Joey Drummer hélt velli, „El clasico“ framundan
Loksins náði áskorandinn í tippleik Víkurfrétta ekki að sigra og tylla sér þar með á stallinn, Joey Drummer hélt velli á móti Haraldi Frey Guðmundssyni, vann 9-8. Það má segja að „El clasico“ sé næst á döfunni, Keflvíkingurinn Joey Drummer mætir formannni knattspyrnudeildar Njarðvíkur, Brynjari Frey Garðarssyni.
Brynjar ólst upp sem Keflvíkingur en þar sem hann spilaði bara í meistaraflokki með Njarðvík, n.t. frá 2013 fram á covid-ár og er auk þess formaður knattspyrnudeildarinnar í dag, er hann grænn þegar kemur að þessum slag við trommarann.
„Ég skipti yfir í Njarðvík 2013 og þegar ég lauk leikmannaferlinum tók ég við stöðu framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar í smá tíma og hef verið formaður undanfarin ár. Ég er nú á þeim vagni að sameining þessara liða í Reykjanesbæ væri heillavænlegast, þá eru liðin ekki að slást um sömu krónurnar og geta betur nýtt aðstöðuna. Þetta er mín framtíðarsýn en ég geri mér fyllilega grein fyrir að þetta er ekki á stefnuskránni núna en verður vonandi einhvern tíma.
Knattspyrna hefur alltaf verið stórt áhugamál hjá mér og ekki síst enski boltinn. Ég er gallharður stuðningsmaður Manchester United, við Joey eigum það þó alla vega sameiginlegt. Ég sá stórleikinn á sunnudaginn reyndar bara með öðru auganu, var á fundi nánast allan leikinn en sá lokamínúturnar og það var nóg að þessu sinni. Ég er þannig að ég er alltaf bjartsýnn fyrir hönd minna manna, var það þegar ten Hag tók við og þar áður Ole Gunnar Solskajer. Mér líst vel á þennan Amorim og hef trú á að hann komi okkur til fyrri virðingar en það mun ekki gerast á einni nóttu, það er ljóst.
í dag tippa ég mest á tyllidögum en við hjá Njarðvík erum að fara byrja með getraunakaffi á laugardagsmorgnum í aðstöðu okkar við Njarðvíkurvöll. Það verður gaman að fá fólk í kaffi þar sem heimsmálin eru leyst og menn setja svo tákn á seðilinn og styðja við bak knattspyrnudeildarinnar. Ég skil ekki að flest ef ekki öll lið séu ekki með þetta í gangi í sínum klúbbi, þetta býr til félagsanda og krónur skila sér í kassann, ekki veitir víst af,“ segir Brynjar.
El clasico
Joey finnst alltaf gaman þegar „el clasico“ ber upp.
„Þetta eru venjulega mínar stærstu gleðistundir, þegar Keflavík og Njarðvík mætast. Hvort eins mikil athygli verði á þessum tippleik milli mín og Brynjars Freys eins og t.d. þegar körfuboltaliðin frá Reykjanesbæ mætast, skal ósagt látið en mér líður vel á toppnum í þessum tippleik og ætla ekki að gefa sætið eftir strax. Ég ætla mér að enda á meðal fjögurra efstu og þarf því að vera aðeins lengur á stallinum,“ segir Joey.