Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík lagði topplið ÍBV í miklum baráttuleik – Njarðvíkingar steinlágu í Mosfellsbæ
Sami Kamel kemur Keflavík í 2:1 snemma í síðari hálfleik. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 30. ágúst 2024 kl. 22:07

Keflavík lagði topplið ÍBV í miklum baráttuleik – Njarðvíkingar steinlágu í Mosfellsbæ

Keflvíkingar höfðu betur með þremur mörkum gegn tveimur á móti Eyjamönnum í Lengjudeild karla í knattspyrnu eftir hörkuleik á HS Orkuvelli í kvöld. Á meðan Keflvíkingar mættu fullir orku til leiks virtust Njarðvíkingar hafa verið illa stemmdir og óundirbúnir þegar þeir mættu Aftureldingu og lentu fjórum mörkum undir í fyrri hálfleik.

Keflavík - ÍBV 3:2

Mihael Mladin hefur heldur betur reynst Kefvíkingum happafengur eftir að hann kom til liðsins í félagsskiptaglugganum. Mladin kom Keflavík yfir snemma í leiknum (7') þegar hann fékk boltann utarlega í teig gestanna, umkringdur varnarmönnum náði hann að snúa sér og skoraði laglega í fjærhornið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Mladin gerði vel þegar hann skoraði opnunarmark leiksins.

Eyjamenn jöfnuðu leikinn skömmu fyrir leikhlé (41') en Sami Kamel var fljótur að koma heimamönnum yfir á nýjan leik í seinni hálfleik (48') eftir vel útfærða skyndisókn sem endaði með góðri sendingu Kára Sigfússonar frá hægri yfir á fjærstöng þar sem Kamel renndi sér og kom boltanum í netið með góðri afgreiðslu.

Kamel búinn að koma boltanum í netið.

Fjórum mínútum síðar tóku Keflvíkingar langa aukaspyrnu inn á teig Eyjamanna sem varnarmaður þeirra hitti illa, boltinn barst til Ásgeirs Helga Orrasonar sem sendi hann yfir markvörð ÍBV og í netið (53'). Hræðilegur varnarleikur og heimamenn fengu þarna mark afhent á silfurfati.

Mark Ásgeirs Helga kom upp úr klaufagang í vörn ÍBV.

Það átti eftir að koma sér vel því átta mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma (82') minnkuðu Eyjamenn muninn í eitt mark eftir að hafa sótt stíft og hafði Ásgeir Orri Magnússon í nægu að snúast í marki Keflvíkinga síðustu mínúturnar.

Þrátt fyrir þunga sókn ÍBV í lokin urðu mörkin ekki fleiri og Keflvíkingar með mikilvægan sigur í baráttu efstu liða.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum í kvöld og má sjá myndasafn úr leiknum neðst á síðunni.

Njarðvíkingar fengu á sig níu mörk í tveimur viðureignum sínum við Aftureldingu í sumar. Mynd úr safni VF/JPK

Afturelding - Njarðvík 4:1

Njarðvíkingar fengu kaldar móttökur í Mosfellsbæ í kvöld þegar Afturelding fór illa með gestina og skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleik (4', 18', 31' og 36').

Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkinga, gerði þrefalda breytingu í hálfleik og Oumar Diouck tókst að klóra í bakkann með marki úr vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks (52') en lengra Njarðvíkingar þeir ekki og slæmt tap niðurstaðan.

Úrslitin geta dregið dilk á eftir sér því fyrir þessa umferð voru Njarðvík og ÍR jöfn að stigum (31 stig hvort) en Njarðvík var í fimmta sæti á markamun. ÍR leikur á morgun gegn Þór á Akureyri og nái ÍR-ingar stigi út úr þeim leik eru Njarðvíkingar fallnir úr fimmta sætinu, sem er umspilssæti, niður í það sjötta.

Keflavík - ÍBV (3:2) | Lengjudeild karla 30. ágúst 2024