Palóma
Palóma

Íþróttir

Grindavík tapaði fyrir Val í botnslag
Það hefur gengið illa hjá lærisveinum Þorleifs Ólafssonar en meiðsli lykilleikmanna hafa sett strik í reikninginn hjá Grindavík í ár. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 19. desember 2024 kl. 12:59

Grindavík tapaði fyrir Val í botnslag

Hvorki gengur né rekur þessa dagana hjá körfuknattleiksliði Grindavíkur í Bónusdeild kvenna en Grindavík tapaði fyrir Val í gær, fyrir leikinn voru bæði lið á meðal botnliða deildarinnar. Þetta var síðasti leikur liðsins á þessu ári en hlé verður gert á deildarkeppninni yfir jól og áramót.

Valur - Grindavík 69:67

(22:18, 17:20, 12:15, 18:14)

Leikurinn bar þess merki að hann skipti bæði lið gríðarlega miklu. Valskonur tóku forystu í fyrsta leikhluta (22:18) og leiddu með einu í hálfleik (39:38).

Þórey Tea Þorleifsdóttir hóf þriðja leikhluta á því að setja niður þrist til að koma Grindavík yfir (39:41) og þær grindvísku héldu forystu þar til rétt rúmar fjórar mínútur voru til leiksloka en þá jafnaði Valur (57:57).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leikurinn var í járnum fram á lokasekúndu og jafnt á flestum tölum. Valur leiddi með tveimur stigum (67:65) þegar leikklukkan sýndi 39:38 en þá reyndi Þórey Tea þriggja stiga skot sem rataði ekki rétta leið en Jenný Geirdal Kjartansdóttir náði frákastinu og jafnaði leikinn (67:67).

Valskonur, sem höfðu níu sekúndur til stefnu, tóku samstundis leikhlé og að því loknu tókst þeim að knýja fram sigur í blálokin (69:67).

Grindavík: Isabella Ósk Sigurðardóttir 23/19 fráköst, Ólöf Rún Óladóttir 11/4 fráköst/5 stoðsendingar, Sóllilja Bjarnadóttir 9, Sofie Tryggedsson Preetzmann 8, Þórey Tea Þorleifsdóttir 6, Katarzyna Anna Trzeciak 5/8 fráköst/8 stoðsendingar, Jenný Geirdal Kjartansdóttir 4, Ragnheiður Björk Einarsdóttir 1.