátur fyrir trúna sem þeir hafa á mér og Sigurði Má Davíðssyni sem framleiðir þættina með mér og er kvikmyndatökumaður. Eins og hjá öðrum fyrirtækjum er sett upp fjárhagsáætlun fyrir hvert ár þar sem ákveðið fjármagn fer í gerð svona sjónvarpsefnis. Budget-ið var löngu búið þegar hugmyndin fæddist og búið var að ákveða í hvað fjármagnið færi á þessu ári en þeir sem stýra þeim málum hjá fyrirtækinu sögðust einfaldlega redda því og hvöttu okkur áfram. Það er mjög gott að fá þetta traust og ég hef mikla trú á þessu. Við sem vinnum á Stöð 2 Sport tókum ákvörðun um að þættirnir yrðu bara sýndir á þeirri stöð en ekki líka á Stöð 2, mig grunar að áskriftum muni fjölga fyrir 29. desember þegar fyrsti þátturinn verður sýndur. Hann verður svo sýndur næstu fimm sunnudagskvöld þar á eftir. Við munum fylgja þáttunum eftir og það verkefni gæti tekið allt að tvö ár, ég mun þá mæta á hátíðir og kynna þættina, ég hlakka mikið til þeirrar vegferðar,“ segir Garðar.
Halldór Gunnar Fjallabróðir semur tónlistina
Í allar góðar myndir þarf góða tónlist og það virtist skrifað í skýin að Fjallabróðirinn Halldór Gunnar Pálsson, yrði fenginn til að semja tónlistina í þættina. Halldór Gunnar á stað í hjarta Grindvíkinga eftir að hann stóð að styrktartónleikum í Hörpu sl. vor en í kynningu á sviðinu munaði minnstu að hann brotnaði saman, harmleikur Grindvíkinga minnti hann á þær hamfarir sem hann sjálfur lenti í á sínum heimaslóðum fyrir vestan.
„Ég heyrði lag í sumar sem snerti mig djúpt, Hafið eða fjöllin í flutningi Fjallabræðra. Það fyrsta sem ég hugsaði að lagið hefði verið samið um Grindavík og var með það á heilanum. Ég hafði samband við Sverri Bergmann upp á að syngja lagið í þáttunum og þannig komst ég í kynni við Halldór Gunnar. Ég sagði Halldóri að ég væri í veseni með tónlistina í myndina og úr verður að Halldór Gunnar ákveður að semja hana. Það eru ekki nema um tveir mánuðir síðan þessi hugmynd fæddist og mig grunar að Halldór Gunnar sé ekki búinn að ná að sinna öðru í leiðinni, hann einfaldlega hellti sér út í verkefnið og að mínu mati er tónlistin fullkomin í þættina, ofboðslega áhrifarík og hún verður gefin út á Spotify. Öll tónlistin í þáttunum er án söngs, fyrir utan þetta lag, Hafið eða fjöllin, Sverrir syngur það í lokaþættinum. Leiðir okkar Halldórs Gunnars áttu greinilega að liggja saman, ég frétti eftir á hvernig hann snerti taug Grindvíkinga á þessum tónleikum í Hörpu og þetta var held ég skrifað greinilega í skýin, að Halldór Gunnar myndi semja tónlistina í þættina, ég er mjög ánægður með að fá þennan snilling í verkefnið.
Ég er mjög spenntur fyrir þessum þáttum en þetta er stærsta, ef ekki langstærsta verkefni sem ég hef komið að. Eftirvænting okkar fyrir 29. desember þegar fyrsti þátturinn verður sýndur er gífurleg, ég held að ég hafi sem krakki ekki verið eins spenntur fyrir jólunum! Það verður líka spennandi að fylgja þáttunum eftir og reyna selja þá erlendis. Við erum með þrjá aðra þætti í smíðum, svo er bara að fá næstu hugmynd að verkefni, það er ýmislegt spennandi á borðinu en ekki tímabært að minnast á það hér og nú,“ sagði Garðar Örn í lokin.
Ummæli frá áhorfendum á forsýningu.
Eva Lind Matthíasdóttir:
Hvernig var að upplifa atburðina aftur með áhorfi á fyrstu tvo þættina?
Fyrstu tveir þættirnir um Grindavík voru magnaðir, þvílík lukka að ákveðið hafi verið að fylgja liðunum okkar eftir og taka upp söguna okkar. Mér leið oft meðan ég horfði eins og það væru mörg ár síðan atburðirnir voru að gerast.
Gæsahúð út í gegn.
Sævar Sævarsson:
Nú ert þú ekki Grindvíkingur, hvernig myndirðu lýsa þessari þáttaröð fyrir þig persónulega, í þremur orðum?
Erfitt að koma með þrjú orð eftir að hafa séð fyrstu tvo þættina og hvernig þeir vöktu upp allskonar tilfinningar. En kannski þessi eigi best við: Áhrifamiklir, tilfinningaþrungnir og stórskemmtilegir.
Helga Dís Jakobsdóttir:
Hvernig fannst þér fyrstu tvær þættirnir?
Mér fannst fyrstu tveir þættirnir geggjaðir og spegla rosalega vel þennan tíma. Ég held líka að þetta komist næst því að aðrir fái að sjá og fá tilfinningu fyrir hvernig þessi tími var fyrir okkur Grindavíkinga.
Pétur Hafsteinn Pálsson:
Hvernig tilfinningar voru að brjótast út eftir að þú horfðir á fyrstu tvo þættina?
Doði, tómleiki, reiði. Erfitt að átta sig á því. Ekki ólíkt viðbrögðum Bjarna Ólivers Ólasonar, átta ára sem þá var hjá okkur á Glæsivöllunum seinnipart 10. Nóv. „Þetta er svo ósanngjarnt, það eru bara jarðskjálftar hjá okkur, ekki í Reykjavík eða neinstaðar”.