Skólaslit
Skólaslit

Íþróttir

Íþróttaálfurinn sigursæli
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 6. júlí 2024 kl. 06:36

Íþróttaálfurinn sigursæli

Lenti aldrei í meiðslum þrátt fyrir að stunda körfubolta og knattspyrnu til 35 ára aldurs

„Eins og mér líður núna er ég hættur þjálfun en vinir mínir segjast hafa heyrt þetta ansi oft frá mér,“ segir Sverrir Þór Sverrisson en hann á að baki mjög farsælan íþróttaferil, bæði sem leikmaður í knattspyrnu og körfuknattleik og sem þjálfari í körfubolta. Sverrir á og rekur fyrirtækið SB málningu ásamt Brynjari Hólm Sigurðssyni en þeir eru báðir gallharðir stuðningsmenn enska knattspyrnuliðsins Liverpool eins og bækistöð fyrirtækisins ber vel með sér.

Sverrir hefur fengið ófá símtölin um boð um uppistand en hann er alnafni eins ástsælasta skemmtikrafts þjóðarinnar, Sveppa krull eins og hann er oft nefndur.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Það er spurning hvort ég láti ekki slag standa og taki bara næsta boði um að mæta í veislu og skemmti krökkunum, það er yrði fyndið að sjá svipinn á börnunum ef ég mætti á svið og myndi reyta af mér brandarana. Þetta minnir mig á uppátæki nokkurra Grindvíkinga sem voru innvinklaðir í körfuknattleiksdeild UMFG, þeir auglýstu Jónsa í Sigurrós fyrir árlegt konukvöld sem haldið var í Festi. Engin kona vissi af uppátækinu og biðu þær allar spenntar eftir að sjá þessa poppstjörnu í svona hlutverki en svo runnu tvær grímur á þær þegar Jón Gauti Dagbjartsson, sem kallaður er Jónsi innan fjölskyldunnar, mætti í lopapeysunni sinni og spanggólaði eitthvað og þóttist spila með fiðluboga á gítar. Hljómsveitin heitir Sigur Rós en eðlilega áttuðu konurnar sig ekki á því og þetta var víst sprenghlægilegt, tveir stjórnarmenn voru mættir í salinn og orguðu úr hlátri en konunum var víst ekki skemmt eftir að hafa látið spila svona með sig!“

Fyrstu æskuminningar Sverris eru úr Eyjabyggðinni í Keflavík og í íþróttaleikjum, annað hvort í fótbolta á malarvellinum eða í körfubolta.

Sverrir á fleygiferð með Keflavík í leik gegn Val.

Íslandsmeistari fimmta flokks karla með Keflavík árið 1987. Sverrir Þór með bikarinn í fanginu.


„Pabbi heitinn var ættaður frá Vestmannaeyjum en það var samt ekki ástæðan fyrir því að fjölskyldan átti heima í hinni svokölluðu Eyjabyggð. Þarna eru fyrstu æskuminningarnar en leikirnir snerust nær eingöngu um íþróttir. Það var fínn malarvöllur í hverfinu og svo gátum við líka spilað körfubolta. Ég man varla eftir að hafa leikið mér neitt annað en í íþróttum og mér gekk líka vel, ég var hluti af mjög sterkum ‘75 árgangi sem var síðasti Íslandsmeistari fimmta flokks í fótbolta á stórum velli, nokkrir okkar skiluðu sér upp í meistaraflokk Keflavíkur, leikmenn eins og Gaui Jóhanns, Snorri Jóns, Gummi Odds og fleiri. Ég og Gaui Gylfa skiluðum okkur upp í meistaraflokk í körfunni svo það má sjá að þetta var öflugur árgangur. Ég gekk í Myllubakka- og Holtaskóla og kláraði auðvitað grunnskólaprófið, sterkustu minningarnar þaðan eru frá því að ná fótboltavellinum í frímínútum, lífið gekk meira og minna út á íþróttir. Það sást kannski best á frammistöðu minni í næsta skóla. Ég entist ekki nema eitt og hálft ár í FS, áhuginn á náminu var lítill sem enginn og ég vildi frekar fara að vinna. Ég var alinn upp við gott vinnueðli og man að við Snorri vinur minn fengum vinnu í gegnum pabba í mötuneytinu hjá varnarliðinu og skilaboðin voru skýr, við skyldum sko standa okkar plikt, mannorð pabba væri að veði! Ég var á kafi í íþróttum á þessum tíma, fótbolti á sumrin og karfa á veturna, og vann hin og þessi störf samhliða, var í múrverki eitt sumarið, annað var ég að vinna á vellinum, lífið hjá mér snerist um íþróttir.“

Feðgar. Sverrir með pabba sínum á fótboltaleik feðga (t.v.). Á innfelldu myndinni eru feðgarnir Sverrir og Jón Arnór. Jón Arnór er eins og pabbi sinn, leggur bæði stund á fótbolta og körfu.

Erfitt að velja á milli

Segja má að Sverrir sé með þeim síðustu þar sem leikinn var körfubolti á veturna og fótbolti á sumrin, í dag sést ekki að leikmaður sé í báðum greinum á hæsta getustigi. Sverrir var á öðru ári í öðrum flokki í fótbolta þegar hann fékk fyrsta tækifærið í meistaraflokki árið 1993, kom þá inn á og jafnaði 2-2 í leik á móti Fylki og fékk svo alvöru tækifæri sumarið eftir, þá á elsta ári í öðrum flokki.

„Ian Ross byrjaði með okkur 1994 en svo tók Pétur Pétursson við á miðju tímabili og þá fékk ég hellings tækifæri, skoraði fimm mörk þetta sumar og hefði viljað að Pétur hefði haldið áfram með liðið. Ég hafði alltaf litið mikið upp til Péturs, fannst hann frábær leikmaður og maður sá að hann var heldur betur með þetta í sér þegar hann spilaði með okkur á æfingum en því miður þá hélt hann ekki áfram með liðið eftir þetta tímabil. Ég gæti alveg trúað að ef hann hefði haldið áfram með okkur og knattspyrnudeild Keflavíkur hefði lagt hart að mér að velja á milli greina, að þá hefði ég gert það þarna. Ég hafði farið veturinn á undan í Stykkishólm og spilaði með Snæfelli í körfunni og var valinn nýliði ársins, skoraði svo fimm mörk í efstu deild með Keflavík en ég samt ennþá í öðrum flokki svo það var kannski ekki einfalt mál að velja á milli greina. Ég átti ágætt tímabil ‘95 í fótboltanum með Keflavík, Ingi Björn Alberts hafði tekið við liðinu en eftir fótboltatímabilið ‘94 skipti ég yfir í Keflavík í körfunni og átti gott tímabil, spilaði helling en þarna voru bæði Gaui Skúla og Falur Harðar í öðrum liðum. Við unnum deildina en duttum út í undanúrslitum fyrir Grindavík. Gaui og Falur sneru svo til baka og ég sá að ég myndi ekki fá sömu mínútur með Keflavík og þar sem Ísak Tómasson og Ástþór Ingason voru að leggja skónum með Njarðvík, skipti ég yfir til grannanna og átti tvö góð tímabil með þeim. Síðan urðu kaflaskil má segja,“ segir Sverrir Þór.

Íslandsmeistari í unglingaflokki með Keflavík.

Fjölin fundin á Króknum

Sverrir fékk símtal frá einu af átrúnaðargoði sínu í keflvíska fótboltanum, Óla Þór Magnússyni, en hann hafði flutt sig norður til Sauðárkróks og lék með Tindastóli. Sverri bauðst að ganga til liðs við Stólana og átti þetta bara að vera eitt sumar en segja má að örlögin hafi gripið í taumana.

„Ég hafði alltaf litið upp til Óla Þórs. Hann var frábær framherji hjá Keflavík og það var gaman að fá tækifæri á að spila með honum fyrir norðan. Þetta átti bara að vera eitt sumar, mér bauðst málaravinna og fann strax að þarna væri ég búinn að finna framtíðarstarfið. Körfuboltaliðið vildi síðan fá mig til að leika með þeim og mér bauðst samningur hjá málurunum sem ég hafði verið að vinna hjá síðan um sumarið en þetta voru frábærir aðilar sem ég vann hjá. Ég sá þarna hvert ég myndi stefna á starfsferlinum og kláraði sveinsprófið einhverju seinna. Ég átti þrjú frábær ár á Sauðárkróki, frumburður okkar Auðar [Auður Jónsdóttir, eiginkona Sverris], Jón Arnór fæddist ‘98 en eftir þrjú ár leitaði hugurinn heim og ég gekk þá til liðs við Grindavík í fótboltanum. Milan Stefán Jankovic var að þjálfa Grindavík og tók ekki í mál að ég myndi líka stunda körfuknattleik og því fóru þeir skór upp í hillu í tvö ár. Eftir tvö góð ár með Grindvíkingum, þar sem við urðum m.a. deildarbikarmeistarar, fann ég hvað Körfubolta-Sverri langaði aftur að láta ljós sitt skína og ég gekk til liðs við uppeldisklúbbinn og spilaði með þeim til 2010, þrír Íslandsmeistara- og tveir bikarmeistaratitlar komu í hús og þetta var yfir höfuð frábær tími. Knattspyrnuskórnir voru samt áfram reimaðir á mig á sumrin. Ég gekk til liðs við Njarðvík frá Grindavík fyrir tímabilið 2002, komst upp úr 2. deildinni sem er þriðja efsta deildin og spilaði með þeim fjögur tímabil, þar af þrjú í fyrstu deild undir stjórn Helga Bogasonar sem hafði verið aðstoðarþjálfari þegar ég spilaði með Grindavík. Árið 2005 tók ég við kvennaliði Keflavíkur í körfu og vildi þá aðeins draga saman seglin í fótboltanum og skipti yfir til Reynis í Sandgerði, spilaði eitt tímabil með þeim og skipti svo aftur yfir í Njarðvík og kláraði knattspyrnuferilinn þar. Hætti að spila haustið 2010 en þá um vorið höfðu körfuboltaskórnir farið upp í hillu,“ segir Sverrir.

Engin meiðsli

Það er kannski ótrúleg staðreynd en á öllum keppnisferlinum lenti Sverrir aldrei í alvarlegum meiðslum. Hann fékk mörg tækifæri því þá voru miklu færri útlendingar og hann hefur gaman af því að spá í hversu langt hann hefði getað náð í viðkomandi grein, ef hann hefði valið á milli.

„Ég man eftir að hafa snúið mig á æfingu á laugardegi og var ekki orðinn alveg nógu góður daginn eftir til að spila körfuboltaleik, annars lenti ég bara aldrei í neinu. Ég hugsaði alltaf vel um skrokkinn á mér en auðvitað hlýtur heppni að spila þarna inn í líka. Það hjálpaði mér líka held ég að hafa alltaf unnið líkamlega vinnu, ég var því alltaf í góðu formi og þetta einhvern veginn bara mallaði endalaust hjá mér. Ég er mjög stoltur yfir keppnisferlinum mínum, ég veit ekki um marga sem léku báðar greinar til 35 ára aldurs án þess að meiðast nokkuð.

Það er gaman að spá í hvort ég hefði getað komist lengra í annarri hvorri greininni ef ég hefði valið á milli. Ég æfði aldrei fótbolta nema bara frá apríl til september, kannski í fimm mánuði, hina mánuðina var ég að æfa körfubolta. Hlýtur ekki að vera að ef ég hefði æft fótbolta eins og æft er í dag, allan ársins hring, að þá hefði ég orðið betri í þeirri grein? Eins með körfuna, sumrin nota leikmenn til að bæta sig í hinum og þessum þáttum leiksins, þá var ég einfaldlega að pota inn mörkum í fótboltanum. Ég myndi hins vegar ekki vilja breyta neinu, þetta var mjög skemmtilegur tími og það var gaman að keppa á háu getustigi allan ársins hring. Þegar ég var að byrja var umhverfið líka allt öðruvísi, þá var bara einn útlendingur í körfunni og enginn í fótboltanum. Svo fóru Júgóslavarnir að streyma í fótboltann en venjulega aldrei fleiri en einn í hverju liði. Í dag eru liðin í körfunni kannski með meirihluta leikhópsins af erlendu bergi brotnu, þá er auðvitað erfiðara fyrir unga og efnilega leikmenn að fá tækifæri. Ef ég fengi að ráða þá væru bara tveir útlendingar í hverju liði, það yrði mikið framfaraskref fyrir körfuboltann ef alltaf þyrftu að vera þrír Íslendingar hið minnsta inni á vellinum. Það er bara erfitt að setja svona reglur sem stangast á við Evrópulöggjöfina og það er nóg að eitt lið svíki svona heiðursmannareglu, þá elta hin liðin. Þetta er ekki góð þróun að mínu mati og það hefur sýnt sig að það er ekki uppskriftin að árangri að vera með sem flesta útlendinga. Ég var bara með tvo útlendinga í vetur hjá kvennaliði Keflavíkur og við unnum alla titla sem voru í boði. Það eru liðin sem eru með bestu íslensku kjarnana, helst uppalda heimamenn, sem skara fram úr. Þó svo að karlalið Vals hafi ekki verið með marga uppalda Valsara í sínum leikmannahópi, þá voru þeir með frábæran kjarna íslenskra leikmanna.“

Sverrir fagnar Íslandsmeistaratitlinum. Hægra megin er Sverrir með Elisa Pinzan og Daniela Wallen, leikmönnum meistaraflokks Keflavíkur, en vinstra megin er hann með börnum sínum, Aron Franz og Lovísu, með VÍS-bikarinn.


Óteljandi titlar þjálfarans

Sverrir hafði alltaf þjálfað yngri flokka í körfubolta, hvar sem hann var að spila. Eftir að leikmannaferlinum lauk árið 2010 tók við meistaraflokksþjálfun, fyrsta starfið var hjá kvennaliði Njarðvíkur en þær höfðu ekki mikið látið til sín taka á körfuboltavellinum til þessa en Sverrir var ekki lengi að breyta því.

„Okkur var spáð sjöunda sæti en enduðum á að komast í lokaúrslit á móti Keflavík. Við töpuðum fyrsta leiknum með einu stigi. Keflavík skoraði sigurkörfuna og leiktíminn rann út, mjög svekkjandi og hef ég oft spáð í hvernig þessi sería hefði farið ef við hefðum unnið fyrsta leikinn. Árið eftir fórum við svo alla leið, urðum bæði Íslands- og bikarmeistarar og þá kom kall frá karlaliði Grindavíkur sem hafði orðið Íslandsmeistari en Helgi Jónas Guðfinnsson, sem þjálfaði liðið, þurfti að hætta þjálfun liðsins. Þetta var of stór áskorun til að taka ekki og ég fór yfir í karlaboltann. Þetta var frábært tímabil, við vorum með mjög sterkt lið, urðum deildarmeistarar og komumst í bikarúrslit á móti Stjörnunni en töpuðum. Lentum svo 1-2 undir á móti þeim í lokaúrslitunum en náðum að knýja fram oddaleik með mögnuðum sigri í Garðabæ í fjórða leiknum. Ég er ekki frá því að „Ég trúi“ slagorð Grindvíkinga hafi fæðst fyrir þennan leik, sem við rúlluðum upp og náðum svo að sigra oddaleikinn og landa Íslandsmeistaratitlinum. Árið eftir urðum við bikarmeistarar en töpuðum fyrir KR í lokaúrslitum og svo tók ég líka við kvennaliði Grindavíkur og gerði þær að bikarmeisturum árið 2015 og þar með lauk frábærum þremur árum í Grindavík. Þarna var ég orðinn fertugur og upplifði í fyrsta sinn á ævinni frí frá íþróttum og mér fannst það æðislegt! Pásan var samt ekki löng, ég tók við kvennaliði Keflavíkur um áramótin og tók svo næstu tvö tímabil með þeim. Var þá á leiðinni í frí aftur en þá kom kallið frá karlaliði Keflavíkur og ég tók eitt tímabil með þeim. Fann þá að það var kominn tími á pásu og ég naut þessa frís sem varði í þrjú ár, til hins ítrasta en svo báðu Grindvíkingar mig að taka við karlaliðinu á miðju tímabili ‘21/’22. Mig langaði til að halda áfram með Grindavíkurliðið en fannst ég ekki geta sinnt því sem skyldi og réði mig í staðinn sem aðstoðarþjálfara Hjalta Vilhjálmssonar sem var með karlalið Keflavíkur en sá fljótlega að það hlutverk hentaði mér ekki, ég þarf að vera með stjórnina sjálfur. Mér bauðst síðan að taka við kvennaliði Keflavíkur fyrir þetta tímabil og landaði öllum titlum sem voru í boði og er því heldur betur að hætta á toppnum. Eins og mér líður núna er ég hættur en vinir mínir glotta við tönn þegar ég segi þetta. Þeir hafa margoft heyrt þessa tuggu mína svo maður skyldi aldrei segja aldrei en samt, eins og mér líður núna er ég hættur,“ segir Sverrir Þór.

SB málun og Liverpool

Sverrir vann með Brynjari Hólm Sigurðssyni, málara, hjá Íslenskum aðalverktökum og úr varð að þeir stofnuðu fyrirtækið SB málun árið 2016. Sverrir segist sverja að þeim báðum hafi þótt SB koma betur út en BS og ákvað blaðamaður að inna meðeiganda Sverris ekki eftir viðbrögðum. Þeir tengdust strax góðum böndum, höfðu þekkst frá fornu fari og ekki skemmdi fyrir að þeir halda með sama liðinu í enska boltanum, Liverpool. Um svipað leyti og kennitala SB málunar var stofnuð tók Jurgen Klopp við Liverpool-liðinu og upphófst mjög sigursæll tími Pool-ara eftir mörg ansi mögur ár þar á undan.

„Ég hef alltaf verið dyggur stuðningsmaður Liverpool. Það var ekki erfið ákvörðun í æsku þegar liðið var það langbesta en frá síðasta titli, árið 1991, í raun þar til Klopp tók við var ekki mikið að frétta. Við unnum einn og einn bikar en náðum aldrei að blanda okkur almennilega í baráttuna um enska titilinn, erkifjendurnir í United voru erfiðir við að eiga en um leið og Klopp tók við hafði ég góða tilfinningu. Við Brynjar hófum samstarf um svipað leyti, festum kaup á iðnaðarhúsnæði í Grófinni og gerðum strax aðstöðu til að geta horft þar á leiki. Svo keyptum við bilið við hliðina og stækkuðum Liverpool-bælið en mest hafa verið um 80 manns hjá okkur að horfa á einhvern úrslitaleikinn. Þetta hafa verið frábær ár að undanförnu og það verður söknuður af Klopp en að vinna loksins enska titilinn árið 2020 var líklega hápunkturinn en auðvitað skyggði COVID aðeins á gleðina, við gátum ekki verið að horfa saman og síðustu leikirnir voru spilaðir fyrir tómum leikvöngum en það breytir því ekki að Liverpool varð meistari þá. Klopp er að skila af sér góðu búi og ég hef trú á að nýi stjórinn eigi eftir að standa sig. Hann þarf að kaupa þrjá góða leikmenn sem passa inn í skipulagið og ef það tekst verðum við áfram sterkir. Það er bara erfitt að eiga við Manchester City á þessum tímapunkti, þeir hafa verið ótrúlega stöðugir en við verðum vonandi áfram sterkir og er ég ekki í nokkrum vafa um að við munum eiga margar gleðistundir hér í Grófinni áfram.

Eins og ég sagði, mér líður núna eins og ég sé hættur í þjálfun. Okkur hjónin dreymir um að geta skroppið stundum út í sólina yfir veturinn, ég er búinn að vera árs-miðahafi hjá Liverpool undanfarin ár og vil stunda það æðislega áhugamál áfram. Liverpool er ótrúlega skemmtileg borg, við höfum oft farið þangað án þess að vera fara á leiki en það skemmir auðvitað ekki fyrir að mæta á Anfield Road og syngja „You’ll never walk alone“ með öðrum Liverpool-aðdáendum.

Liverpool-bælið í húsakynnum SB málunar, Litli-Anfield, er ákaflega glæsilegt athvarf fyrir stuðningsmenn Liverpool og þar hafa mest safnast saman um 80 manns til að horfa á einhvern úrslitaleikinn.

Við Auður eigum þrjú yndisleg börn, á eftir frumburðinum kom dóttirin Lovísa, fædd árið 2005, og yngstur er svo Aron Franz, fæddur árið 2014. Jón Arnór er eins og ég, spilar bæði fótbolta og körfu. Hann er að spila með Höfnum núna í fótboltanum og var með Þrótti í Vogum í körfunni á síðasta tímabili. Ég held að hann sé að spá í að setja meiri kraft í körfuna núna, hann hefur alla burði til að verða góður körfuknattleiksmaður en hvort hann verði föðurbetrungur kemur bara í ljós, ég vona það. Lovísa var í liðinu hjá mér í vetur og varð því þrefaldur meistari, hún á framtíðina fyrir sér og Aron Franz er mikill íþróttaálfur eins og ég var, hvort að hann muni leggja íþróttir fyrir sig kemur bara í ljós, ég myndi aldrei setja neina pressu á hann í þeim efnum. Það er bara frábært fyrir börn að vera í íþróttum, þau þroska félagsanda og eru í góðri hreyfingu en öll pressa frá foreldrum er fáránleg að mínu mati. Það er ótrúlegt að sjá suma foreldra á þessum íþróttamótum barnanna, það er eins og eigi að gera atvinnumann úr barninu en öll svona pressa getur ekki annað en skemmt fyrir blessuðu barninu. Við Auður viljum bara styðja börnin okkar í því sem þau taka sér fyrir hendur.

SB málun er á góðum stað, við erum venjulega með um tíu manns í vinnu, allt frábærir málarar og félagar. Verkefnastaðan er eiginlega alltaf góð, við erum langmest hér á Suðurnesjunum en höfum líka verið í höfuðborginni en okkur langar ekkert til að stækka meira, þetta rúllar fínt svona. Ég hlakka mikið til næstu ára, það verður gaman að upplifa nýja hluti í framtíðinni,“ sagði Sverrir Þór að lokum.