Rætur
Rætur

Aðsent

Verslunarfólk í góðum höndum á Suðurnesjum
Fimmtudagur 6. mars 2025 kl. 10:54

Verslunarfólk í góðum höndum á Suðurnesjum

Þann 1. apríl nk. verða liðin sex ár frá því að sameining VR og Verslunarmannafélags Suðurnesja tók formlega gildi en ári áður hafði stjórn VS samþykkt að hefja sameiningarviðræður við VR. Sameiningar sem innibera annars vegar landsbyggðareiningar og hins vegar höfuðborgarsvæðið geta haft í för með sér áskoranir, enda verða hagsmunir höfuðborgarinnar stundum fyrirferðamiklir. 

Á þetta reyndi fljótlega eftir sameiningu eða þegar COVID-faraldurinn skall, á sem hafði gríðarleg áhrif á atvinnuástand á Suðurnesjum. Þá sýndi sig og sannaði hversu mikilvægt það var að starfrækja áfram skrifstofu á Suðurnesjum og þaðan er rekin öflug þjónusta fyrir svæðið í heild sinni. Það samfélag stéttarfélaga og annarra aðila sem þjónusta launafólk sem hefur myndast í Krossmóum er kröftugt og þar er fólk vakið og sofið yfir réttindum og hagsmunum launafólks á Suðurnesjum. Almennt talið má segja að sameining VR og VS hafi heppnast með ágætum. Reyndar heppnaðist hún svo vel að enn má finna fólk sem telur að skrifstofa VR sé í raun gamla góða Verslunarmannafélag Suðurnesja og það sýnir að þjónustan er eftir sem áður góð í nærumhverfinu. 

Formaður allra VR félaga

Ég tók við embætti formanns VR í desember sl. þegar forveri minn tók sæti á Alþingi og gef kost á mér til að halda áfram í formannskosningum sem nú eru að hefjast í félaginu. Mér er mikið í mun að vera formaður allra VR-félaga og horfi ég þar meðal annars til hins stóra félagssvæðis VR og þeirra ólíku aðstæðna sem fólk býr við í mismunandi landshlutum. Ég hef þegar sótt skrifstofu VR á Suðurnesjum og nokkra vinnustaði heim og sett mig inn í stöðu atvinnumála á svæðinu. Ég legg áherslu á að viðhalda öflugri þjónustu VR á Suðurnesjum, en einnig að formaður láti sig staðbundin mál sem tengjast kjörum félagsfólks varða. Ég stefni á að hafa reglubundna viðveru á Suðurnesjum og að heimsækja vinnustaði VR félaga á svæðinu. Enn fremur stendur fyrir dyrum viðamikil skipulagsvinna í VR þar sem fjallað verður um eðli og umfang deilda félagsins, meðal annars hvort deildaskipting eftir landsvæðum eða starfsgreinum sé æskilegri. Mikilvægt er að tryggja að sjónarmið vinnandi fólks á Suðurnesjum séu til hliðsjónar við alla umræðu og ákvarðanatöku í þessum efnum. 

Nýtið atkvæðisréttinn

VR er stærsta og öflugasta stéttarfélag landsins og er eitt félaga sem kýs sér forystu með beinni persónukosningu. Ég hvet VR félaga á Suðurnesjum til að nýta kosningarétt sinn í félaginu og kjósa bæði formann og stjórnarfólk. Rafrænar kosningar standa frá kl. 10 þann 6. mars og fram til hádegis 13. mars nk. Kjósum og hvetjum fólk til að kjósa!  

Allar nánari upplýsingar má finna á vef VR, vr.is, og á minni síðu, halla.is.

Halla Gunnarsdóttir, formaður VR.