Jafnvægi í eldgosinu - Hætta vegna gasmengunar er enn mikil
Lítil breyting hefur orðið á virkni gígsins síðustu daga og styðja óróamælingar við þessa niðurstöðu. Hraunflæði frá virka gígnum heldur áfram að renna að mestu til suðausturs í átt að Fagradalsfjalli. Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofu Íslands.
Lítilsháttar breytingar hafa verið á hraunjaðrinum, en almennt er framrás hraunjaðrana lítil. Gígurinn hleðst áfram upp, sem eykur hættu á að hann brotni niður. Ef slíkt gerist gæti hraun breytt um stefnu, en miðað við staðsetningu gígsins eru innviðir ekki taldir í hættu.
Aflögunargögn sýna að jafnvægi er á milli streymis kviku inn í söfnunarsvæðið undir Svartsengi og flæðis kviku upp á yfirborð úr virka gígnum.
Gasmengun mældist á Húsafjalli, austan Grindavíkur, um helgina, en ríkjandi norðanátt var um helgina leiddi til þess að gas barst suður frá gosstöðvunum.
Þeir sem eru á ferð á svæðinu eru hvattir til að fylgjast með gasdreifingaspá Veðurstofunnar og leiðbeiningum varðandi gasmengun á loftgadi.is
Hættumat uppfært
Hættumatið hefur verið endurskoðað og uppfært í ljósi nýjustu mælinga og gagna. Helstu breytingarnar hafa áhrif á svæði 1 (Svartsengi) sem heildarhættan fyrir svæðið fer úr „töluverðri“ hættu (appelsínugul) yfir í „nokkra“ hættu (gul). Það sem hefur áhrif á þá breytingu er að ekki hefur verið hraunflæði í átt að Svartsengi undanfarna daga. Svæði 6 fer úr „mikil“ hætta (rautt) yfir í „töluverða“ hættu (appelsínugul þar sem hættan vegna gjóskufalls er talin lítil. Hætta vegna gasmengunar er enn mikil á svæði 5 og 6, sem og svæði 3 þar sem hún er metin mjög mikil.
Hættumatið gildir til 10. desember, að öllu óbreyttu.