Samkaup
Samkaup

Aðsent

Til þjónustu reiðubúin
Þriðjudagur 3. desember 2024 kl. 10:13

Til þjónustu reiðubúin

Nú að loknum kosningum er okkur efst í huga þau fjölmörgu samtöl sem við áttum við íbúa  kjördæmisins síðustu vikur. Við viljum þakka ykkur öllum af auðmýkt fyrir mótttökurnar, fyrir samtölin og stuðninginn sem við fundum svo greinilega fyrir. 

Niðurstöður kosninganna sýna að þjóðin kallar eftir breytingum. Það er líka ljóst að plan Samfylkingarinnar hefur náð til landsmanna og íbúar á Íslandi treysta Samfylkingunni til þess að leiða áfram þær mikilvægu breytingar sem þurfa að eiga sér stað. Samfylkingin er stærsti stjórnmálaflokkur landsins og við tökum þeirri ábyrgð alvarlega. 

Síðustu tvö ár hefur Samfylkingin lagt mikla áherslu á að eiga samtal við þjóðina. Við ætlum að byggja á þeirri vinnu og halda áfram að ferðast um kjördæmið og eiga í virku samtali við ykkur öll, því við erum í þjónustustarfi fyrir ykkur. Samfylkingin vinnur með almannahagsmuni að leiðarljósi, ekki sérhagsmuni. 

Nú hefur formaður okkar, Kristrún Frostadóttir fengið umboð til þess að leiða stjórnarmyndunarviðræður og hún hefur fullt og óskorað traust frá flokknum til þess. Kristrún hefur sýnt það og sannað að hún er einstakur leiðtogi og það væri mikið heillaspor fyrir þjóðina ef henni ber gæfu til þess að móta nýja ríkisstjórn um þau mikilvægu verkefni sem Samfylkingin leggur áherslu á; að ná tökum á efnahagsmálum og lækka kostnað heimila, gera nauðsynlegar breytingar á heilbrigðiskerfinu og þjóðarátak í ummönnun eldra fólks og efla samgöngur og atvinnulíf.  

Það er okkur sannur heiður að vera treyst fyrir því að vera talsmenn ykkar í Suðurkjördæmi á Alþingi Íslendinga. Við heitum ykkur því að sinna starfinu af heilindum, dugnaði og með hasgsmuni ykkar allra að leiðarljósi. Við erum til þjónustu reiðubúin. 

Víðir Reynisson, 3. þingmaður Suðurkjördæmis

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, 9. þingmaður Suðurkjördæmis

Sverrir Bergmann, varaþingmaður 

Arna Ír Gunnarsdóttir, varaþingmaður