Mannlíf

Keflavík – ríkasta lið Evrópu, „hestvagn“ frá Split og „skósólar“ í matinn
Myndir af Facebook-síðu Sigmundar Ó Steinarssonar.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 19. september 2024 kl. 15:08

Keflavík – ríkasta lið Evrópu, „hestvagn“ frá Split og „skósólar“ í matinn

Í tilefni þess að í dag eru liðin 50 ár síðan Keflavík lék fyrri leik sinn af tveimur gegn júgóslavneska liðinu Hajduk Split Í Evrópukeppni meistaraliða í knattspyrnu, er skemmtilegt að rifja upp þrjár sögur frá ferð liðsins til Júgóslavíu.
Sigmundur Ó. Steinarsson birti þessar skemmtilegu sögur á Facebook-síðu sinni.

Blaðið Slobodna Dalmacija í Split hélt því fram í frétt á baksíðu, að Keflavík væri eitt af ríkustu liðum Evrópu og birti blaðið mynd á baksíðu af „einkaþotu“ Keflavíkurliðsins og var sagt að þotan myndi bíða á flughlaði í þá þrettán daga sem Keflavíkurliðið væri í Split og léki tvo leiki gegn Hajduk Split á sex dögum, sem töpuðust báðir; 19. sept. (7:1) og 24. september (2:0).

Forráðamenn Hajduk Split, sem var eitt af sterkustu liðum Evrópu, með fjölmarga landsliðsmenn Júgóslavíu í herbúðum sínum, höfðu aldrei kynnst því að mótherjar liðsins kæmu til leiks í stórri einkaþotu, sem væri svo óhreyfð í tólf daga á flugvellinum í Split. Það var ferðaskrifstofan Sunna sem sá um ferð Keflavíkurliðsins til Split en Sunna (Air Viking) átti tvær stærstu Boeing-þotur Íslands; fjögurra hreyfla úthafsþotur, með 7.600 km flugþol. Farið var beint til Split á annari þotunni með hátt í 200 Keflvíkinga. Farið var út 17. september, en komið heim 30. september.

Filmur með „hestavagni!“
Tveir íslenskir blaðamenn af þremur í ferðinni voru vopnaðir myndavélum og varð mikið kapphlaup að koma filmum heim til Íslands eftir fyrri leikinn, en þá var tölvuöldin ekki runnin upp, þannig að menn gætu sent myndir úr farsímum sínum, sem voru ekki til 1974.
Bjarnleifur Bjarnleifsson, ljósmyndari Vísis, og Björn Blöndal, blaðamaður á Alþýðublaðinu, tóku myndir. Daginn eftir leikinn fékk Bjarnleifur umslag í móttöku hótelsins og keypti frímerki. Fór síðan út á götu og setti umslagið í næsta póstkassa, 20. sept.

„Ég sagði við Bjarnleif að ekki hefði ég trú á þessari sendingu í Júgóslavíu. Umslagið færi örugglega með hestvagni til Vínar og þaðan með flugi með millilendingu í Kaupmannahöfn,“ sagði Björn.
Björn hafði meira fyrir hlutunum. Hann fór með sitt umslag á pósthús, bað um Express hraðsendingu til Íslands.

Umslag Bjarnleifs kom til Vísis í Reykjavík á fjórum dögum (24. sept.) eftir sendingu, þannig að það var hægt að vera með myndir frá Bjarnleifi í Vísi þegar sagt var frá síðari leiknum, miðvikudaginn 25. sept.

Bjarnleifur vann kapphlaupið „á hestvagninum“, en myndir frá Birni birtust í Alþýðublaðinu 1. október, nær hálfum mánuði eftir að fyrri leikurinn fór fram.

Boðið upp á „skósóla“ í matinn!
Hótelið var gott í Split en maturinn var frekar dapur, eins og var í austur-Evrópulöndunum á árum áður. Ofeldað kjöt og sósur þekktust ekki. Ég varð vitni að ótrúlegri uppákomu er ég sat við sex manna borð með Kjartani Sigtryggssyni, fyrrverandi landsliðsmarkverðir frá Keflavík, þjálfara og lögregluþjóni, og fjórum öðrum.

Kjartan pantaði sér nautasteik (medium rare). Bornir voru fram tveir hleifar á diski. Kjartan átti erfitt með að láta hnífinn vinna á kjötinu, sem var seigt. Hann kallaði á þjóninn og kvartaði. Þjónninn tók diskinn, kom svo aftur að vörmu spori og setti diskinn fyrir framan Kjarra. Þegar hann snéri annari sneiðinni við, kom í ljós að hér var um sama hleifinn að ræða, sem hann fékk áður. Hnífsfarið var greinilegt í kjötinu, sem var jafn seigt og áður, greinilega af gamalli belju úr nágrennsveitum.

Kjartan kallaði aftur á þjóninn, bað hann um nagla og hamar. Þjónninn varð undrandi, en þá skellti Kjartan öðrum skó sínum á borðbrúnina og sýndi þjóninum að hann gæti notað kjöthleifana sem skósóla.

Það var mikið hlegið. Þjónnin tók diskinn og kom síðan með kjúklingarétt, sem Kjartan var ánægður með.

„Kjarri var hrókur alls fagnaðar á góðri stundu,“ segir fyrrum blaðamaðurinn, Sigmundur Ó. Steinarsson, sem birti þessar skemmtilegu sögur á Facebook-síðu sinni.
Hér á myndinni er Keflavíkurliðið sem lék fyrri leikinn í Split. Aftari röð frá vinstri: Grétar Magnússon, Ólafur Júlíusson, Þorsteinn Ólafsson, Gunnar Þór Jónsson, Karl Hermannsson, Friðrik Ragnarsson og Jón Ólafur Jónsson. Fremri röð: Steinar Jóhannsson, Ástráður Gunnarsson, Albert Hjálmarsson og Gísli Torfason. Hörður Ragnarsson kom inná sem varamaður fyrir Grétar, sem meiddist á 35. mín. Þjálfari var George Smith. Einar Gunnarsson, Guðni Kjartansson og Lúðvík Gunnarsson gátu ekki leikið vegna meiðsla. Filman með þessari mynd á fór með "hestvagninum" um Júgóslavíu.
Bílakjarninn
Bílakjarninn