HS Orka
HS Orka

Mannlíf

Með öðruvísi reynslu  á bakinu en flestir
Jón Ingi með drottningunni, Boeing 747.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 25. desember 2024 kl. 07:40

Með öðruvísi reynslu á bakinu en flestir

Jón Ingi Jónsson, flugstjóri, vissi sem pjakkur hvað hann vildi verða

„Mamma og pabbi hefðu ekki tekið neitt annað í mál en við myndum halda áfram,“ segir Keflvíkingurinn Jón Ingi Jónsson, flugstjóri hjá Air Atlanta. Hann vissi snemma hvað hann vildi verða þegar hann yrði stór en lét þó ekki drauminn rætast fyrr en hann var orðinn 26 ára gamall. Hann tók þátt í stofnun flugfélags, var svo partur af því að stofna Icejet, íslenskt einkaþotufélag og sá um reksturinn á því í nokkur ár, fór í stjórnunarstöðu hjá Air Atlanta samhliða því að fljúga en hefur síðan 2014 „bara“ verið við stýrið á bumbunni svokölluðu, drottningunni Boeing 747. 

Lífshlaup Jóns Inga hefur síður en svo verið dans á rósum, 30. nóvember árið 2000 lenti hann í því ömurlega áfalli að missa báða foreldra sína í bílslysi. Það hvernig Jóni Ingi og tveir yngri bræður hans tókust á við áfallið er eitthvað sem allir sem lenda í áfalli, geta lært af.

Þó svo að Jóni Ingi búi í Innri-Njarðvík í dag segist hann vera helblár Keflvíkingur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég er fæddur árið 1972 og tek fyrstu tvö árin í Keflavík en svo ákváðu mamma og pabbi að flytja á Neskaupstað, þaðan sem pabbi var. Hann fór á sjó þar á togara og þarna erum við þar til ég er sex, sjö ára þegar við flytjum aftur suður. Fyrstu æskuminningarnar eru því að austan og í minningunni var gott og gaman að alast þar upp, mikill snjór á veturna og sólrík sumur, maður var frjáls eins og fuglinn við leik úti og kom bara heim til að borða þegar maður var svangur, og til að sofa. Þarna hefst skíðaferillinn sem síður en svo sér fyrir endann á. Pabbi var mikill skíðamaður og varð Austurlandsmeistari nokkrum sinnum þegar hann var ungur. Ég náði að fótbrotna þegar ég var sex ára en lét það ekki stoppa mig og hef alltaf stundað skíðin grimmt, er m.a. búinn að fara í 23 ár í röð á Akureyri á skíði með börnin og kennt þeim öllum. Ég fer sömuleiðis á hverju ári til Austurríkis á skíði. Ég er kominn með mikinn áhuga á fjallaskíðum ásamt Ingibjörgu unnustu minni, og svo eigum við Árni bróðir snjósleða og höfum mikið gaman af því sporti.

Jón Ingi með frumburðinum sínum, Rúnari Inga á golfvellinum í Brautarholti á Kjalarnesi. Sagan segir að ekki sé langt í að Rúnar verði föðurbetrungur í golfi.

Þegar við fluttum að austan settumst við fyrst að í Njarðvík og ég tók fyrsta og annan bekkinn þar og svo fluttum við á Túngötuna í Keflavík. Ég gekk í Myllubakkaskóla og svo Holtaskóla og fór þaðan í FS á íþróttabraut.

Jón Ingi og Árni á góðri stundu.

Ég kláraði ekki stúdentinn, áhuginn ekki mikill á bókunum en áhugi á íþróttum var mikill. Ég æfði fótbolta með Keflavík upp í meistaraflokk, þó án þess að spila mikið þegar þangað var komið. Ég var og er með skæðan vinstri fót og var hluti af sterkum árgangi í yngri flokkum Keflavíkur, var annað hvort vinstri bakvörður eða vinstra megin á miðjunni. Ég skipti síðan yfir í Njarðvík og spilaði með þeim í meistaraflokknum, þá vorum við að berjast um að komast upp í það sem heitir Lengjudeildin í dag. Ég á bara góðar minningar frá fótboltaárunum, frábær félagsskapur sem ég bý enn að í dag.“

Vilborg er sannkallaður föðurbetrungur þegar kemur að körfuknattleik.
Almar er miðbarn Jóns Inga og Völu Rúnar, hann er mikið efni í körfuknattleik, eins og sá yngsti, Arnór Darri.
Sat á vélarhlífinni og vissi hvað hann vildi verða

„Ég hef verið í kringum átta ára aldurinn þegar ég var að sniglast með afa á rútunni sem hann keyrði hjá SBK. Hann þurfti stundum að keyra upp á flugvöll og sækja menn sem unnu fyrir bandaríska herinn á vellinum og ég fékk að fljóta með. Við fengum að keyra nánast upp að þessum stóru vélum og ég sat á vélarhlífinni agndofa yfir stærðinni og hávaðanum sem kom frá þeim. Mér fannst þetta svakalega svalt og ákvað þarna hvað ég ætlaði mér að verða þegar ég yrði stór.

Ég var alltaf með þetta bak við eyrun og fór á einkaflugmannsnámskeið í Reykjavík sautján ára gamall og til að safna flugtímum keypti ég mig inn í Suðurflug. Ég var ungur farinn að vinna fyrir mér í Nonna og Bubba og var búinn að safna mér smá pening sem átti að nýtast í flugnámið, en tók þá u-beygju og keypti mér bíl í staðinn.

Árið 1994 byrjaði ég að vinna í sumarstarfi hjá Icelandair, var í farþegaafgreiðslu að sjá um séraðstoðina, innritun og rampinn, þá að taka á móti og sjá um brottfarirnar á vélunum. Þetta er næst skemmtilegasta starf sem ég hef unnið, vinnumórallinn frábær og breytileikinn og ævintýrin satt best að segja ótrúleg. Þarna finn ég aftur lyktina af fluginu og áhuginn byrjar að blossa upp.

Það er samt ekki fyrr en fjórum árum síðar sem ég fæ nokkurs konar uppljómun og gleymi því augnabliki aldrei. Ég vaknaði með elsta syni mínum á laugardagsmorgni, hann u.þ.b. átta mánaða gamall. Ég var ofboðslega hamingjusamur og sá bara lífið sem beina braut. Ég var að hugsa um framtíðina og spurði sjálfan mig að því hvort það væri eitthvað sem ég myndi sjá eftir að hafa ekki gert þegar ég væri kominn á elliheimilið. Flugið var það eina sem kom upp í hugann. Ég yrði aldrei sáttur nema að hafa látið á það reyna að læra flugmanninn. Nokkrum mánuðum síðar var ég kominn til Bandaríkjanna í atvinnuflugmannsnám.“

Hvað myndir þú ráðleggja framtíðarflugfólki í dag?

„Klára framhaldsskólann, ekki spurning. Það er orðin ein af kröfunum í dag til að fá vinnu, t.d. hjá íslensku flugfélögunum. Auðvitað er gott að vera góður í ensku en það er eitthvað sem samfélagsmiðlar kenna unga fólkinu okkar í dag betur en ENS103. Síðan þarf auðvitað að safna pening fyrir náminu þar sem flugnám er því miður mjög dýrt og lítið lánshæft.

Þó það fylgi mikill ljómi að vera flugmaður þá þurfa lang flestir að sýna mikla þrautseigju og dugnað til að koma sér í fyrstu borguðu vinnuna. Það er mikið um uppsagnir á veturna, fólk gæti þurft að búa erlendis og vinna á nóttunni, jólunum og missa af ýmsum viðburðum hjá fjölskyldu og vinum. Í krísum eins og 11.september og covid misstu flestir flugmenn vinnuna. Talandi um covid þá hef ég aldrei flogið eins mikið sjálfur á ævinni þar sem Air Atlanta er mest megnis í vöruflutningum á meðan margir af mínum félögum á Íslandi misstu vinnuna tímabundið.“

Fyrsta flugvinna Jóns Inga var á Dornier 328 flugvél City Star Airlines.
City Star Airlines og einkaflug með þá frægu

Jón Ingi hélt til mekka atvinnuflugnáms í Flórída í Bandaríkjunum á þeim tíma, n.t.t. í Vero beach. Hann byrjaði ekki strax að fljúga að námi loknu og átti eftir að fara aðra leið en flestir flugmenn.

„Það var hagstætt og hentugt að fara út til Bandaríkjanna að læra flugið og ég valdi að læra undir bresku atvinnuflugsmannsreglunum, ég vissi að það gilti hér á landi. Þarna gat maður flogið eins og fuglinn, ekkert veðurvesen og aðstæðurnar upp á tíu. Flugtíminn kostaði bara brotabrot af því sem hann kostaði hér heima. Ég byrjaði námið í maí 1998 og lauk því árið 2000. Ég vann með skólanum hjá Icelandair og gat strax komist í fasta stöðu hjá fyrirtækinu í farþegaafgreiðslunni þegar ég kom heim. Árið eftir mætti 9/11 svo eitthvað lítið var ráðið inn af flugmönnum næstu árin. Fyrsta flugvinnan er í raun hjá sjálfum mér því mér bauðst að taka þátt í stofnun flugfélagsins City Star Airlines, sem ætlaði sér að fljúga með viðskiptamenn frá Aberdeen í Skotlandi þar sem er mikill olíuiðnaður.

Með viðskiptaplan stimplað af KPMG byrjuðum við að labba göturnar í leit að hlutafé, ekki auðveld ganga það en nægilegt fé safnaðist til þess að ég hætti hjá Icelandair vorið 2004, flugplanið sá sem sagt til sólar. Komandi ár varð verulega eftirminnilegt þar sem við fórum í að semja við flugvélaeigandann og taka svo á endanum við einni Dornier 328 skrúfuvél. Vélin þurfti að gangast undir stóra viðhaldsskoðun í Bern í Sviss og ég dró stutta stráið að fara með henni í það. Ofan á það að fylgja flugvél í gegnum stóra viðhaldsskoðun, sem ég hafði auðvitað aldrei gert áður, þurftum við að huga að ýmsu. Ég verð að taka það fram að hópurinn á bak við startið á þessu félagi var algjörlega frábær, flugmenn, fjármál, operation og ferðaskrifstofufólk sem höfðu mikla trú á planinu. Allir vorum við hluthafar í félaginu sem höfðum sett fjármagn í startið.

Ég verð að segja frá því að auðvitað gengur ekki allt upp þegar að svona viðamiklu verkefni kemur en það sem stendur efst í mínum huga er liturinn á vélunum. Sko, lógó liturinn var Tag Heuer silfur litur og vélin/vélarnar áttu að vera í þeim lit. Einhvern laugardaginn í Aberdeen lögðum við allar prufurnar frá sprautuverkstæðinu út í sólina og byrjuðum að vega og meta hvað væri næst litnum sem lógóið væri í. Til að gera langa sögu stutta þá var símtalið, eftir að vélin var búin að vera í viku í sprautun í Norwich, mjög vandræðalegt; „strákar, shit þessi litur er miklu dekkri en logóliturinn. Úps, ekki aftur snúið,“ segir Jón Ingi og hlær.

Noregur er mjög framarlega í olíuiðnaðinum og mikil eftirspurn var eftir flugi frá Aberdeen til Osló og þangað var byrjað að fljúga árið 2005.

„Nýtt félag, nýtt fólk, ný flugleið, þetta leit mjög vel út og var frábær tími. Ég og Vala, þáverandi unnusta, og Vilborg dóttir okkar höfðum flutt til Aberdeen og bjuggum okkur til fallegt líf þar. Félagið stækkaði og vakti áhuga hjá íslenskum fjárfestum sem hétu Nordic Partners, þeir höfðu keypt fimm Dornier 328 þotur, planið var að breyta þeim í einkaþotur.

Þessir aðilar sáu viðskiptatækifæri í að fljúga til og frá Íslandi. Málin þróuðust á þann máta að ég hætti sem starfsmaður City Star en var ennþá hluthafi. Því miður gekk City Star ekki upp og því ævintýri lauk vorið 2008. Eftir að ég hætti fór ég í að stofna annað flugrekstarleyfi fyrir Icejet ásamt öðru góðu fólki, vélar Nordic Partners fóru á það leyfi. Til að byrja með sá ég um flesta hluti sem komu að hverju flugi, gerði tilboð í viðkomandi flug, rukkaði það, pantaði matinn, bjó til flugplanið, pantaði þjónustuna á flugvöllum og var svo í áhöfninni sem flaug flugið. Mjög skemmtilegur tími! Á endanum var þetta of mikið fyrir mig einan svo Björn bróðir kom til hjálpar og við unnum í þessu saman í fjögur ár, frábær tími fyrir okkur bræðurna.“

Jón með Björn Vilberg sem vann með honum hjá Icejet, við hliðina á sér og Árni er lengst til hægri.
Ronaldo og Robbie Williams

„Næstu ár voru svakalega skemmtileg og Icejet hafði nóg að gera en við fjármálahrunið 2008 var fótunum kippt undan okkur. Nordic partners fór illa út úr hruninu og áður en varði var Landsbankinn orðinn nýr eigandi af flugvélunum. Ég rétt náði að fljúga einni vélinni frá Íslandi en þarna fer allt í frost má segja. Landsbankinn var aldrei að fara reka einkaflugvélaþjónustu en samt voru þeir með þrjár vélar sem við leigðum af þeim. Þarna setur Bretinn hryðjuverkalögin á okkur vegna Icesave og mér er mjög minnisstætt þegar það kom beiðni frá Bretlandi um flug með Icejet, nafn kúnnans var Mr. G. Brown [Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands 2007 til 2010]. Þar sem hann var nýbúinn að setja hryðjuverkalög á okkur Íslendinga vildi ég kanna þetta betur og eftir frekari samræður við hann gerði hann sér grein fyrir að félagið og fólkið sem myndu fljúga með hann væru Íslendingar. Allt var móttekið og túrinn greiddur fyrirfram þar sem við treystum honum ekki frekar en hann okkur!

Við hjá Icejet flugum með mikið af frægu fólki á þessum árum, eins og hljómsveitirnar Coldplay, Sex pistols, Oasis og Robbie Williams svo dæmi séu tekin en einna eftirminnilegast er að hafa flogið með portúgalska knattspyrnumanninn Christiano Ronaldo. Hann var með mömmu sína, systkini og fullt af börnum. Ég gleymi því aldrei þegar við vorum að smala börnunum eins og lömbum í rétt, hlaupandi sitthvoru megin við flugvélina. Þarna kom sér vel að allir voru í góðu formi!

Við héldum áfram að fljúga með þjóðhöfðingja og merkisfólk til 2010 en þá lauk þessum kafla. Við tók nett hark má segja, ég var að leigja vélar og gera hitt og þetta, flaug flugvélum sem þurfti að flytja á milli staða, mér bauðst að taka við einkaflugvélaþjónustu í Bretlandi en fann að ég var kominn með nóg af þeim bransa. Fyrr en varði opnuðust næstu dyr fyrir mig,“ segir Jón Ingi.

Air Atlanta

Jón Ingi var búinn að eiga farsælan starfsferil í flugstöðinni hjá Icelandair í Keflavík og var með augastað á næsta umsóknarferli til flugmanns hjá fyrirtækinu en þá gripu örlögin í taumana.

„Einn eigenda Air Atlanta hitti mig óvænt á Keflavíkurflugvelli og bauð mér starf, bæði sem stjórnanda að sjá um áhafnamál og sem flugmaður. Ég hóf störf árið 2011 og vorið 2012 fór ég í þjálfun á bumbuna svokölluðu. Upp frá því hófst flugferill minn hjá fyrirtækinu. Hugmyndin að stjórnunarstöðu og flugvinnu var að hafa tengingu milli stjórnenda hér á Íslandi við Saudi Arabíu en þar var öll flugstarfsemin á þeim tímapunkti. Ég fór því út og flaug, gat svo komið heim og gefið skýrslu um hvernig málin stæðu úti. Ég var jöfnum höndum í þessu fram til ársins 2015 og hef síðan þá „bara“ verið í fluginu, varð flugstjóri árið 2016 og hef undanfarin fjögur ár einnig verið þjálfunarflugstjóri.

Ég sé ekki fram á neitt annað en fljúga hjá Atlanta þar til flugferlinum lýkur þegar ég verð 65 ára eins og reglan er í dag en mig grunar að það verði búið að breytast þegar að þeim tímapunkti kemur hjá mér. Við förum reglulega í læknisskoðun og ég hef í raun aldrei skilið rökin fyrir því að flugmenn þurfi að hætta að fljúga 65 ára gamlir, af hverju mega aðrir vinna til 67 ára? Þetta hlýtur að snúast um heilsu og ef viðkomandi er við hestaheilsu 65 ára á hann að geta flogið allavega tveimur árum lengur.

Að fljúga hjá Atlanta er ekki fyrir alla, fjarvera frá fjölskyldu er mörgum erfið en þetta hefur hentað mér. Ég er úti í þrjár vikur og þrjár heima. Við gistum alltaf á fjögurra eða fimm stjörnu hótelum þegar við erum að fljúga svo það er ekki undan neinu að kvarta. Ég er að fljúga mjög fjölbreytt flug og þarf oft að takast á við öðruvísi áskoranir, að fara inn á flugvelli í Afríku, t.d. á 747, þar sem aðbúnaður er ekki eins og best verður á kosið. Mér finnst ofboðslega skemmtilegt að fljúga út um allan heim og endalaus fjölbreytni í hverjum þriggja vikna vinnutúr, „it's like box of chocolate, you never know what you get.“ Hvort sem ég er að fljúga til og frá Ameríku, hoppandi á milli flugvalla í Afríku, komandi við í Dubai eða Saudi-Arabíu eða þá að eyða jólum og áramótum í Shanghai eins og planið er fyrir komandi hátíðir. Ég hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum með mánaðarskráninguna, þ.e. hvert ég er að fljúga og einfaldlega uni hag mínum mjög vel hjá þessu fyrirtæki.

Ég spila eins mikið golf og ég get í vinnunni, það er ekki amalegt að geta stundað þessa frábæru íþrótt í góðu veðri á frábærum völlum úti í heimi, ég næ stundum að spila meira golf þegar ég er í vinnunni en þegar ég er hér heima.“

Jón Ingi og bræðurnir Björn Vilberg og Árni, og foreldrarnir Jón Rúnar Árnason og Vilborg Jónsdóttir.

Ólýsanlegt áfall

Jón Ingi og bræður hans tveir, þeir Árni sem er fjórum árum yngri og Björn Vilberg sem er ellefu árum yngri, upplifðu eina þá verstu martröð sem hægt er að ímynda sér. Á einu augabragði misstu þeir báða foreldra sína í hörmulegu bílslysi þegar tveir bílar keyrðu á hvorn annan á Reykjanesbrautinni. Jón var tilbúinn að opna sig og ræða þessa erfiðu lífsreynslu, ekki síst til að geta vonandi hjálpað öðrum sem lenda í svipuðu áfalli.

„Það er ótrúlegt í raun að rifja þetta upp, ég er 52 ára gamall í dag, pabbi var 49 ára og mamma ekki nema 45 ára þegar þau dóu í blóma lífsins. Það er ennþá óraunverulegt að þetta hafi gerst og sumt er í rauninni í mikilli móðu, það er eins og líkaminn slökkvi á þessum minningum til að hlífa manni. Hvernig við bræðurnir náðum að komast í gegnum þetta og standa allir tiltölulega uppréttir í dag, Bjössi bróðir er ekki nema sautján ára og það hvernig hann hefur tæklað þetta er einstakt finnst mér, hann er alger hetja í mínum augum. Árni er í miðjunni og hefur verið mikill og traustur klettur og einhvern veginn höfum við farið saman í gegnum 24 ár af sorg og söknuði. Þetta var vont, varð verra og svo versnaði þetta mjög mikið en í dag höfum við lært að lifa með því sem gerðist. Ég skil ekki ennþá hvernig við komumst í gegnum þetta. Það var erfitt að horfa upp á ömmur okkar og afa. Það á ekkert foreldri að þurfa grafa börnin sín. Tilhugsunin um tvær kistur hlið við hlið í jarðarförinni er nánast óbærileg. Ég á alltaf erfitt með að mæta í jarðarfarir, þær ýfa upp djúp sár en ég reyni að láta mér líða betur við að það sé þó bara ein kista.

Slysið gerist í lok nóvember og jólin nokkrum vikum seinna voru mjög erfið en við bræðurnir ákváðum að þau skyldu verða haldin á Túngötunni, æskuheimilinu okkar. Það voru mjög þung jól eins og öll jól seinustu 24 ár. Jólin eru því miður ekki minn uppáhaldstími þar sem minningin um jólin úr æskunni eru hlaðin umhyggju og gleði. Jólin í dag eru fyrir börnin mín og ég passa upp á að þeirra upplifun á jólunum verði eins og við bræðurnir upplifðum með okkar foreldrum.

Mamma og pabbi voru nýbúin að selja húsið og ætluðu að minnka við sig og þurfa að rifja upp þegar við þurftum að tæma húsið og fara í gegnum alla þeirra muni og skila húsinu af okkur í leiðinni, fæ alltaf kökk í hálsinn þegar ég rifja þetta upp.

Pabbi Jóns Inga, Jón Rúnar Árnason, með elstu barnabörnin, Rúnar Inga og Alexöndru, dóttur Árna.

Maður sá á þessum tíma hversu mikilvægt er að eiga góða að, ótal margir sem lögðu sig alla fram við að létta undir með okkur. Ég verð að minnast á barnsmóður mína, Berglindi og þáverandi tengdaforeldra, Hjöddu og Sigþór. Ég verð þeim ævinlega þakklátur fyrir stuðninginn sem ég fékk frá þeim. Það sem bjargaði mér samt mest var lítill strákur sem heitir Rúnar Ingi og er elsti sonur minn. Ég varð að halda áfram fyrir hann. Þessi brosmildi, ljóshærði og glaðværi strákur vildi alltaf fá pabba sinn með sér í fótbolta, golf eða út á róló að leika. Ég veit ekki hvernig mér hefði vegnað ef hans hefði ekki notið við á þessum tíma.

Reyndar var ég líka með hugfast hvað foreldrar mínir hefðu viljað, þau hefðu ekki tekið neitt annað í mál en að ég myndi halda áfram og ef ég hefði leiðst út í einhverja vitleysu þá er ég viss um að ég hefði ekki fengið að sofa á nóttunni, mamma hefði séð til þess! Þetta hélt mér gangandi og ef ég get á einhvern hátt ráðlagt fólki sem lendir í svona hrikalegu áfalli, þá er það að reyna að losna við alla reiði. Ég spurði mig fyrst um ástæðuna fyrir þessu, af hverju þurftum við bræður að lenda í þessu áfalli en maður getur ekki fengið svör við svona spurningum og því best að vera ekki að eyða tíma sínum í að velta sér upp úr slíku, ekki auðvelt en rosalega mikilvægt ef það er hægt. Ég náði líka sem betur fer að verða ekki reiður.

Ég frétti eftir slysið að Bensi hefði sofnað undir stýri en þrátt fyrir það stoppa ég alltaf hjá leiðinu hans þegar ég fer til mömmu og pabba, þau eiga heima í sömu röð úti í kirkjugarði. Þetta var ömurlegt slys og því miður voru okkur bræðrum gefin þessi spil á hendi og við áttum enga aðra kosti en spila úr þeim. Ég held að maður jafni sig í raun aldrei alveg á svona áfalli en maður lærir að lifa með því. Það er kannski hart að segja það en ég held að hægt sé að líta á flestar ef ekki allar stöður sem koma upp í lífinu, eins ömurlega erfiðar og þær geta verið eins og það sem við bræður lentum í; að vera með glasið hálffullt eða hálftómt. Það hefði verið mjög auðvelt fyrir okkur að drekkja okkur í sorg en það var ekki í boði. Við Árni þurftum að hlúa að yngri bróður okkar, ömmum og öfum, og svo áttum við börn sem við þurftum að vera til staðar fyrir. Við bræður urðum einfaldlega að halda áfram og við vissum að mamma og pabbi hefðu ekki tekið neitt annað í mál. Með því að halda áfram með þessu hugarfari vil ég trúa að vel hafi ræst úr okkur.“ segir Jóni Ingi.

Hamingjan er hér

Jón Ingi og Berglind slitum samvistum um ári eftir áfallið. Jón Ingi og Vala Rún Vilhjálmsdóttir eignuðust Vilborgu árið 2003 en hún var fyrirliði Njarðvíkurliðsins í körfubolta þegar þær urðu Íslandsmeistarar árið 2022. Hún fór svo í háskólanám í Bandaríkjunum og er heldur betur að standa sig, jafnt í námi og í körfunni. Almar kom næstur, fæddur árið 2009 og er sömuleiðis mikið efni í körfunni. Yngstur er Arnór Darri, fæddur árið 2012 og hann mun ekki gefa systkinum sínum þumlung eftir.

Jón Ingi og Ingibjörg Katrín, sem heldur á Kristni Viljari. Svo eru hin börnin, Vilborg, Rúnar Ingi, Almar og Arnór Darri

Í dag er Jón Ingi hamingjusamur, á fimm börn en þeim fjölgaði óvænt eftir að leik átti að vera lokið. Sambýliskona hans, Ingibjörg Katrín Halldórsdóttir, er níu árum yngri en Jón og þar sem hún átti ekki barn fyrir, var ekkert annað í stöðunni fyrir flugstjórann en að setja aftur í samband. Hann gæti ekki verið hamingjusamari með hinn þriggja ára Kristinn Viljar.

Fyrirliði Íslandsmeistara Njarðvíkur árið 2022, Vilborg Jónsdóttir.

„Ég er ofboðslega stolur af öllum börnunum mínum en er leiður fyrir þeirra hönd að hafa ekki fengið að njóta ömmu Vilborgar og afa Rúnars, þessi hugsun stingur pabbann í hjartað við minnsta tilefni. Sem betur fer er tæknin orðin þannig að ég fæ að njóta litla stubbsins meira en á fyrri tímum. Við hringjumst í mynd á morgnana, eftir leikskóla og áður en hann leggst á koddann. Það er af sem áður var, þegar pabbi var á sjónum í mánuð, þá hringdi hann kannski einu sinni í túr og varla að maður næði að tala við hann. Tæknin er blessunarlega orðin miklu meiri í dag.

Ég er mjög hamingjusamur í dag og er í rauninni ótrúlega stoltur af okkur bræðrunum eftir þetta áfall sem við lentum í, við höfum allir staðið okkar plikt og vel það. Ég horfi björtum augum til framtíðarinnar og hlakka til að ala Kristinn litla og hin börnin mín upp og verja tíma með þeim og frúnni. Ég veit að ég mun bæta mig í golfíþróttinni og svo skulum við bara sjá hvernig málin þróast, kannski verð ég fluttur eitthvert út í heim en það skal vera alveg á hreinu að ég er og verð alltaf Keflvíkingur,“ sagði Jón Ingi að lokum.