Að gera hlutina aðeins betur en fólk reiknar með skiptir öllu máli
„Munum aldrei hætta að bæta og þróa þjónustuna,“ segir Steinþór Jónsson, hótelstjóri.
Glæsilegt KEF SPA opnaði nýlega á Hótel Keflavík. Möguleikar á umtalsverðri stækkun á Olís-lóðinni.
KEF SPA & Fitness opnaði á Hótel Keflavík þann 22 október sl. og hefur aðsókn verið umfram væntingar. „Þetta hefði ekki tekist án framúrskarandi starfsfólks og iðnaðarmanna. Ég og Hildur, eiginkona mín, erum afar þakklát fyrir framlag þeirra,“ segir Steinþór Jónsson, hótelstjóri í samtali við Víkurfréttir.
Hótel Keflavík á orðið 38 ára sögu en það var opnað eftir aðeins fjögurra mánaða framkvæmdatíma árið 1986. Til samanburðar við það afrek að reisa hótel og opna á fjórum mánuðum þá hefur uppbygging KEF SPA verið risastór átján mánaða rússíbani. Steinþór segir þessa nýjustu viðbót við hótelið vera mikilvægan áfanga „og gefur okkur von um bjarta framtíð fyrirtækisins og samfélags okkar allra.“
KEF SPA er opið fyrir alla og hannað fyrir heimamenn. Þá hefur eftirspurn eftir einkaklúbbsaðild verið með ágætum. „Við erum stolt af KEF SPA en við munum aldrei hætta að bæta og þróa þjónustuna okkar til að ná þeirri fullkomnu sýn sem lagt var upp með,“ sagði Steinþór þegar hann sýndi blaðamönnum Víkurfrétta nýju heilsulindina.
Ísland var ekki ferðamannaland
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því hótel Keflavík opnaði dyr sínar í fyrsta sinn árið 1986. „Ferðaþjónustan hefur breyst gríðarlega. Ísland var í raun ekki ferðamannaland. Við byggðum okkar nýtingu á hermönnum í upphafi. Maður sá ekki fyrir sér að það væri fullbókað dag eftir dag með venjulegum ferðamönnum,“ segir Steinþór.
Spurður út í ferðaþjónustuna á þessum árum sem hann hefur verið í hótelrekstri, segir Steinþór: „Það sem mér finnst mest gaman af því sem ég hef tengst eru flugmálin og að hafa komið hingað með flugfélagið Canada 3000. Það var kannski fyrsta skrefið í að breyta því að það væri bara eitt gott flugfélag, sem Icelandair er. Við erum í dag með 29 flugfélög sem fljúga til Íslands og frá öllum þessum stöðum. Það er það sem gerir fjölbreytnina og möguleikana. Við gætum aldrei byggt upp ferðamannaland þar sem farþegarnir koma bara frá New York og London.“
Hver er þín upplifun af ferðamönnum gagnvart Reykjanesskaganum, því við erum þar?
„Reykjanessið er að vaxa og dafna og við þurfum sjálf að hafa trú á okkar svæði. Við erum með svo margt skemmtilegt hér í kring. Við erum með Bláa lónið og einstaka náttúru. Við erum í dag með eldgos og það sem því tengist. Við þurfum að gera þetta á jákvæðan hátt.
Ég vil meina að einhvers staðar hafi markaðskerfið hjá okkur á Íslandi klikkað, að reyna ekki að nýta það sem er að gerast. Að eiga falleg norðurljós og nýrunnið hraun. Þetta eru allt tækifæri sem við verðum að nýta okkur. Við sjálf verðum fyrst að upplifa það og svo bera út boðskapinn til þeirra. Reykjanesið er í raun fjölbreyttara en flest önnur landsvæði á Íslandi.“
Nú hafa orðið hér tíu eldgos síðan 2021. Hvernig hefur það þróast. Fyrst voru þetta túristagos en nú hefur þetta verið alvarlegra síðustu sjö gos. Hvernig hefur þetta haft áhrif á ferðaþjónustuna?
„Ferðamaðurinn upplifir þetta öðruvísi. Hann upplifir t.d. hörmungarnar sem gengu yfir Grindavík öðruvísi en við. Þeir gera sér ekki grein fyrir hversu alvarlegt þetta er og á sama tíma eru einhverjir hræddir við gosið. Núna lít ég á þetta sem tækifæri og við erum komin hingað og búin að taka ákveðna stefnu. Núna eigum við að líta á hvert gos sem tækifæri til að auglýsa og byggja upp svæðið okkar.“
Hver eru viðbrögð ferðamanna við eldgosunum, eru þeir hræddir við að koma eða er þetta orðið eðlilegt?
„Fólk vill koma og það er gaman að við sjáum gosið hérna af svölunum og finnst það vera í mikilli nálægð. Við erum með skjái í móttökunni þegar gosin eru í gangi. Fólk sér þar gosið og hraunið. Þegar horft er út um gluggann sést að þetta er raunveruleikinn. Gagnvart þessum hlutum eru þetta bara tækifæri.“
Innviðir hótelsins ráða við töluverða stækkun
Hótel Keflavík hefur verið að stækka reglulega á síðustu árum og herbergjum fjölgað. Á síðasta ári keypti Hótel Keflavík svo svokallaða Olís-lóð og þar er möguleiki á að bæta við herbergjum, hvort sem þau verða fimmtíu eða hundrað og fimmtíu. Steinþór segir að allir innviðir hótelsins í dag séu gerðir til að geta tekið á móti umtalsverðri stækkun.
Diamond Suite er fimm stjarna gisting á Hótel Keflavík sem var innréttuð árið 2016. Aðspurður hvort sú breyting hafi staðið undir væntingum og hvort það séu að koma gestir sem eru tilbúnir að greiða fyrir slíka gistingu, þá svarar Steinþór því til að hann væri ekki á þeirri vegferð sem hann væri á núna nema fyrir það.
„Við erum heppin að hafa tekið ákvörðun að fara alla leið. Það er mikill munur að fara langt og fara alla leið. Það er okkar upplifun að gera hlutina aðeins betur en fólk reiknar með og sé það sem skiptir öllu máli.“