Skólaslit
Skólaslit

Fréttir

Jafnvel gengið svo langt að taka börn inn á sitt eigið heimili
Fulltrúar Suðurnesjabæjar á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Fjölbrautaskóla Suðurnesja um síðustu helgi.
Föstudagur 4. október 2024 kl. 06:02

Jafnvel gengið svo langt að taka börn inn á sitt eigið heimili

Ályktun um börn með fjölþættan vanda á aðalfundi S.S.S.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn þann 28. september, hvetur ríkisvaldið til að standa betur undir ábyrgð sinni í þjónustu við börn með fjölþættan vanda hvað varðar ábyrgð á úrræðum og fjármögnun þeirra.

Á undanförnum tíu árum hefur skapast gjá á milli ríkis og sveitarfélaga hvað varðar þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Ríkið hefur dregið verulega úr úrræðum á þessu tímabili en skv. framkvæmdastjóra Barna- og fjölskyldustofu hefur meðferðarplássum fækkað úr rúmlega 60 í tæplega 20 pláss. Barnaverndarþjónustur á landsvísu hafa fundið verulega fyrir þessari þróun og hefur kostnaður sveitarfélaga við þennan þjónustuhóp aukist á sama tíma.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Skilgreiningarvandi á hvað telst barn með fjölþættan vanda, ásamt fækkun úrræða af hendi ríkisins veldur því að grá svæði hafa myndast milli ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Það hefur skapað kerfislegan vanda og ábyrgð á þjónustu við þennan hóp lagst á herðar sveitarfélaga. Sveitarfélög hafa verið nauðbeygð til þess að mæta þjónustuþörfinni með því að kaupa þjónustu af einkareknum úrræðum á borð við Klettabæ, Heilindi og Vinakot. Kostnaður sveitarfélaganna vegna slíkra samninga er gríðarlegur eða um 150 milljónir fyrir hvern samning á ársgrundvelli.

Það er réttlætismál fyrir alla aðila að þessi mál séu skýrari og ekki sé verið að færa vandann á milli kerfa. Barnaverndarþjónustur á Suðurnesjum eru með fleiri en eitt mál sem falla undir þörf fyrir þjónustu skv. 79. gr. barnaverndarlaga. Þessi mál hafa öll verið í kerfinu í lengri tíma með víðtækum vandkvæðum fyrir alla aðila. Þessi börn þurfa að fá viðeigandi þjónustu og þau þurfa að fá hana hratt.

Ljóst er að nú er komið að þolmörkum hjá sveitarfélögunum bæði hvað varðar úrræði og fjármögnun og verður ríkið að stíga fram og sinna lagalegri skyldu sinni í málaflokknum. Starfsfólk sveitarfélaga hefur vissulega lagt sig allt fram til að leysa öll mál og jafnvel gengið svo langt að taka börn inn á sitt eigið heimili. Jafnframt hefur starfsfólk kallað ítrekað eftir svörum varðandi framkvæmd þeirra úrræða sem tilgreind eru hér að ofan en einu svörin sem fást eru þau að lítið þokist í málaflokknum og að ekki sé til fjármagn. Barna- og fjölskyldustofa (BOFS) hefur engin svör, ekki úrræði og ekki fjármagn til að koma þeim á laggirnar. Hér er um að ræða neyðarástand sem varðar líf og framtíð barna.

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum krefst þess að ríkið vinni hratt að því að leysa gráu svæðin í þjónustu við börn með fjölþættan vanda, tryggi nauðsynlegt fjármagn og hefji strax vinnu við að koma á fót þeim úrræðum sem lögð hafa verið til. Í Áfangaskýrslu II sem gefin var út í september 2024, koma fram skýrar tillögur sem þurfa að koma til framkvæmda, segir m.a. í ályktun S.S.S.