Íþróttir

Gamlir liðsfélagar mætast
Stinnu stálin.
Laugardagur 29. mars 2025 kl. 06:35

Gamlir liðsfélagar mætast

Einu sinni voru Björn Vilhelmsson og Guðjón Guðmundsson liðsfélagar í Víði en núna munu þessi stinnu stál mætast á tippvellinum. Þeir voru báðir eitilharðir í horn að taka inni á knattspyrnuvellinum og eflaust munu þeir ekki beita hvorn annan neinum vettlingatökum í tippinu. Þeir voru miklir keppnismenn, áttu stóran þátt í ótrúlegum uppgangi Víðismanna í knattspyrnunni og verður fróðlegt að sjá hvernig barátta þeirra í tippinu mun fara.

Guðjón er eins og andstæðingurinn, gallharður stuðningsmaður Manchester United.

„Ég er fæddur árið 1960 og tengi aðdáun mína á Manchester United, flugslysinu í Munchen ´58. Það atvik snerti mig greinilega og ég hef haldið með þeim frá því að ég var líklega um tíu ára gamall. Ég fylgdi þeim niður 1974 og það verður að segjast eins og er að þau voru mörg mögur árin en samt tókst mér að boða fagnaðarerindið þegar ég var að þjálfa ungviðið í Garði um 1988, að mér skyldi takast að afla United stuðningsmanna á þeim tímapunkti var ákveðið afrek mætti segja.

VF Krossmói
VF Krossmói

Ég byrjaði ungur að æfa fótbolta í Garði og tel mikla breytingu verða þegar við stálum þjálfaranum Eggerti Jóhannessyni frá Reyni Sandgerði árið 1980. Haukur Hafsteins kom svo á eftir honum og gerði sömuleiðis frábæra hluti. Ég byrjaði meistaraflokksferilinn í gömlu þriðju deildinni og eftir tíu ára frábært tímabil, lauk ferlinum sömuleiðis í þriðju deildinni. Við Víðismenn fórum upp í 2. deildina ´82, upp í þá efstu ´84 og héldum okkur í henni í þrjú tímabil. Tókum þrjú ár í annarri deildinni og settum stigamet þegar við fórum upp en sumarið ´91 var bensínið einfaldlega búið. Við féllum um tvær deildir á tveimur árum og ferlinum lauk því hjá mér þar sem hann hófst, í þriðju deildinni.

Ég hef verið duglegur að tippa með félögum mínum, við hittumst öll miðvikudagskvöld og tippum, þetta er eins og okkar saumaklúbbur, við köllum okkur tippklúbbinn Guðrúnu. Ekki spyrja mig út í ástæðu nafngiftarinnar. Við erum með sparnaðarseðill, erum með tíu tvítryggingar og höfum einu sinni náð þrettán réttum, það gaf þrjár milljónir á sínum tíma. Ég held við séum nú ekki í plús en við höfum gaman af þessu og munum halda áfram.

Það verður gaman að mæta gamla liðsfélaganum, ég ætla ekki gefa Bjössa nein grið,“ sagði Guðjón.

Stálin stinn

Björn hlakkar til rimmunnar við sinn gamla liðsfélaga.

„Það var gaman þegar við Gaui mættumst á æfingunum í gamla daga, hvorugur gaf þumlung eftir og ég á von að sama barátta verði á milli okkar núna. Ég er auðvitað himinlifandi með byrjun mína í þessum tippleik, ég er kominn í þriðja sætið en ætla mér auðvitað ofar. Ég ætla mér alla leið,“ sagði varnarjálkurinn Björn.