Slæmur dagur hjá Suðurnesjaliðunum – Keflavík og Njarðvík fengu slæma útreið
Suðurnesjaliðin Grindavík, Keflavík og Njarðvík töpuðu öll sínum leikjum í dag í Lengjdeild karla í knattspyrnu. Grindavík tapaði fyrir botnliði Þróttar 1:0 en Keflavík og Njarðvík fengu slæma útreið og hreinlega allt lak inn hjá þeim.
Njarðvík - Afturelding 2:5
Oumar Diouck var nærri því að skora í byrjun leiks þegar hann kom boltanum framhjá markverði gestanna en honum tókst ekki að fylgja því eftir alla leið og varnarmaður Aftureldingar náði að bjarga á síðasta metranum. Njarðvík fékk horn en ekkert varð úr því.
Njarðvíkingar lentu undir örskömmu síðar þegar Hrannar Snær Magnússon fékk boltann á vinstri kanti, lék inn að teignum og tók skoti sem hafnaði í netinu við nærstöngina (4').
Gestirnir tvöfölduðu forystuna þegar Sigurjón Már Markússon braut á Elmari Smára Enessyni Cogic sem var að sleppa í gegn og víti dæmt (16').
Tómas Bjarki Jónsson minnkaði muninn eftir hornspyrnu (35') en þetta var fimmta hornið sem Njarðvík hafði fenigð í leiknum.
Staðan 2:1 í hálfleik en Njarðvíkingar voru búnir að hafa betri tök á leiknum og sækja meira án þess þó að skapa sér nokkuð markvert.
Heimamenn höfðu vindinn frekar með sér í seinni hálfleik og á 70. mínútu jafnaði Oumar Diouck leikinn. Kaj Leo Í Bartalstovu átti þá sendingu á Diouck sem gerði vel þegar hann sneri á varnarmann og skrúfaði boltann í fjærhornið (70'). Virkilega vel gert hjá Diuck.
Á þessum tímapunkti virtist Njarðvíkingum vera að vaxa ásmegin og þeir myndi jafnvel klára þennan leik en aðeins sjö mínútum eftir markið náðu gestir forystu á nýjan leik. Þá sótti Afturelding hratt upp vinstra megin, lék inn í teig og sendu boltann fyrir markið þar sem Aron Jóhannsson skoraði af öryggi (77').
Markið var ákveðið kjaftshögg fyrir Njarðvíkinga sem voru búnir að gera vel að jafna leikinn en rothöggið kom fimm mínútum síðar þegar Hreggviður Hermannsson braut á sóknarmanni Aftureldingar rétt fyrir utan teig. Elmar Kári Cogic tók aukaspyrnuna og skaut í gegnum glufu sem myndaðist í varnarvegginn og í markið (82').
Síðasta markið skoruðu gestirnir þremur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma með skoti utan teigs sem lak í gegnum varnarmenn og hafnaði út við stöngina (87').
Með tapinu misstu Njarðvíkingar efsta sætið frá sér til Fjölnismanna sem hafa nú þriggja stiga forskot á toppnum.
Þróttur - Grindavík 1:0
Leikur Þróttar og Grindavíkur snerist um baráttu og það voru Þróttarar sem gáfu sig alla í leikinn og uppskáru sanngjarnan sigur að lokum.
Eina mark leiksins kom í lok fyrri hálfleiks og Grindvíkingar færðu heimamönnum það á silfurfati. Grindavík var þá með boltann og lék honum aftarlega, boltinn berst til Josip Krznaric sem átti slæma sendingu inn á miðjuna sem Liam Daði Jeffs koms inn í og hann tvínónaði ekkert við hlutina, geystist í átt að vítateignum og lét vaða á markið. Boltinn fór inn út við stöng án þess að Aron Dagur Birnuson, markvörður Grindvíkinga, kæmi vörnum við (43').
Við tapið fellur Grindavík niður í fimmta sæti deildarinnar.
ÍBV - Keflavík 5:0
Þó veðrið hafi spilað stóran þátt í leik ÍBV og Keflavíkur úti í Eyjum í dag og aðstæður ekki verið þær bestu þá voru Keflvíkingar bara skrefi á eftir allan leikinn.
Keflavík hafði vindinn með sér í fyrri hálfleik en það voru heimamenn svo voru mun ákveðnari og nær því að skora.
Eftir markalausan fyrri hálfleik þurfti ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu sem kom eftir ágætlega útfærða sókn Eyjamanna. ÍBV sótti og Keflavík reyndi að hreinsa frá en Eyjamenn komu þá upp vinstri vænginn og áttu frábæra sendingu inn á markteiginn sem Sigurður Arnar Magnússon renndi sér á og skoraði (51').
Keflvíkingar virtust hreinlega gefast upp við að fá á sig mark og aðeins átta mínútum síðar tvöfölduðu Eyjamenn forystuna með marki eftir skyndisókn (59') og aðrar átta mínútur liðu þar til þriðja markið leit dagsins ljós (67').
Eyjamenn skoruðu svo tvívegis í uppbótartíma (90'+2 og 90'+3) og fimm marka stórtap staðreynd.
Staðan er alls ekki góð hjá Keflavík en liðið er í áttunda sæti, einu stigi fyrir ofan Þór sem á leik til góða og aðeins tveimur stigum fyrir ofan Þrótt sem er í fallsæti.
Leikina má sjá í spilurunum hér að neðan og neðst er myndasyrpa Jóhann Páls Kristbjörnssonar, ljósmyndara Víkurfrétta, frá leik Njarðvíkur og Aftureldingu í dag.