Keflavík kom sér inn í úrslitakeppnina!
Lokaumferð Bónusdeildar karla fór fram í kvöld og ljóst hvaða lið komast í úrslitakeppnina og hvaða lið mætast í fyrstu umferðinni. Keflvíkingar voru í verstri stöðu Suðurnesjaliðanna, þurftu að vinna Þór í Þorlákshöfn og treysta á önnur úrslit. Keflvíkingar stóðu sína plikt og fengu aðstoð granna sinna af Suðurnesjunum, Grindvíkinga, sem unnu KR. Njarðvík vann Stjörnuna á útivelli en þó aðeins með sjö stigum og náðu því ekki að komast upp fyrir Stjörnuna og enda í þriðja sæti, mæta liði Álftnesinga í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.. Grindavík fór upp í fimmta sætið og mæta Íslandsmeisturum Vals í fyrstu umferð. Keflvíkingar fara í Skagafjörðinn og mæta Tindastóli.
Blaðamaður mætti í Smárann og sá leik Grindvíkinga á móti KR. Grindvíkingar eins og nánast öll lið deildarinnar, höfðu að miklu að keppa, þeir gátu farið upp um sæti, í 5. sætið, en með tapi dottið niður í 7. sæti. Það var þó ekki að sjá á Grindvíkingum til að byrja með að mikið lægi við, þeir voru að elta fram í fjórða leikhluta, höfðu verið undir allan tímann en þó aldrei þannig að mörgum stigum munaði. Grindavík komst loksins yfir þegar stutt var liðið á lokaleikhlutann. KR svaraði, komst yfir en stór þristur frá Kane og tvö vítaskot frá Pargo gáfu Grindavík smá andrými. KR gekk illa að skora og þegar Kane kom Grindavík í sex stiga forskot, 84-78, var Jakobi Sigurðarsyni, þjálfara KR, nóg boðið og hann tók leikhlé. KR skoraði strax og fékk auk þess víti sem þeir nýttu, unnu svo boltann þegar tæpar tvær mínútur lifðu leiks en náðu ekki að koma skoti á körfuna. Grindavík missti enn og aftur boltann og þriggja stiga skot KR rétt geigaði. Skot Pargo var varið þegar ein sekúnda var eftir af skotklukkunni og átján eftir á klukkunni. Grindavík tókst ekki að skora og Kane braut á Nimrod, sem fór á línuna og setti bæði víti niður. 84-83 og 9,5 sekúndur eftir og Grindavík tók leikhlé. Daniel Mortensen fór á línuna og setti bæði vítin niður, átta sekúndur eftir og KR tók leikhlé, æsispennandi leikur í gangi! Nimrod reyndi langan þrist en hann geigaði og Grindavík náði frákastinu. Grindavíkursigur staðreynd, 86-83.
Jeremy Pargo, Deandre Kane og Daniel Mortensen atkvæðamestir hjá Grindavík, Pargo með 25 stig og 6 stoðsendingar, Kane með 19 stig, 6 fráköst. Mortensen skilaði hæstu framlagi, 32 punktar (18 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar. Grindvíkingar komu sér upp fyrir Álftanes og enda í fimmta sæti og mæta Valsmönnum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Njarðvík átti veika von með að færast upp í annað sætið en þá þurftu þeir líka að vinna Stjörnuna á útivelli með tíu stigum hið minnsta. Njarðvík gerði heiðarlega atlögu að því en þurfti að lokum að sætta sig við sjö stiga sigur, 103-110. Leikmenn skiptu stigunum nokkuð bróðurlega á milli sín, stigahæstur var Dwayne Lautier-Ogunleye með 27 stig, Khalill Shabazz var með 22 stig og Mario Matasovic var með 21 stig. Flottur sigur Njarðvíkinga og þeir mæta Álftnesingum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Keflvíkingar voru í verstri stöðu Suðurnesjaliðanna, þurftu bæði að vinna Þór Þorlákshöfn á útivelli, og að treysta á granna sína frá Suðurnesjunum, Grindavík, eða Hauka sem mættu ÍR. Leikur þeirra gegn Þorlákshafnarbúum var jafn til að byrja með, jafnt í hálfleik en Keflavík átti frábæran þriðja leikhluta, unnu hann 36-29 og virtust vera með öruggan sigur í uppsiglingu, voru 14 stigum þegar lítið var eftir en Þórsarar neituðu að gefast upp, minnkuðu muninn en Keflavík kláraði leikinn á vítalínunni og tryggðu sig inn í úrslitakeppnina, náðu því með aðstoð granna sinna af Suðurnesjunum og þar með sitja KR-ingar eftir með sárt ennið. Ty-Shon Alexander var sjóðandi heitur í kvöld, setti 38 stig og hitti úr 8/12 þriggja stiga skotum sínum! Igor Maric kom sterkur af bekknum og setti 19 stig og fyrirliðinn Halldór Garðar Hermannsson var flottur, setti 17 stig. Hitti Keflvíkinga fyrir utan þriggja stiga línuna var til mikillar fyrirmyndar, 52% (23/44). Nokkuð ljóst að Keflvíkingar eru öllum hættulegir ef þeir hitta svona.
Vorboðinn ljúfi framundan, sjálf úrslitakeppnin!