Leikfélag Glanni
Leikfélag Glanni

Fréttir

Fór betur en á horfðist
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 31. mars 2025 kl. 11:33

Fór betur en á horfðist

Flæddi upp á land í Grindavík

Betur fór en á horfðist í Grindavík í morgun en þá sköpuðust þær aðstæður sem óttast hefur verið, þegar stórstraumsflóð var og mjög slæmt veður og þ.a.l. há ölduhæð. Áttin var suðvestlæg en hrein sunnanátt er erfiðari við að eiga.

Sigurður Kristmundsson, hafnarstjóri Grindavíkurhafnar, sagði að það hefði spilast nákvæmlega úr stöðunni eins og hann hefði átt von á.

„Við virkjuðum viðbragð eitt, sem er að loka umferð fyrir neðan Kvikuna. Við hefðum getað gengið betur frá körum sem voru á bryggjuni og þau fóru á smá hreyfingu, annars fór þetta nákvæmlega eins og við áttum von á. Viðbragð tvö er að setja sjóvarnarpulsurnar svokölluðu á flot, en til þess kom ekki. Það var stórstraumsflóð í morgun og ölduhæðin fór yfir tíu metra. Áttin var suðvestlæg, sem getur verið erfið en hrein sunnanátt er sú versta fyrir okkur. Þetta hefur gengið vel myndi ég segja til þessa og við höfum lært mikið af þessu. Við erum vel undirbúnir fyrir að flæði upp á land í Grindavík, hingað til hefur ekkert tjón verið og verður vonandi þannig áfram. Ég kíkti út á golfvöll, sjórinn náði ekki þar yfir svo þetta lítur bara vel út myndi ég segja,“ sagði Sigurður.

VF Krossmói
VF Krossmói

Magnús Gunnarsson er kenndur við Sæból í Grindavík, hann þekkir svæðið við Vík þar sem rollu- og hestatúnið er, eins og handabakið á sér.

„Ég var meðvitaður um hvað gæti skeð og svaf því kannski ekki alveg rólegur. Ég vaknaði um fjögur í nótt og kíkti á veðurvefinn, þar er hægt að sjá ölduhæðina og var hún rúmir tíu metrar sem er ansi há. Ég var því smeykur um hvað gæti gerst og því var mikill léttir í morgun að sjá að það flæddi ekki meira yfir túnin í Vík en raun bar vitni. Ég er búinn að vera smeykur um hvað gæti gerst en sýnist á öllu að allar áhyggjur þar af lútandi séu óþarfar. Ég er því enn bjartsýnni á framtíð Grindavíkur og vona innilega að ríkisstjórnin svari kalli bæjarstjórnar Grindavíkur, við viljum hefja uppbyggingu ekki síðar en í gær. Það er enginn að tala um að laga allt strax, höldum bara áfram viðgerðum hægt og örugglega og byggjum bæinn upp. Ég er sannfærður um að ef breyttur tónn fer að berast frá yfirvöldum, að þá muni Grindvíkingar snúa til baka, það byrjar á því að prófa að gista í bænum, máta sig við aðstæður, svo getur fólk tekið sína ákvörðun. Eins og ég segi, ég ætla vera bjartsýnn á framtíð Grindavíkur,“ sagði Magnús að lokum.

Sigurður Kristmundsson.

Magnús Gunnarsson.