Íþróttir

Keflavík í öðru sæti en Njarðvíkingar heltust úr lestinni
Njarðvíkingar settu oft mikla pressu á Grindavíkurmarkið í lokin. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 14. september 2024 kl. 19:49

Keflavík í öðru sæti en Njarðvíkingar heltust úr lestinni

Njarðvíkingar þurftu að bíta í það súra epli að rétt missa af umspilssæti í Lengjudeild karla í knattspyrnu eftir 2:2 jafntefli við Grindavík. Á sama tíma unnu Keflvíkingar öruggan sigur á Fjölni og enda í öðru sæti deildarinnar. Grindavík hafði að litlu að keppa og endar í níunda sæti.

Grindavík - Njarðvík 2:2

Það var mikið í húfi fyrir Njarðvíkinga þegar þeir mættu Grindavík í lokaumferð deildarinnar. Njarðvíkingar höfðu örlögin í eigin höndum og þurftu sigur til að vera öruggir í umspil og jafnframt bæta besta árangur Njarðvíkurliðsins sem hefur hæst endað í sjötta sæti næstefstu deildar.

Það var augljóslega einhver taugatitringur í Njarðvíkingum í byrjun leiks og Grindvíkingar voru sterkari framan af.

Það dró til tíðinda eftir tæplega hálftíma leik þegar Aron Snær Friðriksson varði glæsilega skallabolta frá Adam Árna Andersen. Njarðvíkingar brunuðu í skyndisókn, boltinn barst til Oumar Diouck sem skrúfaði boltann frá vinstri í samskeytin fjær (27’), glæsilegt mark og óverjandi fyrir Aron Dag Birnuson í marki Grindvíkinga.

Njarðvíkingar leiddu því með einu marki í hálfleik og á þeirri stundu á leiðinni í umspil – en hlutir áttu eftir að breytast hratt. Eftir rúmlega tíu mínútna leik í seinni hálfleik jöfnuðu Grindvíkingar eftir mikinn darraðadans í teig Njarðvíkur. Njarðvíkingar náðu ekki að koma boltanum ekki frá og að lokum skoraði Kristófer Konráðsson (56’). Aðeins mínútu síðar náðu Grindvíkingar forystu með marki Dennis Nieblas Moreno (57’).

Þessi kafli var mikið áfall fyrir Njarðvíkinga og það tók þá tíma að ná áttum. Síðustu tuttugu mínúturnar sóttu þeir án afláts en það var eins og boltinn vildi ekki í netið, þeir áttu tvö sláarskot og annað sem rataði á markið varði Aron Dagur en þeir nafnar, markverðirnir Aron Dagur og Aron Snær, áttu báðir afbragðsleik á sitt hvorum enda vallarins.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, var á leik Grindavíkur og Njarðvíkur í Safamýri í dag og er myndasyrpa úr leiknum og viðtal við Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfara Njarðvíkinga, eftir leik er í spilara neðar á síðunni.

Mihael Mladen skoraði annað mark Keflvíkinga í dag. Mynd úr safni VF/JPK

Keflavík - Fjölnir 4:0

Keflvíkingar mættu gríðarlega ákveðnir til leiks gegn Fjölni sem réði ekkert við sterkt lið heimamanna.

Kári Sigfússon kom Keflvíkingum yfir á 25. mínútu þegar hann brunaði fram völlinn og skoraði framhjá markverði gestanna. Frábært einstaklingsframtak hjá Kára og Keflavík yfir í hálfleik.

Seinni hálfleikur var rétt byrjaður þegar Mihael Mladen tvöfaldaði forystu heimamann (46’). Ari Steinn Guðmundsson skoraði þriðja markið (72’) og Rúnar Ingi Eysteinsson innsiglaði öruggan sigur með því fjórða (81’).


Saorla Lorraine Miller skoraði tvívegis gegn Fylki í dag. Mynd úr safni VF/JPK

Fylkir - Keflavík 1:4

Keflavík vann öruggan sigur á Fylki í lokaleik beggja liða í Bestu deild kvenna að sinni. Fyrir leik var ljóst að bæði lið væru fallin en Keflvíkingar ljúka leik með góðum sigri.

Mörk Keflavíkur skoruðu þær Kristrún Ýr Holm (21’), Sigurbjörg Diljá Gunnarsdóttir (36’) og Saorla Lorraine Miller (75’ og 82’).


Þróttur - Haukar 3:0

Þróttur vann Hauka og endar í þriðja sæti 2. deildar og rétt missir af sæti í næstefstu deild en Völsungur fylgir Selfossi upp.

Litlu mátti muna en Þróttur og Völsungur mættust í næstsíðustu umferð og Þróttarar leiddu með einu marki þar til á fimmtu mínútu uppbótartíma þegar Völsungur jafnaði, það má því segja að Þróttur hafi verið tíu sekúndum frá því að komast upp.

Guðni Sigþórsson (10’) og Haukur Darri Pálsson (52’) skoruðu sitt markið hvor en þriðja markið skoraði Guðjón Pétur Lýðsson  (65’ sjálfsm.)


Reynir - KFG 1:2

Reynismenn töpuðu fyrir KFG og enda í neðsta sæti 2. deildar. Bergþór Ingi Smárason varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 12. mínútu og KFG bætti öðru marki við skömmu síðar (15’).

Valur Þór Magnússon minnkaði muninn í uppbótartíma (90’+2) en lengra komust Sandgerðingar ekki.


Augnablik - Víðir 1:1

Víðismenn tryggðu sér sæti í 2. deild á næsta ári en litlu mátti muna því Víðir og Árbær enda með jafnmörg stig en Víðismenn með hagstæðari markatölu.

David Toro Jimenez kom Víði yfir snemma leiks (9’) en Augnablik jafnaði leikinn fimm mínútum fyrir leikslok.

Fleiri urðu mörkin ekki og Víðismönnum dugði jafnteflið.

Grindavík - Njarðvík (2:2) | Lengjudeild karla 14. september 2024