Allir vegir til og frá Grindavík lokaðir
Hraun tók að flæða yfir Grindavíkurveg á fimmta tímanum í morgun og á vef Vegagerðarinnar kemur fram að vegna gossins séu allir vegir til og frá Grindavík lokaðir. Það á við Grindavíkurveg, Bláalónsveg, Nesveg austan Brimketils og Suðurstrandarveg vestan við Krýsuvíkurveg.
Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands frá kl. 06:40 í morgun segir að aðeins hafi dregið úr virkni á gossprungunni, áfram er sprungan virkust um miðbik hennar. Hraunflæði er áfram til vesturs og norðurs. Vestari hrauntungan, sú sem rennur milli Sýlingarfells og Stóra Skógfells, rann yfir Grindavíkurveg rúmlega kl. 04:30 og nálgast Njarðvíkuræð. Áætlað hraunrennsli á þessari hrauntungu er um 300 metrar á klst. Nyrðri hrauntungan rennur ekki í átt að neinum innviðum.
Von er á uppfærðri frétt frá Veðurstofu, þar sem nánar verður farið í atburði næturinnar, upp úr kl. 10.