Af samskiptavanda og öðru getuleysi
Undirritaður sat aðalfund ungmennafélagsins Þróttar sem fram fór 10. mars síðastliðinn. Sá fundur var fyrir margar sakir merkilegur en þar steig úr formannsstóli formaður sem hafði leitt félagið í gegnum viðburðaríka tíma og stórar áskoranir síðastliðin ár svo sem covid tíma, 90 ára afmæli félagsins, Landsmót 50 plús og náttúruhamfarir með öllum þeim áskorunum sem því fylgja. Á tíma formannsins hafði félagið fagnað sæti í 1. deild, bæði í knattspyrnu og körfubolta. Allt þetta fór formaðurinn í gegnum sem sjálfboðaliði, með trú á ungmennafélagsandanum og umhyggju fyrir sínu samfélagi. Það kom líka fram á þessum fundi að stærsta ástæðan fyrir því að formaðurinn stigi nú úr stóli væri mikill samskiptavandi og ömurlegt viðhorf Sveitarfélagsins Voga til Ungmennafélagsins Þróttar.
Þá kom fram á þessum aðalfundi og sköpuðust miklar umræður um að Sveitarfélagið Vogar, sem var samstarfsaðili Þróttar í því að halda Landsmót 50 plús, hafði tekið tæpar 4 milljónir sem bárust frá ríkinu úr uppbyggingarsjóði til handa Landsmóts-verkefninu út úr verkefninu og notað til viðhalds á eignum sveitarfélagsins án samráðs eða samtals við hlutaðeigandi aðila. Þessi gjörningur sveitarfélagsins hefur orðið til þess að þörf er á að endurskoða verklag við úthlutun á þessum peningum.
Á 194. fundi bæjarstjórnar og fyrsta fundi núverandi bæjarstjórn var bókað í málefnasamning D og E lista um íþrótta- og frístundamál að áhersla yrði lögð á „Að hlúa að og styðja við bakið á þeim félagasamtökum sem starfrækt eru í bæjarfélaginu“. Þetta loforð eða þessi stefna entist til klukkan 18:20 þennan sama dag eða þar til fundi var slitið.
Undirritaður skrifaði grein í Víkurfréttir þann 12. október 2023 þar sem hann skoraði á kjörna fulltrúa að taka samtalið og „hlúa að og styðja við bakið“ á stjórn Þróttar. Viðbrögðin hjá fulltrúum voru þau að loka augunum og vona að þetta lagaðist af sjálfum sér. Nú er staðan sú eins og fram kom á þessum merkilega aðalfundi að samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsmála er komin í málið. Það er fáheyrt að embætti samskiptafulltrúa skerist í leikinn hjá stjórnsýslunni og þarf hann til þess leyfi ráðuneytis. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 24 um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs kemur fram m.a. að markmið þeirra er að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að þeir sem það stundi geti leitað réttar síns vegna atvika eða misgerða sem eiga sér stað.
Hluti vandans er að einhverju leyti samsetning bæjarstjórnar þar sem meirihluti er saman settur af þremur fulltrúum D lista og þremur fulltrúum E lista en eftir stendur þá einn fulltrúi L lista. Fulltrúi L lista lýsti því yfir á borgarafundi síðastliðið vor að hann væri ekki í minnihluta heldur hefði valið að starfa með meirihlutanum sem kemur heim og saman við fundargerðir bæjarstjórnar þar sem hann velur að bóka ekki eða tjá sig neitt yfir höfuð, þar að leiðandi er enginn sem veitir meirihlutanum aðhald.
Enn og aftur skora ég á bæjarstjórn að opna augun og leysa þessi mál. Það er enn eitt ár til kosninga og því nægur tími til stefnu. Mín tillaga til bæjarstjórnar er sú að setja aðeins minni orku í að bóka og væla yfir Grindvíkingum sem búa í Vogum án lögheimilisskráningar (væntanlega tímabundið) og nota þá orku í að sinna innviðum og samfélaginu í heild sinni, og stefna í átt að betra samfélagi „fyrir Voga“.
Að lokum vil ég taka það fram að undirritaður er óbreyttur félagsmaður í ungmennafélaginu.
Gunnar Júlíus Helgason