Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík hafði betur í hörkuleik – Adam Árni með úrslitamarkið
Adam Árni Andersen skorar sigurmarkið gegn Njarðvík. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 4. júlí 2024 kl. 22:30

Grindavík hafði betur í hörkuleik – Adam Árni með úrslitamarkið

Adam Árni Andersen skoraði sigurmarkið í leik Njarðvíkur og Grindavíkur í Lengjudeild karla í knattspyrnu á Rafholtsvellinum í kvöld. Um sannkallaðan hörkuslag var að ræða en Grindavík færist stöðugt ofar á töflunni en Njarðvík, sem er í öðru sæti deildarinnar, hefur aðeins náð í eitt stig í síðustu þremur leikjum.

Keflvíkingar sóttu stig í Grafarvoginn þegar þeir gerðu markalaust jafntefli gegn toppliði Fjölnis. Keflavík fór upp að hlið Leiknis í áttunda sæti en Leiknismenn eiga leik gegn ÍBV til góða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Njarðvík - Grindavík 0:1

Adam Árni kom inn á í seinni hálfleik og átti eftir að hafa úrslitaáhrif á leikinn.

Njarðvíkingar hófu leikinn með látum og gerðust ágengir upp við mark gestanna á fyrstu andartökunum. Á þriðju mínútu komst Dominik Radic í dauðafæri en Aron Dagur Birnuson varði vel í marki Grindavíkur.

Tveimur mínútum síðar sóttu Njarvíkingar aftur og Oumar Diouck reyndi skot sem fór af varnarmanni og í markstöngina. Amin Cosic fylgdi eftir en aftur kom Aron Dagur í veg fyrir að heimamenn skoruðu.

Aron Dagur varð enn og aftur skömmu síðar þegar Kaj Leo Í Bartalstovu sendi fyrir markið og Diouck náði skalla að marki.

Aron Dagur var stórkostlegur og lokaði markinu algerlega.

Eftir þetta vöknuðu Grindvíkingar til lífsins og fóru að vinna sig inn í leikinn. Dagur Ingi Hammer Gunnarsson átti sendingu á Kristófer Konráðsson inni í teig Njarðvíkinga, Kristófer náði þrumuskoti en nú var komið að Aroni Snæ Friðrikssyni að verja vel í marki heimamann.

Sannarlega æsilegar fyrstu mínúturnar og reyndar var fyrri háfleikur mjög líflegur þar sem bæði lið fengu tækifæri til að skora en hvorugu liði tókst þó að brjóta múrinn og því var markalaust í hálfleik.

Seinni hálfleikur var ekki alveg jafn fjörugur og sá fyrri en engu að síður hin besta skemmtun. Gestirnir úr Grindavík voru öllu ákveðnari og höfðu betri tök á leiknum. Það er því ekki hægt að segja annað en að það hafi verið sanngjarnt þegar þeir náðu forystu.

Markið kom upp úr aukaspyrnu Josip Krznaric sem sendi boltann inn á teig Njarðvíkinga. Breki Þór Hermannsson, sem var nýkominn inn á í sínum fyrsta leik fyrir Njarðvík, komst fyrir sendinguna en boltinn féll fyrir fætur Adams Árna Andersen sem afgreiddi hann viðstöðulaust í netið framhjá Aroni Snæ (83').

Adam búinn að skora.

Njarðvíkingar lögðu allt kapp á að jafna leikinn en vörn Grindavíkur stóð sína plikt og Grindvíkingar voru nær því að bæta í en heimamenn að jafna.

Niðurstaðan því sigur Grindvíkinga sem eru komnir í fjórða sæti deildarinnar en þeir hafa unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum – eða frá því að Haraldur Árni Hróðmarsson tók við liðinu.

Grindvíkingar eru á hraðferð upp töfluna eftir að Haraldur Árni tók við liðinu.

Njarðvíkingar hafa hins vegar aðeins gefið eftir og ekki náð í nema eitt stig í síðustu þremur viðureignum sínum. Þeir eru þó í öðru sæti, fjórum frá eftir toppnum.


Fjölnir - Keflavík 0:0

Bakvörður Keflvíkinga, Axel Ingi Jóhannesson, var nálægt því að skora þegar hann slapp einn í gegn stuttu fyrir leikslok.

Leikur Fjölnis og Keflavíkur náði aldrei miklu skemmtanagildi, hvorugt lið hitti á góðan dag og var þetta mikið miðjuþóf sem lítið varð úr.

Heimamenn áttu tvö hættuleg færi í fyrri hálfleik og Keflvíkingar gerðust ágengir eftir um hálftíma leik en þá átti Ari Steinn Guðmundsson gott skot eftir hornspyrnu en vörn Fjölnis var þétt fyrir og boltinn fór af henni í annað horn.

Eftir markalausan fyrri hálfleik voru Keflvíkingar ögn frískari en heimamenn í upphafi þess seinni en Fjölnismenn unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn og undir lokin var pressan orðin mikil á Keflavík.

Heimamenn voru heppnir þegar stutt var til leiksloka en þá tók Fjölnir horn og Keflvíkingar hreinsuðu fram völlinn. Daníel Ingvar Ingvarsson, aftasti maður heimamanna, misreiknaði sig þá illilega og missti boltann framhjá sér og skyndilega var Axel Ingi Jóhannesson með boltann á eigin vallarhelmingi og allt autt fyrir framan hann. Axel tók sprettinn upp völlinn og þegar hann var kominn að markteig lét hann vaða – en þá var Daníel Ingvar búinn að hlaupa hann uppi og rétt náði að renna sér fyrir skotið og koma í veg fyrir mark.

Keflavík er áfram í áttunda sæti með tólf stig eins og Leiknir sem á leik til góða.

Staða Keflvíkinga (og fleiri liða) í Lengjudeildinni er snúin eins og staðan er og getur verið fljót að breytast. Keflavík er þremur stigum  frá fallsæti en á sama tíma fjórum stigum frá umspilssæti svo hvert stig er gríðarlega mikilvægt í baráttunni.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var fyrir aftan myndavélina á leik Njarðvíkur og Grindavíkur og er myndasafn neðst á síðunni.

Leikina má sjá í spilurunum hér að neðan.

Njarðvík - Grindavík 0:1


Fjölnir - Keflavík 0:0

Njarðvík - Grindavík (0:1) | Lengjudeild karla 4. júlí 2024