Leikfélag Glanni
Leikfélag Glanni

Fréttir

Framtíð Grindavíkur óviss
Laugardagur 29. mars 2025 kl. 06:20

Framtíð Grindavíkur óviss

Skýrsla Deloitte kallar eftir afgerandi ákvörðun stjórnvalda

Framtíð Grindavíkur er óljós samkvæmt nýrri skýrslu sem Deloitte vann fyrir forsætisráðuneytið. Skýrslan dregur upp alvarlega mynd af stöðu bæjarins í kjölfar eldsumbrota á Reykjanesskaga og bendir á að stór óvissa ríki um hvort og hvenær hægt verði að byggja upp samfélag í bænum að nýju.

Frá því að eldgos hófust í Sundhnúksgígaröðinni í nóvember 2023 hefur Grindavík orðið fyrir miklum áhrifum. Jarðfræðingar telja að gosskeiðið geti staðið um ókomin ár og jafnvel áratugi. Nýleg jarðkönnun sýnir að stórir hlutar bæjarins eru undirlagðir sprungum, og sérfræðingar telja að umfangsmiklar viðgerðir og frekari hættumat þurfi áður en hægt verður að huga að enduruppbyggingu.

Í skýrslunni kemur fram að vesturbær Grindavíkur sé að mestu laus við sprungur, en mið- og austurhlutar bæjarins séu varasamir. Þrátt fyrir mikla fjárfestingu í varnargörðum sem hafa verndað innviði og atvinnulíf að hluta til, er framtíð bæjarins óljós.

VF Krossmói
VF Krossmói

Atvinnulíf í Grindavík hefur dregist verulega saman. Starfsemi margra fyrirtækja byggir enn á örfáum stærri aðilum, svo sem Bláa Lóninu og stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum bæjarins. Ef þau draga frekar úr starfsemi gæti það haft keðjuverkandi áhrif á annan rekstur í bænum. Í skýrslunni er tekið fram að lítil eftirspurn sé eftir þjónustu í bænum og fátt bendi til þess að atvinnulíf í Grindavík nái fyrri styrk til skemmri tíma.

Ríkið hefur fjárfest mikið í fasteignum í Grindavík í gegnum félagið Þórkötlu, sem hefur keypt um 83% íbúðarhúsnæðis í bænum. Skýrslan bendir þó á að ólíklegt sé að þessi húsnæði seljist á næstu árum, enda sýni íbúakönnun að margir fyrrum íbúar Grindavíkur hafi aðlagast nýjum búsetustöðum og séu ekki tilbúnir til að snúa aftur strax, jafnvel þótt öryggi verði tryggt.

Íbúakönnun sem fylgdi skýrslunni sýnir einnig að margir Grindvíkingar upplifa óvissu um framtíð bæjarins sem streituvaldandi, en atvinnu- og húsnæðismál þeirra virðast annars í föstum skorðum.

Deloitte ályktar að nauðsynlegt sé fyrir stjórnvöld að taka afstöðu til framtíðar Grindavíkur hið fyrsta, þar sem sveitarfélagið sjálft stendur frammi fyrir alvarlegum fjárhagsvanda og rekstraróvissu. Sérstaklega þurfi skýr stefna að liggja fyrir áður en sveitarstjórnarkosningar fara fram árið 2026.