Gera rafræna sjálfshjálparbók
„Starfið gengur vel og það hefur gríðarlega þýðingu fyrir okkur að fá svona styrk svo við getum hlúð betur að okkar notendum hér á Suðurnesjum,“ segir Díana Hilmarsdóttir, forstöðukona Bjargarinnar, Geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja. Björgin fékk veglegan styrk frá Góðgerðarfesti Blue að þessu sinni. Styrkir voru afhentir á dögunum.
Hvað er þetta viðamikið starf hjá ykkur?
„Við erum í dag með skráða 173 notendur sem eru að nýta sér þjónustu okkar að einhverju tagi. Það hefur verið aukning undanfarin ár.“ Í hverju felst ykkar þjónusta? „Við erum tvískipt úrræði. Við erum annars vegar grunnendurhæfing og svo erum við athvarf, þar sem markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun. Við erum að sinna átján ára og eldri sem eru að kljást við einhverskonar geðheilsuvanda.“
Díana segir að endurhæfingin sé með ákveðið prógram og þar þurfa einstaklingar að uppfylla ákveðin skilyrði en þau sem leita til Bjargarinnar í athvarfið koma þangað á eigin forsendum og það sé mjög misjafnt hversu oft fólk kemur og hversu lengi það stoppar.
Hjá Björginni starfa fimm starfsmenn í rúmlega fjórum stöðugildum.
„Við erum allar konur, miklar hugsjónakonur og þykir mjög vænt um þessa starfsemi.“
Díana segir að margar hugmyndir séu á lofti með það hvernig eigi að verja styrknum frá Góðgerðarfesti Blue. Þau langi mikið til að búa til rafræna sjálfshjálparbók fyrir notendur og með þeirra aðkomu. Bókin mun heita Bjargráð og er það fyrsta sem er á döfinni.