Fréttir

Djúpa laugin aldrei heitari
Reyk lagði yfir nálæga byggð frá brunanum í kvöld. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 28. mars 2025 kl. 20:27

Djúpa laugin aldrei heitari

Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja slökkti í kvöld eld sem logaði í gömlu Sundhöll Keflavíkur. Þegar slökkviliðið kom á vettvang logaði eldur í rusli í dýpri enda sundlaugarinnar. Talsverðan reyk lagði frá brunavettvangi og yfir nálæga byggð.

Gamla Sundhöllin hefur átt betri daga en gamla laugin hefur aldrei verið heitari en einmitt í kvöld. Sundhöllin sjálf er hins vegar illa farin eftir tíð innbrot og skemmdarverk.

VF Krossmói
VF Krossmói

Það verður hlutskipti byggingarinnar að verða rifin og mun húsið víkja fyrir nýrri byggð sem mun rísa á svæðinu á næstu árum.

Lögreglan á Suðurnesjum var eins og slökkviliðið með fjölmennt lið á staðnum og fer með rannsókn málsins þar sem íkveikja verður örugglega fyrsta boxið sem verður hakað í við skýrslugerðina.

Slökkviliðið var fljótt að ráða niðurlögum eldsins og þurfti ekki að reykræsta eftir að eldurinn hafði verið slökktur.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á vettvangi útkallsins í kvöld. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Það rauk hressilega út um glugga á byggingunni frá eldinum sem logaði í djúpu lauginni.
Ástandið á húsinu er orðið mjög dapurlegt eins og sjá má.
Slökkvibíll Brunavarna Suðurnesja á vettvangi í kvöld.
Flottur hópur frá slökkviliði Brunavarna Suðurnesja. Sum þeirra stunduðu sundkennslu í Sundhöll Keflavíkur þegar laugin var í fullu fjöri.