Aðsent

Hafnaðir þú Margrét Sanders?
Sunnudagur 23. febrúar 2025 kl. 03:58

Hafnaðir þú Margrét Sanders?

Við, undirrituð, fulltrúar Kennarafélags Reykjanes, 9.deild Félags leikskólakennara (FL), Félags stjórnenda leikskóla (FSL) og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, skorum á þig sem fulltrúa í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að greina frá þinni afstöðu til innanhússtillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.

Í ljósi þeirrar grafalvarlegu stöðu sem er uppi í kjaradeilunni teljum við brýnt að afstaða fulltrúa sveitarfélaganna í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sé algerlega ljós. Ummæli nýkjörins borgarstjóra, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, um að hún hafi stutt þá innanhússtillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram 20. febrúar, sýna að skýr svör eru nauðsynleg. Því krefjumst við þess að aðrir fulltrúar í stjórn sambandsins upplýsi um sína afstöðu.

Jafnframt viljum við lýsa yfir vonbrigðum okkar með þann skort á gagnsæi sem hefur einkennt ferlið hingað til. Kennarar og stjórnendur leikskóla eiga rétt á að vita hvort þeirra kjör og starfsskilyrði séu tekin alvarlega af þeim sem hafa áhrif á niðurstöðu kjaraviðræðna.

Við krefjumst þess að þú sem stjórnarmaður SÍS upplýsir nú þegar um afstöðu þína til tillögunnar sem lögð var fram af ríkissáttasemjara.

Virðingarfyllst,

Páll Erlingsson formaður, fyrir hönd Kennarafélag Reykjaness

María Petrína Berg, fyrir hönd FSL

Fjóla Ævarsdóttir formaður 9. deildar, fyrir hönd FL

Sigrún Gróa Magnúsdóttir trúnaðarmaður, fyrir hönd, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar