Ragnheiður Elín ráðin framkvæmdastjóri þróunarmiðstöðvar OECD
Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur verið skipuð framkvæmdastjóri þróunarmiðstöðvar OECD (Efnahags- og framfarastofnunar). Hún mun því flytjast búferlum og taka við nýju starfi um miðjan ágúst.
Í samtali við Víkurfréttir segir Ragnheiður að hún muni taka við starfi framkvæmdastjóra þróunarmiðstöðvar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (Director OECD‘s Development Centre) um miðjan ágúst. „Development Centre er samstarfsvettangur 55 ríkja, bæði OECD ríkja og þróunarlanda í Asíu, Afríku og Rómönsku Ameríku, og styður við stefnumörkun og nýsköpun hins opinbera í þróunar- og nývaxtarríkjum,“ segir hún jafnframt.
Þróunarmiðstöðin er 100 manna stofnun sem Ragnheiður mun stýra og hún er ráðin til þriggja ára. Stofnunin er staðsett í París og því mun Ragnheiður og fjölskylda flytja þangað í næsta mánuði.
„[Við] erum þar reyndar núna í stuttu fríi til þess einmitt að átta okkur á aðstæðum, finna húsnæði, skóla o.s.frv. Ég hlakka mikið til að takast á við þetta nýja og krefjandi starf og við fjölskyldan erum full eftirvæntingar yfir nýjum ævintýrum í París,“ sagði Ragnheiður Elín að lokum.