Fréttir

Árangurinn af jarðhitaleit vel umfram væntingar
Afkastamikil borhola var boruð í Rockville á Miðnesheiði. VF/Hilmar Bragi
Föstudagur 13. september 2024 kl. 06:10

Árangurinn af jarðhitaleit vel umfram væntingar

Ekki lengur hætta á heitavatnsleysi á Suðurnesjum

Árangur af jarðhitaleit á Reykjanesi er vel umfram væntingar og með þeim þremur holum sem boraðar voru í leitinni að svokölluðum lághita er hægt að halda öllu íbúðarhúsbæði á Reykjanesskaga frostfríu og líklega anna eðlilegri lágmarksnotkun til skemmri tíma. Næstu skref eru frekari mælingar, útfærsla á dælum, varmaskiptum og lögnum svo holur verði tiltækar til vinnslu. Víkurfréttir greindu frá góðum árangri við borun á Miðnesheiði í sumar.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið stóð fyrir kynningu á stöðu jarðhitamála á Íslandi mánudaginn 9. september en staða orkumála á Suðurnesjunum og afhendingaröryggi hefur verið töluvert í sviðsljósinu frá því jarðhræringar hófust í nágrenni Grindavíkur.

Guðlaugur Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir), kynntu niðurstöður úr jarðhitaleit á Suðurnesjunum og annars staðar á landinu. Ljóst að Suðurnesjafólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því að sama staða komi upp og þegar Njarðvíkurlögnin rofnaði í eldgosinu sem hófst 8. febrúar og heitavatnslaust varð á öllum Suðurnesjum í kjölfarið.

Guðlaugur Þór er hæstánægður með árangurinn sem hefur náðst á undanförnum mánuðum. „Þegar eldgosið í febrúar rauf Njarðvíkurlögnina og heitavatnslaust varð á Suðurnesjunum, var allt sett á fullt í jarðhitaleit á svæðinu og er mér mikið gleðiefni að tilkynna að þær leitir skiluðu frábærum árangri,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á fundinum

Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR, fór á fundinum nánar út í hvað var gert í jarðhitaleitinni á Suðurnesjunum. „Þegar Njarðvíkurlögnin fór í sundur í byrjun febrúar varð að veruleika það sem við óttuðumst mjög. Stjórnvöld fólu okkur hjá ÍSOR að koma með tillögur að framtíðarlausn og var allt sett í gang. Í samvinnu við orku- og veitufyrirtæki, verkfræðistofur og borfyrirtæki varð á nokkrum dögum til áætlun um leit á lághita á svæðinu en þó hafði undirbúningur í samvinnu við HS Orku verið hafinn árið 2023 en verkefnið þó ekki hafið. Þekking á lághita á þessu svæði var takmörkuð, nánast engar rannsóknir eða boranir höfðu átt sér stað síðan vinnsla hófst í Svartsengi og því ekki við nein gögn að styðjast. Svona verkefni tekur venjulega nokkur ár en þarna var allt sett í gang sökum stöðunnar sem upp var komin.

Jarðbor ÍSOR að störfum við Rockville á Miðnesheiði. VF/Hilmar Bragi

Við staðsettum þrjár djúpar rannsóknarholur (u.þ.b. 1.500 m) út frá jarðfræðilegum vísbendingum og með nálægð við innviði og náttúruvá í huga. Þær voru boraðar með það í huga að þær gætu nýst sem vinnsluholur í leiðinni og borun á Njarðvíkurheiði hófst á lygilega skömmum tíma. Borun á fyrstu holunni lauk í maí og kom í ljós að sú hola gefur um 25–30 lítra á sekúndu af 30–40 gráðu heitu vatni. Einhvern tíma hefði þetta talist misheppnuð tilraun en því fer víðs fjarri því varmadælutæknin gefur okkur möguleika á að hita vatnið meira. Það er gríðarlegur munur á því að hita 5 gráðu heitt vatn eða 30-40 gráðu heitt vatn.

Næsta hola var staðsett á Miðnesheiðinni og lauk borun þar í júní, hún skilaði 30–40 lítrum á sekúndu með vatni sem verður heitara eftir því sem fleiri próf eru framkvæmd og mun hún líklega enda á að verða um 70 gráðu heit. Ef haldið yrði Íslandsmót í borholum þá myndi þessi líklega vinna, hún myndi duga til að halda t.d. öllum Suðurnesjabæ heitum.

Borun á þriðju holunni lauk svo í júlí og er sú hola líka á Njarðvíkurheiðinni. Mjög mikið magn af vatni er í þessari holu en vatnið þó ekki nema tæplega 20 gráðu heitt en aftur, með varmadælutækninni mun þessi hola líka nýtast.

Þegar þetta allt er tekið saman þá var árangurinn af þessari jarðhitaleit á Reykjanesi vel umfram væntingar og með þessum holum er hægt að halda öllu Reykjanesinu og Vogum frostfríum og líklega anna eðlilegri lágmarksnotkun til skemmri tíma. Frekari rannsóknir muni hjálpa okkur við að meta það nánar. Næstu skref eru frekari mælingar, útfærsla á dælum, varmaskiptum og lögnum svo holur verði tiltækar til vinnslu. Þetta er fyrsta skrefið í lághitaleit á Reykjanesinu og við erum óralangt frá því að ná heildarsýn yfir möguleika svæðisins í heild. Frekari rannsókna er þörf og er mikilvægt að þær tefjist ekki,“ sagði Árni að lokum.