HS Orka
HS Orka

Íþróttir

Tippleikurinn aftur af stað
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 23. nóvember 2024 kl. 07:00

Tippleikurinn aftur af stað

Þórunn hélt velli og mætir Birgi Má

Eins og fram kom í síðasta tipppistli vann Þórunn Katla mjög öruggan sigur á Grindjánanum Ray Anthony Jónssyni, þjálfara Reynis í Sandgerði. Það var nákvæmlega engin spenna í gangi í leik þeirra en Ray er þökkuð þátttakan. Þórunn mætir Birgi Má Bragasyni, framkvæmdastjóra Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, í næstu umferð.

Birgir Már Bragason tók við starfi framkvæmdastjóra Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, í vor og má segja að hann sé kominn hringinn.

„Ég fór í hlutverk Kela Keflvíkings, lukkudýrs Keflavíkur, fyrir ansi mörgum árum og má kannski segja að ég sé kominn hringinn núna, verandi orðinn framkvæmdastjóri Keflavíkur. Ég var lengi í stjórn körfuknattleiksdeildar og ég myndi segja að ég sé í draumastarfinu, frábært að geta unnið við áhugamálið sitt. Ég vinn fyrir allar deildir en þær eru níu talsins. Knattspyrnudeildin er með sinn framkvæmdastjóra og körfuknattleiksdeildin er með mann í hálfu starfi en ég starfa líka fyrir þessar deildir, veð einfaldlega í öll störf og því má segja að starfið sé fjölbreytt. Ég kann mjög vel við mig en ég er að taka við mjög góðu búi af Einari Haraldssyni sem var framkvæmdastjóri Keflavíkur í u.þ.b. 30 ár.

Ég hef lengi haft áhuga á enska boltanum og Arsenal er mitt lið. Það hefur verið góður stígandi hjá félaginu undanfarin ár en vélin er eitthvað að hiksta á þessu tímabili. Við megum ekki missa Poolarana og City miklu lengra frá okkur en líklega er gott að þessi landsleikjapása hafi verið núna, vonandi er Arteta framkvæmdastjóri búinn að stöðva blæðinguna. Mér líst vel á andstæðing minn, ég er mikill keppnismaður og ætla ekki að sýna Þórunni Kötlu neina miskunn þó svo að hún sé kona, ég fer ekki öðruvísi í keppni en til að vinna,“ sagði Birgir Már.

Þórunn Katla hlakkar til viðureignarinnar við Birgi Má.

„Það var gaman að mæta Ray, alltaf gaman þegar Víðir hefur betur gegn Reyni og Grindvíkingum. Ég þakka Ray kærlega fyrir drengilega keppni. Það verður fróðlegt að mæta Birgi Má, að sjálfsögðu stefni ég á að leggja Keflvíkinginn líka,“ sagði Þórunn.