Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Snýst um góða stemmningu og menningu
Þessir skemmta sér á æfingu í rafíþróttum.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 14. desember 2024 kl. 06:49

Snýst um góða stemmningu og menningu

Rafíþróttir hafa verið að vaxa í vinsældum síðustu árin en innan Ungmennafélagsins Þróttar Vogum hefur verið starfandi rafíþróttadeild í rúm tvö ár og þar er það Samúel Drengsson sem sér um þjálfunina. Víkurfréttir heyrðu í Samúel og spurðu hann út í starfsemina.

„Ég hef nú ekki verið í þessu frá upphafi en það voru þau Petra og Matti [Petra Ruth Rúnarsdóttir og Marteinn Ægisson] sem byrjuðu á að leggja grunninn að þessu öllu saman, þau voru sem sagt byrjuð í vinnu við að fjármagna starfsemina. Síðan fór ég að koma að þessu svona hálfu ári áður en deildin tók til starfa,“ segir Samúel um upphafið að stofnun deildarinnar.

„Petra og Matti voru búin að sjá að rafíþróttir væru spennandi nýjung og vinsælar hjá krökkum en þau sjálf voru ekkert inni í neinu sem tengist rafíþróttum eða tölvuleikjum yfir höfuð. Þar kom ég sterkur inn í þetta og hjálpaði þeim við að koma þessu í gang, aðstoðaði þau við að velja réttan búnað og svoleiðis. Síðan æxlaðist það einhvern veginn þannig að síðan þá hef ég séð um þetta og verið að þjálfa eitthvað líka.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Samúel (t.v.) rafíþróttaþjálfari Þróttar, og ungur iðkandi (t.h.).

Fer rólega af stað

Hvernig taka krakkarnir í þetta?

„Það gengur svona þokkalega. Ég sjálfur hefði viljað sjá meiri þátttöku en á þessum aldri eru þau mikið að vilja bara leika sér. Það þarf að ná betur til þeirra og fá þau til að koma inn á æfingar til þess að æfa sig í réttri meðhöndlun og réttum leiðum.

Maður tók eftir þessu um leið og maður byrjaði. Þá var maður mjög stífur á öllu og allar æfingar byrjuðu á hálftíma upphitun, ég lét þau gera samhæfingaræfingar og kenna þeim trixin í bókinni má segja. Þá fóru krakkar að taka upp á því að vera of sein á æfingar, alltaf sömu krakkarnir. Þau vildu bara fara beint í tölvurnar. Þetta var svolítið þannig.

Síðan erum við svolítið að basla við það að við erum í litlu sveitarfélagi og það er ekki auðvelt að ná að manna hópa fyrir hvern leik fyrir sig – en það eru alltaf einhverjir leikir sem standa upp úr.“

Sérhæfa þau sig í hverjum leik?

„Það var upprunalega hugsunin, ég er reyndar búinn að víkja frá því en það er í rauninni yfirleitt þannig að hluti af þeim er að spila ákveðinn leik, t.d. Fortnite.“

Læra samskipti og að vinna saman

„Tveir strákar sem eru að æfa kunna t.d. mikið betur á leikinn en nokkurn tímann ég. Þeir eru búnir að spila það mikið að þeir kunna kortið, taktíkina, miðið og þá er mitt hlutverk að beina þeim í að spila sem liðsheild. Það er alltaf vandamálið með þennan aldur. Þú kannast við krakka sem vilja bara fá boltann, það er það sama þarna,“ segir Samúel og hlær. „Þannig að æfingin fer meira út í það að spila sem liðsheild, einn fer í það að stýra liðinu og fyrir hina að taka við skipunum frá fyrirliða.“

Samúel segir að auk þess að kenna krökkunum að vinna saman þá sé lögð áhersla á að þau hugi að heilsunni og réttri líkamsbeitingu. „Maður er að reyna að koma því inn hjá þeim að sitja rétt. Passa að þau séu ekki að skemma á sér skrokkinn með því að sitja asnalega á meðan þau eru að spila. Þú nærð engum árangri þannig – ekki til langs tíma alla vega.

Á æfingum í rafíþróttadeildinni er mikið lagt upp úr því að kenna krökkunum hvernig þau eigi að hegða sér í leikjunum á netinu.

„Ég tek mjög stíft á því sem mætti kannski kalla eitraða menningu, eða Toxicity. Sem sagt að vera ekki alltaf að kenna öðrum um það sem fer úrskeiðis hjá manni, ekki vera tapsár og ekki vera að niðurlægja andstæðinginn,“ segir hann en það er þannig að krakkarnir geta talað saman í tölvuleikjunum og þá er mikilvægt að kunna hvernig þau eigi að koma fram við aðra. „Ég tek það alltaf skýrt fram við þau að það eina sem er verra en tapsár einstaklingur er einstaklingur sem er lélegur í að vinna. Þetta snýst að miklu leyti um þetta, það er að kenna þeim að vera drengilegir. Vera með góða stemmningu og menningu í þessu.“

Gaman í Fortnite.

Stelpur velja öðruvísi leiki en strákar

Krakkarnir sem eru að æfa rafíþróttir hjá Þrótti eru í sjöunda bekk og upp í þann tíunda. „Eins og staðan er núna eru bara strákar að æfa hjá okkur,“ segir Samúel. „Við vorum með nokkrar stelpur, náðum að vera með heilan hóp af stelpum en þær týndust út hægt og rólega. Það má segja að áhugasvið þeirra sé öðruvísi þegar kemur að tölvuleikjum, sérstaklega á þessum aldri. Þetta voru stelpur í kringum ellefu, tólf ára og það voru eiginlega þær sem voru duglegastar að mæta í upphitunina. Þær höfðu mjög gaman af því að það væri farið í brennó í upphituninni eða í lokin. Síðan var það þannig að þær vildu minna vera í því að keppa í leikjunum. Þær vildu frekar vera í leikjum þar sem félagslegi hlutinn er meira atriði, að vera að spila með vinum sínum en ekki keppa.

Við vorum sein af stað að klára skipulagið á þessari önn. Við þurftum að færa okkur um set í íþróttamiðstöðinni vegna þess að það vantaði meira pláss í skólanum og þá þurfti að gera breytingar – og það þurfti að fara í þær breytingar rétt áður en þetta allt byrjaði. Þannig að það klikkaði svolítið auglýsingavinnan hjá okkur við það. Stefnan er að bæta í þátttökuna á vorönninni og taka rispu í að auglýsa námskeiðin eftir áramótin.“

Samúel situr einnig í stjórn knattspyrnudeildarinnar hjá Þrótti og hann segir meginvanda allrar íþróttahreyfingarinnar í dag sé að það vanti fleiri hendur. „Maður sér þetta yfir allt að það er rosalega erfitt að fá einhverjar aðstoðarhendur í dag. Sjálfboðaliðum fer fækkandi og það er eins og að vinna í lottóinu að fá nýjar hendur sem eru til í að gefa sér tíma í þetta. Þannig að maður stóð bara einn í því að setja þetta upp aftur.“