Sverrir Bergmann steig á svið Alþingis
Á dögunum fékk ég þann heiður að starfa sem varaþingmaður á Alþingi. Mér fannst mikilvægt að nota tækifærið til að ræða málefni sem standa okkur næst í Reykjanesbæ.
Reykjanesbær er ört stækkandi samfélag og fylgja þeirri stækkun ýmsar áskoranir. Fólksfjölgun í sveitarfélaginu síðustu tíu árin er um 60%. Við erum fjórða stærsta sveitarfélag Íslands og höfum á þessum tíma farið úr 15 þúsund manns í 24 þúsund manns sem er mjög hröð fjölgun íbúa.
Mikil fólksfjölgun á stuttum tíma skapar áskoranir fyrir innviði, húsnæðisuppbyggingu og opinbera þjónustu sem er mjög kostnaðarsöm. Þegar slíkar aðstæður koma upp fer mestur þungi uppbyggingar í nauðsynlega, lögbundna innviði eins og fjölgun leik- og grunnskóla, uppbygging á hjúkrunarheimilum og í grunnþjónustu eins og félags- og velferðarþjónustu.
Í Noregi og Svíþjóð styður ríkið sveitarfélög í slíkri stöðu með beinum fjárframlögum til að byggja upp skóla, vegi og velferðarþjónustu, sem kemur í veg fyrir að þau neyðist til að fjármagna þetta eingöngu með lántökum eða skattahækkunum. Með slíkum styrkjum væri hægt að laga sig að fjölgun íbúa á sjálfbæran hátt, án þess að þjónusta skerðist eða efnahagslegur stöðugleiki sveitarfélagsins væri í hættu.
Önnur áskorun sem vert er að nefna er atvinnulífið. Reykjanesbær er háður einstaka atvinnugreinum og höfum við séð hversu brothætt hagkerfið okkar getur verið þegar áföll dynja yfir. Við þurfum aukna fjölbreytni í atvinnuþróun, aukna nýsköpun og betri stuðning við fyrirtæki sem vilja skapa störf til framtíðar. Ein leið væri að færa fleiri ríkisstofnanir til Reykjanesbæjar til að styrkja atvinnulífið og skapa þar stöðug opinber störf og um leið skapa vettvang fyrir fólk með sérfræðimenntun til þess að starfa í sveitarfélaginu.
Vegna þessa áskorana skiptir miklu máli að samskipti ríkis og sveitarfélaga séu í föstum og traustum skorðum. Ég bind miklar vonir til þess að núverandi ríkisstjórn sýni raunverulegan vilja til að byggja upp gott samstarf, hlusti á þarfir sveitarfélaga og tryggja að þau fái þau úrræði sem nauðsynleg eru til að veita íbúum góða þjónustu.
Framtíðin er björt í Reykjanesbæ, við erum samfélag í sókn. En til þess að nýta þau tækifæri sem fram undan eru þurfum við á stuðningi að halda við þessu stóru verkefni og skora ég því á ríkisstjórnina að standa með okkur og vinna að lausnum sem tryggja réttláta þróun allra sveitarfélaga á Íslandi.
Sverrir Bergmann Magnússon,
Bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar og varaþingmaður Samfylkingar