Flugger
Flugger

Íþróttir

Iðkendur Þróttar Vogum fengu veglega gjöf
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 3. júlí 2024 kl. 14:50

Iðkendur Þróttar Vogum fengu veglega gjöf

Linde Gas styður myndarlega við barna- og unglingastarf Þróttar Vogum

Barna- og unglingastarf Þróttar Vogum fékk veglega gjöf þegar Linde Gas ehf. gaf öllum iðkendum Þróttar á grunnskólaaldri, sem æfa knattspyrnu, rafíþróttir og/eða sund, utanyfirpeysu að gjöf. 
 
Linde Gas, sem er með starfsemi í bæjarfélaginu, vildi leggja sitt af mörkum til stuðnings við heilsueflandi samfélag og styðja við starfið með veglegri gjöf ungum iðkendum félagsins til heilla. 
 
Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar í Vogum, segir þetta dýrmæta gjöf fyrir félagið, því að mæta til keppni sem eitt lið, ein Þróttara-fjölskylda, eflir samheldnina og liðsheildina hjá félaginu.
 „Þetta er frábær stuðningur við það starf sem fram fer hjá félaginu og rausnarlegur styrkur sem við hjá Þrótti erum afar þakklát fyrir,“ sagði Marteinn við tilefnið.

John Olander hjá Linde Gas segir að það sé mikilvægt að styðja við bakið á íþróttalífinu í Vogum og Linde Gas ehf. vildi með þessum hætti styðja við nærsamfélagið og styðja við félagið í þeirri vegferð sem það er á. Iðkendum hefur fjölgað hratt að undanförnu og forvarnargildi íþrótta er mikið. Þess vegna verður að styðja vel við þann málaflokk. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í fréttatilkynningu segir að Ungmennafélagið Þróttur kunni Linde Gas miklar þakkir fyrir stuðninginn sem er algjörlega ómetanlegt og við sama tilefni var skrifað undir tveggja ára samstarfssamning. 

Axel Axel Axelsson, þjálfari í barnastarfi Þróttar, John Olander, framkvæmdastjóri Linde Gas á Íslandi, Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Þróttar, og Bergur Álfþórsson, stjórnarmaður Þróttar. 
Einnig eru Ólafur Haukur Eðvarðsson og Gabriel Alexander Woloszyn, ungir iðkendur í starfi Þróttar, með á myndinni.