Courtyard by Marriott fagnar 5 ára afmæli með listsýningu og góðgerðarviðburði
Courtyard by Marriott Reykjavík Keflavík Airport fagnar 5 ára afmæli sínu með listsýningu í samstarfi við Hæfingarstöðina (Hæfó). Viðburðurinn fer fram dagana 13. og 14. apríl í fundarherbergi hótelsins og stendur frá kl. 10:00 til 19:00 báða dagana.
Á sýningunni verða til sýnis fjölbreytt og litrík listaverk eftir fólkið í þjónustu Hæfó,sem einnig verða til sölu með uppboði. Allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til Hæfó, sem styður við fólk með fötlun á Suðurnesjum og veitir þeim tækifæri til aukinnar þátttöku í samfélaginu og daglegu lífi.
„Við viljum fagna þessum tímamótum með því að gera eitthvað fallegt og þýðingarmikið. Það er gaman að geta sýnt fram á þann hæfileika og sköpunarkraft sem býr í fólkinu okkar hér á svæðinu. Við erum stolt af samstarfinu við Hæfó og hlökkum til að deila þessum viðburði með gestum og nærsamfélaginu,“ segir Ívar Sindri Karvelsson, hótelstjóri Courtyard by Marriott Reykjavík Keflavík Airport.
Á sunnudeginum verður boðið upp á drykki, en á mánudeginum – afmælisdeginum sjálfum – verður boðið upp á dýrindis kökur fyrir gesti.