Andleg heilsa í forgangi í tuttugu ár
– fjárfesting fyrir framtíðina
Björgin hélt upp á tuttugu ára starfsafmæli þann 4. febrúar síðastliðinn og var því fagnað með opnu húsi þar sem boðið var upp á kaffi og með því í sal Bjargarinnar. Vel var mætt þrátt fyrir leiðindaveður og færum við þeim sem kíktu til okkar góðar þakkir, bæði notendum, aðstandendum, stofnunum og bæjarstjóra sem leiddi afmælissönginn af sinni alkunnu snilld.
![](/media/1/bjorgin-08.jpg)
Björgin - Geðræktarmiðstöð Suðurnesja er athvarf og grunnendurhæfingarúrræði fyrir einstaklinga með geðheilsuvanda, búsetta á Suðurnesjum. Björgin var stofnuð árið 2005 og var upprunalega staðsett í húsnæði Sjálfsbjargar á Fitjabraut en með aukinni aðsókn notenda var ákveðið að flytja starfsemina og fékk Björgin til ráðstöfunar tvö húsnæði á Suðurgötu 12–14 sem ber nafnið Lautin og 15–17 sem ber nafnið Hvammur. Í kjölfar flutninga varð mögulegt að þjónusta með enn betri hætti þann breiða hóp sem nýtir sér þjónustu að einhverju tagi í Björginni. Húsin eru staðsett sitthvoru megin við Suðurgötuna og nýtast bæði vel á mismunandi máta. Frá þeim tíma hefur Björgin vaxið og dafnað og er í dag mjög mikilvægur hlekkur í samfélaginu okkar hér á Suðurnesjum.
![](/media/1/bjorgin-11.jpg)
Þjónusta Bjargarinnar skiptist í tvær leiðir, athvarf og grunnendurhæfingu.
Einstaklingar sem þess óska geta sótt Björgina án þess að taka markvisst þátt í dagskrá. Sú leið kallast athvarf og er þar helsta markmiðið að rjúfa félagslega einangrun. Félagsleg samvera er einn mikilvægasti þáttur athvarfsins, samveran á sér bæði stað innan Bjargarinnar og annars staðar úti í samfélaginu. Skipulagðar ferðir, samverustundir og húsfundir eru haldnir reglulega, auk ýmissa mismunandi viðburða.
Grunnendurhæfing miðar að því að gefa einstaklingum tækifæri til að efla færni sína á ýmsum sviðum. Boðið er upp á námskeið, hópastarf, fræðslu og ráðgjöf þar sem lögð er áhersla á að auka þekkingu og vitund einstaklingsins á uppbyggilegum málefnum sem stuðla að bata hans. Einstaklingar sem eru í endurhæfingu fá ráðgjafa sem heldur utan um þeirra endurhæfingu með þeim.
Á Suðurgötu 12–14 er forstöðumaður Bjargarinnar með skrifstofu sem og ráðgjafi athvarfs, þar er í boði að fara í pool, pílu eða stunda hvers kyns iðju. Mikið er til af efniviði til t.d. skartgripagerðar, mósaíkmyndagerðar, listsköpunar og fleira. Á Suðurgötu 15–17 er einnig margskonar iðja í boði en þar er til ógrynni af garni og efni til saumaskaps og nóg er af spilum til að grípa í. Þar er einnig salur sem sem nýttur er í fyrirlestra tvisvar sinnum í viku fyrir endurhæfinguna sem og skrifstofurými tveggja starfsmanna ásamt viðtalsherbergjum. Opnir fyrirlestrar eru fyrir notendur Bjargarinnar með reglulegu millibili. Nýtt af nálinni hjá okkur er að vera með opið hús eitt kvöld í mánuði þar sem við komum saman, spjöllum, spilum, hlustum á tónlist og höfum það kósý.
![](/media/1/bjorgin-01.jpg)
Helstu markmið Bjargarinnar er að rjúfa félagslega einangrun, efla sjálfstæði einstaklinga, bæta lífsgæði, auka samfélagsþátttöku og draga úr stofnanainnlögnum. Björgin vinnur einnig að því að auka þekkingu almennings á geðheilbrigðismálum og stuðla að náungakærleika og skilningi í samfélaginu. Björgin er úrræði sem hefur mikla sérstöðu hér á svæðinu í þeim skilningi að Björgin er opin öllum sem eiga við geðheilsuvanda að stríða 18 ára og eldri. Ekki þarf að fara á biðlista eða fá tilvísun, nóg er að hringja og panta viðtal hjá ráðgjafa eða einfaldlega kíkja í kaffi. Mikil áhersla er lögð á hlýlegt umhverfi þar sem notendur geta komið saman í öruggt og þægilegt rými þar sem þeim líður vel og þau geta notið sín. Í Björginni er lögð áhersla á að hver og einni skipti máli.
Björgin er með heimasíðu www.bjorgin.is, Facebook síðu Björgin – Geðræktarmiðstöð Suðurnesja og Instagram bjorgin.gedraekt
![](/media/1/bjorgin-12.jpg)