Takk fyrir okkur Suðurnes
Vorboðar eru margir hér á landi, lóan, sólskinsdagar í bland við snjókomu og kjördæmaviku þingmanna. Nýr og stærri þingflokkur Viðreisnar lagði land undir fót með það að markmiði að hlusta á landsmenn og eiga við þá opið samtal. Krafturinn á Suðurnesjum er jafn áþreifanlegur og vindurinn á svæðinu. Því fengu þingmenn Viðreisnar að kynnast í nýliðinni kjördæmaviku þegar við sóttum Suðurnesin heim.
Suðurkjördæmi er víðfeðmt og teygir anga sína frá Höfn og út Reykjanesið. Suðurnesin er mikill burðarstólpi kjördæmisins - þar koma milljónir ferðamanna í gegn ár hvert, uppbygging á svæðinu er mikil og mannauðurinn gríðarlegur. Suðurnesin eru einstakt svæði með kraftmiklu atvinnulífi, fjölbreyttri menningu og miklum tækifærum til framtíðar. Það er ljóst að svæðið stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum og samfélagið varð fyrir miklu áfalli í kjölfar eldsumbrota. Það var áhrifaríkt fyrir okkur að sækja ykkur heim og því munum við seint gleyma.
Oft er sagt að vika sé langur tími í pólitík, en vika telst nú ekki löng þegar heill þingflokkur vill eiga samtal við fólkið í landinu. Fyrri hluta vikunnar var þingflokkurinn staddur á Vesturlandi og seinni hlutanum vörðum við í Suðurkjördæmi. Það segir sig sjálft að slíkur tími dugir ekki til að kynnast öllu svæðinu. En betur má ef duga skal. Á Suðurnesjunum fengum við í Viðreisn að kynnast framtíðaráformum um uppbyggingu í grennd við Flugstöðina hjá Kadeco. Þá fengum við frábærar móttökur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík, þar fengum við að kynnast einstöku sjónarmiði og eftir situr þeirra gildi um mennsku, myndugleika og menningu. Þá var sérstaklega ánægjulegt að fá tækifæri til að kynnast sálfélagslegri þjónustu þeirra og eiga samtal um þjónustu við börn og ungmenni. Í hádeginu nærðum við okkur að sjálfsögðu á Réttinum og áttum skemmtileg samtöl við þá sem snæða þar í hverju hádegi, eða í það minnsta á föstudögum.
Áhrifamesta heimsókn þessarar viku var að heimsækja Grindavík. Þar hittum við viðbragðsaðila á svæðinu, atvinnurekendur og íbúa. Krafturinn í samfélaginu var svo áþreifanlegur og það er mikilvægt að við sem sitjum á þingi gleymum aldrei Grindvíkingum. Við fengum dýrmætt veganesti í okkar störf um það hvernig við tryggjum framtíð samfélagsins. Krafturinn varð svo enn áþreifanlegri í Smáranum þegar við mættum á leik Grindavíkur og Keflavíkur í Bónusdeild karla. Það er nú yfirleitt ekki fréttamatur að heimamenn fjölmenni á íþróttaleiki, en það er frétt þegar heimavöllurinn er víðsfjarri mörgum íbúum en þeir mæta samt. Takk fyrir góðar móttökur á leiknum og til hamingju með sigur í æsispennandi leik!
Takk fyrir okkur Suðurnes, þangað til næst.
F.h. þingflokks Viðreisnar,
Guðbrandur Einarsson,
þingmaður Suðurkjördæmis