Keflvíkingar gerðu góða ferð til Eyja
Það tók Guðmund nokkurn Steinarsson ekki nema um 10 mínútur að skora sigurmark Keflvíkinga gegn ÍBV í Eyjum í Pepsi-deildinni í kvöld. Guðmundur sýndi afar góða tilburði með boltann eftir langt innkast Jóhanns Ragnars Benediktssonar. Gott samspil þeirra tveggja og virkilega vel klárað hjá Guðmundi. Eftir markið voru heimamenn sterkari aðili leiksins í rokinu og rigningunni í Eyjum.
Guðmundur Þórarinsson átti m.a. skot í slánna á 50. mínútu af 25 metra færi. Inn vildi boltinn þó ekki og Keflavík hélt áfram forystunni. Sumir myndu segja ósanngjarnt en á meðan hitt liðið skorar ekki þá hlýtur forystan að vera sanngjörn. Eyjamenn héldu áfram að sækja en fengu engin alvöru færi þrátt fyrir að vera mikið með boltann. Niðurstaðan 0-1 sigur Keflavíkurpilta sem komast með sigrinum upp í 4.sæti deildarinnar. Eyjamenn hefðu með sigri getað náð 2.sætinu af KR en halda sér í staðinn í 3.sæti og munu því berjast við Keflavík, Breiðablik, ÍA og fleiri lið um Evrópusæti.
Árni Freyr Ásgeirsson, hinn ungi varamarkvörður Keflvíkinga þurfti óvænt að stökkva á milli stanganna þegar Ómar Jóhannsson þurfti að fara af velli snemma leiks. Árni átti stórleik og þurfti oft að hafa fyrir því að halda hreinu. „Það var nóg að gera, það er bara gott,“ sagði Árni í samtali við mbl.is. Hann sagði að hann hefði ekki átt von á því að spila en Ómar var þó tæpur.
„Ekki fyrr en að Ómar pikkaði í mig í Herjólfi fyrir leikinn og sagði að ég gæti þurft að spila, hann væri hálfblindur á öðru auganu. Ég er sáttur með mína frammistöðu og við fáum að sigla heim með þrjú stig í kvöld,“ sagði Árni ennfremur.