Samstaða og hrikalega góð stemmning í Vogum
Er The Herminator við það að koma Þrótti í Lengjudeildina?
Það vakti athygli þegar Hermann Hreiðarsson tók við liði Þróttar snemma á tímabilinu. Með komu hans hafa ferskir vindar leikið um Vogana og gengi Þróttar er framar vonum. Þróttarar eru í harðri toppbaráttu í 2. deild karla og sitja í næstefsta sæti deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir. Þróttur hefur leikið í 2. deild síðustu þrjú tímabil en aldrei í næstefstu deild Íslandsmótsins. Hermann spjallaði við Víkurfréttir um stöðuna eftir sigur þeirra á Kórdreng jum, efsta liði deildarinnar á sunnudag.
– Þú hefur heldur betur mætt með ferska vinda í Vogana og hrist upp í hlutunum. Hvernig líst þér á stöðuna eins og hún er núna?
„Eins og staðan er núna þá líst mér frábærlega á hana. Við erum búnir að koma okkur í hrikalega skemmtilega stöðu og þetta er alfarið í okkar höndum, þurfum ekki að treysta á neinn. Getum einbeitt okkur að sjálfum okkur og þurfum ekki að spá í neitt annað. Það er náttúrlega frábær staða að vera í, að eiga þrjá leiki eftir og hafa þetta á eigin ábyrgð,“ segir Hermann í samtali við Víkurfréttir.
Heilbrigður klefi og flottir karakterar
„Þetta er búið að vera meiriháttar í alla staði og búin að vera sigling á mannskapnum. Það vex sjálfstraustið með hverjum sigri – maður fann það bara strax þegar ég kom, að þetta var heilbrigður klefi og flottir karakterar. Samstaða, menn vildu gera þetta saman. Það var svo sem bara að kýla hópinn enn betur saman og fá trú í mannskapinn.“
Það er óhætt að segja að það hafi tekist því Vogamenn eru komnir í annað sæti deildarinnar eftir að hafa sigrað tvö efstu liðin, Selfoss 4:1 á útivelli og nú síðast Kórdrengi 1:0 á heimavelli sínum. Þróttarar virðast eflast með hverjum leiknum og þeir eru farnir að finna lyktina af Lengjudeildinni.
„Það er búið að sýna það í hverjum leik að viljinn er fyrir hendi,“ segir Hermann. „Menn fara í hvern leik til að vinna og vilja vinna. Eftir að við töpuðum tveimur leikjum, gegn Haukum og Njarðvík, þá vissum við að það væri ekkert nema úrslitaleikir eftir í rauninni. Frá fyrsta leik eftir það hefur fókusinn, viljinn og samstaðan verið ótrúleg.“
Hefur fulla trú á að Þróttur klári þetta
– Það sýnist vera hrikalega góð stemmning í liðinu og allri umgjörðinni.
„Já, alveg hrikalega góð. Heildin er alveg svakalega öflug, það eru allir að vinna í sömu átt, allir tilbúnir að leggja eitthvað á sig og langar að gera hlutina vel. Allt frá stjórnarmönnum, sjálfboðaliðum og til leikmanna – þetta smitar svo frá sér til bæjarfélagsins og stuðningsmanna sem voru svo sannarlega frábærir og skemmtu sér konunglega á sunnudaginn [á leik Þróttar og Kórdrengja]. Það var meiriháttar að upplifa stemmninguna.“
– Þú hefur væntanlega trú á að þið klárið dæmið, er það ekki?
„Að sjálfsögðu hefur maður fulla trú en að sama skapi þá eru þrír leikir eftir og það verður að hafa fyrir því – menn þurfa að vera á tánum. Við erum búnir að ræða það, og við vitum það, að við getum unnið hvaða lið sem er ef við spilum vel – og við þurfum bara að gera það áfram, spila sem ein heild og gera þetta saman eins og við höfum verið að vera að gera. Þá skila úrslitin sér. Menn voru komnir með blóð á tennurnar fyrir löngu síðan.“
Reynslubolti með mörg járn í eldinum
Þó lífið hjá Hermanni snúist að miklu leyti um fótbolta er fleira sem kemst að. Hermann og sambýliskona hans, Alexandra Fanney Jóhannsdóttir, eiga saman ársgamlan dreng og þrjár vikur eru í settan dag hjá Alexöndru sem er ólétt af öðru barni þeirra. Fyrir á Hemmi tvær dætur, þær Thelmu Lóu (20 ára) og Ídu Marín (18 ára), sem báðar eru á kafi í fótbolta. Þá hefur hann komið að hótelrekstri með föður sínum, Hreiðari Hermannssyni.
– Það vakti athygli fyrir leikinn gegn Selfossi að liðinu var boðið á Stracta hótel.
„Við ákváðum að þetta væri sniðug hugmynd, að verðlauna liðið fyrir gott gengi með því að fara með liðið á hótel fyrir Selfossleikinn. Strákarnir stóðu sig náttúrlega frábærlega í þremur leikjunum á undan svo það kom ekkert annað til greina. Þá vorum við komnir á þann stað að vera vel inn í myndinni. Við reynum að gera allt til að undirbúa þetta sem best og þeir áttu þetta svo fyllilega skilið líka. Þetta þjappaði hópnum bara betur saman og það var skemmtilegt að geta gert þetta, að geta eytt tíma saman í nýju umhverfi. Þetta var vel heppnað í alla staði.“
– Rekur þú hótelið?
„Pabbi er hótelstjórinn, ég var meira inn í þessu en það er auðvitað lítið að gera núna í þessum bransa.“
– Svo er nóg að gera í fjölskyldulífinu hjá þér.
„Strákurinn á einmitt eins árs afmæli í dag og svo eru þrjár vikur í settan dag á næsta, það verður stanslaust partí hér. Þetta er frábært, líf og fjör – það er verið að safna í lið,“ segir Hemmi og hlær. „Svo á ég tvær eldri stelpur, Thelmu Maríu og Ídu Marín, þær eru líka í fótboltanum. Thelma Lóa lék með KR í sumar og er núna úti, í skóla í Bandaríkjunum, og Ída Marín er í Val sem á í harðri baráttu við Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi Max-deild kvenna.“
Það er augljóst að fótboltagenin ganga í erfðir. Hermann var, eins og flestir vita, einn af betri knattspyrnumönnum landsins. Knattspyrnuferill hans er langur og Hermann, sem er uppalinn Eyjamaður, hefur leikið með liðum á borð við Wimbledon, Ipswich Town, Chrystal Palace og Charlton Athletics í ensku deildinni. Þá lék hann 89 leiki með íslenska landsliðinu á árunum 1996 til 2011. Þjálfaraferill hans hófst hjá ÍBV og þar var enski landsliðsmarkvörðurinn David James Hermanni til aðstoðar um tíma. Hermann hefur einnig þjálfað Fylki og auðvitað lið Þróttar hér heima, þá hefur hann verið aðstoðarmaður David James hjá Kerala Blasters í indversku deildinni og hann aðstoðaði Sol Campell hjá Southend United í ensku fyrstu deildinni. Það er óskandi að þessum öfluga reynslubolta takist að hjálpa Þrótturum upp í Lengjudeildina.
Skemmtileg upprifjun
Í spilaranum hér að neðan má sjá samantekt úr leik Chelsea og Charlton Athletics í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar árið 2005. Þarna mættust Íslendingarnir Hermann Hreiðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen í hörkuleik sem fór alla leið í vítaspyrnukeppni.