Skoða þrjár staðsetningar fyrir gervigrasvöll í Suðurnesjabæ
Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar hefur samþykkt samhljóða að fela bæjarstjóra, ásamt sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs og deildarstjóra umhverfismála, að láta taka saman gögn og upplýsingar um þá kosti sem helst koma til greina varðandi staðsetningu á gervigrasvelli í Suðurnesjabæ.
Þeir kostir sem verði skoðaðir er m.a. yfirlögn gervigrass á keppnisvöll í Sandgerði, uppbygging á gervigrasvelli á svæði gamla malarvallar í Garði og á óskilgreindu svæði milli byggðarlaganna Garðs og Sandgerðis.
Settur verði fram samanburður á þeim kostum, m.a. er varðar útfærslur, áætlaðan stofnkostnað og annað sem þarf að liggja fyrir við samanburð þessara kosta. Einnig verði unnin greining á rekstrarkostnaði gervigrasvallar og skoðaðir kostir þess að halda úti og reka frístundabíl til að flytja börn milli byggðarlaganna vegna æfinga o.þ.h.
Samþykkt samhljóða að veita heimild til að leitað verði ráðgjafar hjá utanaðkomandi ráðgjöfum um gögn og upplýsingar sem þarf fyrir verkefnið. Valkostagreining verði lögð fyrir bæjarráð, ásamt tillögum um frekari framgang verkefnisins.