Grindavík úr fallhættu – Reynir deildarmeistari
Grindvíkingar tryggðu sig frá falli með sigri á Selfossi í gær í Lengjudeild karla í knattspyrnu en Njarðvík tapaði fyrir ÍA og er ennþá í fallhættu þegar ein umferð er eftir af Íslandsmótinu. Reynismenn eru deildarmeistarar í 3. deild karla. Reynir vann Ými á föstudaginn en Kormákur/Hvöt og Magni gerðu jafntefli í gær sem þýðir að Kormákur/Hvöt getur ekki náð Reynismönnum í lokaumferðinni. Þá tryggði RB sér sæti í 4. deild á næsta ári með sigri á KFR í undanúrslitum 5. deildar.
Grindavík - Selfoss 2:1
Bæði lið voru í fallhættu og fóru frekar varlega í byrjun en Grindvíkingar höfðu þó ágætis tök á leiknum. Tómas Orri Róbertsson kom heimamönnum yfir á 14. mínútu með marki eftir hornspyrnu.
Um tíu mínútum síðar tóku Selfyssingar aukaspyrnu út frá kanti. Löng aukaspyrnan fór inn á markteig þar sem Aron Dagur Birnuson hikaði við að fara út í boltann og vörn Grindavíkur var steinsofandi. Selfyssingar nýttu sér sofandahátt heimamanna og settu boltann í netið (25').
Í seinni hálfleik komust Grindvíkingar yfir á nýjan leik þegar Dagur Ingi Hammer Gunnarsson lék upp að endamörkum og sendi boltann á Óskar Örn Hauksson sem var aleinn á auðum sjó fyrir framan mark Selfoss, skoraði örugglega og tryggði Grindavík sigurinn (73').
Gestirnir settu pressu á heimamenn í lokin og sóttu stíft en vörn Grindavíkur hélt og og með sigrinum er Grindavík loks úr fallhættu.
Njarðvík - ÍA 2:4
Njarðvíkingar, sem eru jafnir Selfyssingum að stigum og ennþá í mikilli fallhættu, tóku á móti toppliði ÍA sem hefur verið á mikilli siglingu í síðustu leikjum.
Skagamenn byrjuðu leikinn betur og skoruðu snemma tvö auðveld mörk (7' og 13').
Eftir seinna mark ÍA vöknuðu Njarðvíkingar og komust betur inn í leikinn. Þeir settu aukna pressu á gestina og Rafael Victor minnkaði muninn eftir góða fyrirgjöf frá Oliver Keelart (40').
Rétt eftir markið hleypti Keelart spennu í leikinn þegar hann sendi á Robert Blakala í marki Njarðvíkur sem var undir pressu frá sóknarmanni. Blakala sparkaði sendingunni frá marki en sóknarmaðurinn komst fyrir hana og boltinn kastaðist af honum rétt framhjá markstönginni.
Það tók Skagamenn ekki nema tólf sekúndur að auka muninn í seinni hálfleik (46') en þeir tóku miðju, óðu upp völlinn og skoruðu. Þá var staðan orðin dökk hjá heimamönnum sem höfðu verið að vinna sig inn í leikinn.
Gestirnir juku forystuna í 4:1 á 81. mínútu áður en Keelart minnkaði muninn í tvö mörk (83').
Augnablik - Grindavík 0:7
Grindvíkingar luku leik í Lengjudeild kvenna með glæsilegum sigri á Augnabliki og enda í sjötta sæti deildarinnar.
Mörk Grindavíkur: Viktoría Sól Sævarsdóttir (5'), Tinna Hrönn Einarsdóttir (17', 40' og 60'), Sigríður Emma F. Jónsdóttir (43'), Ása Björg Einarsdóttir (51') og Kolbrún Richardsdóttir (86').
Þróttur - Víkingur Ó. 4:0
Þróttarar áttu ekki í vandræðum með Víkinga í næstsíðustu umferð 2. deildar karla og eru í fjórða sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina. Þeir eiga möguleika á að ná ÍR og KFA að stigum í síðustu umferðinni ef bæði lið tapa en markatala Þróttar er mun lakari en þeirra.
Eftir markalausan fyrri hálfleik tóku hjólin að snúast hjá heimamönnum sem skoruðu fjögur mörk í þeim seinni. Mörk Þróttar: Ólafur Örn Eyjólfsson (54'), sjálfsmark (60'), Guðni Sigþórsson (77') og Anton Freyr Hauks Guðlaugsson (87').
Ýmir - Reynir 3:5
Eftir að hafa lent undir í byrjun leiks unnu Reynismenn góðan sigur á Ými. Mörk Reynis: Julio Cesar Fernandes (11'), Óðinn Jóhannsson (36'), sjálfsmark (56'), Kristófer Páll Viðarsson (86') og Sigurður Orri Ingimarsson (90'+5).
Víðir - Elliði 1:0
Víðismenn sitja í fjórða sæti deildarinnar og eygja litla von um að komast upp úr deildinni þetta árið sökum markatölu, jafnvel þótt þeir vinni í síðustu umferð og bæði Kormákur/Hvöt og Árbær tapi sínum leikjum þá er markatala Víðis mun lakari en hjá Kormáki/Hvöt.
Eina mark leiksins skoraði Helgi Þór Jónsson (77').
KFR - RB 1:2
RB vann báðar viðureignirnar við KFR í undanúrslitum 5. deildar og leikur til úrslita um sigur í deildinn gegn Kríunni eða Úlfunum sem leika í dag.
Alexis Alexandrenne skoraði bæði mörk RB í leiknum (10' og 35').
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, kíkti á leiki Njarðvíkur og Grindavíkur og má sjá myndasöfn úr leikjunum neðst á síðunni. Þá eru leikirnir einni í spilurunum hér að neðan.