Svona verkefni kemur bara einu sinni á lífsleiðinni
Garðar Örn Arnarson er einn afkastamesti kvikmyndagerðarmaður landsins og brautryðjandi þegar kemur að gerð íþróttaefnis á Íslandi en hann frumsýndi á dögunum heimildarþætti um Grindavík sem sýndir eru á Stöð 2.
Garðar Örn var gestur þáttarins Góðar sögur og sagði frá verkefninu sem hefur heltekið líf hans undanfarin ár. Stemmningin á frumsýningu var rafmögnuð en þar fékk hann viðbrögðin beint í æð.
„Maður fann alveg spennuna enda um 600 manns í salnum og þar af 400 Grindvíkingar, en manni leið vel því þeim leið svo vel með þetta. Þau voru þakklát og ánægð hvernig við náðum að sýna hvernig þetta var allt saman.“
Örlögin höguðu því þannig að Garðar Örn skráði sig í kvikmyndaskóla þegar hann var við það að stimpla sig út úr námi. Þrennum Edduverðlaunum síðar er hann enn að og má segja að hann sé guðfaðir körfuboltakvölds og hefur hann gert heimildamyndir um Jón Arnór Stefánsson og Örlyg Sturluson, svo nokkrar séu nefndar.
Upptökur á þáttum um Grindavík hófust viku fyrir 10. nóvember eða viku eftir rýmingu og upphaflega stóð til að fylgja eftir körfuboltaliði Grindvíkinga.
„Við förum af stað og ætluðum að fylgja atburðunum eftir en það er svo ekki fyrr en í janúar sem við sjáum að þetta er stærra en við gerðum okkur grein fyrir og stærra en íþróttir. Þá fórum við að hugsa hvernig við gætum náð þessum mannlega þætti.
Við fengum í upphafi mikið af myndböndum frá Grindvíkingum þar sem við fáum að upplifa skjálftana í gegnum þá og þannig ertu meira inni í atburðunum. Svo vorum við svo heppnir með menn eins og Ólaf Ólafsson fyrirliða og Ingiberg Jónasson formann körfunnar því þeir eru svo náttúrulegir fyrir framan myndavélina. Þegar þeir þurftu að fara í Grindavík að sinna erindum fengum við að fljóta með með myndavélina.
Það má segja að þetta hafi verið mikil óvissuferð. Svo var Grindavík allt í einu komið í úrslit og möguleiki á því að þeir myndu vinna titil. Stærsta eldgosið kemur svo í miðjum oddaleik og það hafði meiri áhrif á leikmenn liðisins en menn gerðu sér grein fyrir. Þetta var miklu meira en bara körfubolti. Þarna voru um þúsund Grindvíkingar í Valsheimilinu og allir að lesa sömu fréttina, að hraunflæði væri í átt að Grindavík.
Það má segja að þetta hafi verið skrifað fyrir okkur. Ef ég myndi reyna að selja þetta sem bíómynd í Hollywood yrði mér hent út, þetta er svo mikil lygasaga.“
Garðar Örn hyggst kynna þættina erlendis og hafa þeir verið sendir á fjölda kvikmyndahátíða og svo er bara að bíða og sjá til.
„Maður veit ekki hvað gerist og kannski hefur enginn áhuga en við ætlum að prófa þetta. Það verða samt engin vonbrigði og ég verð áfram Íslendingur og Keflvíkingur en svona verkefni koma bara einu sinni á lífsleiðinni og þá er bara að keyra á þetta.“