Djúpa laugin aldrei heitari
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja slökkti í kvöld eld sem logaði í gömlu Sundhöll Keflavíkur. Þegar slökkviliðið kom á vettvang logaði eldur í rusli í dýpri enda sundlaugarinnar. Talsverðan reyk lagði frá brunavettvangi og yfir nálæga byggð.
Gamla Sundhöllin hefur átt betri daga en gamla laugin hefur aldrei verið heitari en einmitt í kvöld. Sundhöllin sjálf er hins vegar illa farin eftir tíð innbrot og skemmdarverk.
Það verður hlutskipti byggingarinnar að verða rifin og mun húsið víkja fyrir nýrri byggð sem mun rísa á svæðinu á næstu árum.
Lögreglan á Suðurnesjum var eins og slökkviliðið með fjölmennt lið á staðnum og fer með rannsókn málsins þar sem íkveikja verður örugglega fyrsta boxið sem verður hakað í við skýrslugerðina.
Slökkviliðið var fljótt að ráða niðurlögum eldsins og þurfti ekki að reykræsta eftir að eldurinn hafði verið slökktur.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á vettvangi útkallsins í kvöld. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson



