Klór blandaðist neysluvatni í Reykjanesbæ
Klór blandaðist neysluvatni í Reykjanesbæ þegar unnið var við að þrífa vatnstank ofan við Eyjabyggð í Reykjanesbæ í gær. Fjölmargir íbúar í Reykjanesbæ tjáðu sig um sterka klórlykt af kalda vatninu á samfélagsmiðlum í gærkvöldi og lýstu ástandinu þannig að vatnið væri ekki drykkjarhæft og húsnæðið angaði af klórlykt eftir að vatn hafði verið látið renna.
Í gærkvöldi birtu HS Veitur svo tilkynningu á fésbókarsíðu sinni sem er eftirfarandi:
„Í dag þegar verið var að vinna við að þrífa Vatnstankinn fyrir ofan Eyjabyggðina í Reykjanesbæ fór því miður eitthvað af klór inn á kerfið. Fólk sem finnur klórlykt af neysluvatninu hjá sér er hvatt til að láta renna þar til lyktin er farin.
Við biðjumst velvirðingar á þessu.“
Í athugasemd við færsluna segir svo að klórinn sem fór inn á kerfið sé í það litlu magni að hann sé algerlega skaðlaust bæði mönnum og dýrum. „Þess má geta að vatn er klórblandað víða um heim til að sótthreinsa það og var m.a. gert hér á Ásbrú þegar þar var herstöð,“ segir í athugasemd frá HS Veitum á fésbókarsíðu fyrirtækisins.