Leikfélag Glanni
Leikfélag Glanni

Fréttir

Þarf ekki að gera svo mikið til að gera bæinn starfhæfan
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 29. mars 2025 kl. 06:15

Þarf ekki að gera svo mikið til að gera bæinn starfhæfan

- segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu.

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, hefur frá 2021 komið að mörgum verkefnum í tengslum við eldsumbrotin við Grindavík og Svartsengi, mest í tengslum við varnargarðana og vegagerð, en einnig við lagfæringar á bænum. Hann var meðal þátttakenda á fundi Vegagerðarinnar sem var með yfirskriftina: Vegagerð í skugga eldsumbrota, þar sem kynnt var það sem gert hefur verið í vegagerð í og við Grindavík síðan eldsumbrotin hófust á Reykjanesskaganum. Á fundinum lýsti Jón Haukur því hvernig nýr vegur er lagður yfir nýrunnið hraun.

„Vegagerðin heldur svona fundi nokkuð reglulega, þar sem farið er yfir hvað hefur verið gert og eins hvað sé framundan. Það er gott að koma öllum saman í einu og fara yfir málin, upplýsa og fræða í leiðinni,“ segir Jón Haukur í samtali við Víkurfréttir.

Mátti búast við að vá væri í aðsigi

Jón Haukur er hjá Eflu, sem ásamt Verkís eru hluti af hópi sem settur var saman skömmu áður en fyrsta eldgosið í Fagradalsfjalli kom árið 2021 til að huga að vörnum mikilvægra innviða. „Fyrsta verkefnið var að fara í mikla greiningarvinnu, hvað var mikið af veitum, vegum, mikilvægum rekstrareiningum eins og orkuverið í Svartsengi o.s.frv. Tveimur árum fyrr hófst mikil skjálftahrina í kringum Þorbjörn og út frá sögunni og jarðfræðinni mátti búast við að vá væri í aðsigi,“ segir Jón Haukur.

VF Krossmói
VF Krossmói
Jarðsaga hjálpað okkur að spá fyrir um komandi atburði

„Fyrir u.þ.b. 35-40 árum var teiknuð upp nokkuð afgerandi mynd af þekktum gosreinum á Reykjanesskaganum og árið 1978 var gefin út stór skýrsla um jarðfræði Reykjanesskagans og þar með um öll hraunlög á svæðinu. Þannig var hægt að tímasetja gostímabilin á undan og þá kom í ljós svipaður tími á milli eldgosa tímabila, út frá því voru yfirgnæfandi líkur á hvað væri í vændum og fyrir það þyrftum við að undirbúa okkur.

Á síðasta gostímabili, frá 1210 til u.þ.b. 1240, kom hraun upp í Eldvarpakerfinu. Þar á undan, fyrir um 2000 árum, var Sundahnjúkakerfið virkt. Eldvörp og Sundhnjúkar eru samkvæmt venjubundinni túlkun, sama kerfið enda má sjá það á landrisinu, Sundhnjúkar eru í öðrum jaðrinum við það, Eldvörpin hinum megin. Þessi jarðsaga hefur hjálpað okkur mjög mikið við að spá fyrir um komandi atburði, það er í raun nánast það það sama að gerast í dag og fyrir u.þ.b. 2000 árum á Sundhnjúkareininni. Í dag getum við líka stuðst við upplýsingar um landris, jarðskjálfta og aðrar jarðeðlisfræðilegar mælingar í rauntíma sem eru gríðarlega góðar upplýsingar sem vöktun Veðurstofunnar byggir á,“ segir Jón Haukur jafnframt.

Urðum að hugsa varnargarðana sem leiðigarða

Vinna við hönnun varnargarða hófst strax árið 2021. Hugmyndafræðin fæddist þá en eðlilega gat sjálf vinnan ekki hafist strax því ekki var vitað nákvæmlega hvar eldgos kæmi upp eða vitað hversu langan tíma tæki að byggja varnargarðana.

„Við fengum góða æfingu í eldgosunum í Fagradalsfjalli. Við lærðum mikið af þeim en þar rísa fyrstu varnargarðarnir. Við sáum að við urðum að hugsa þá sem leiðigarða, að leiða hraunið ákveðna leið þar sem væri rými í landinu. Augljóslega gengur ekki að að reisa vegg til að stöðva hraun. Þarna þurftum við einfaldlega að prófa okkur áfram, til dæmis hvernig best væri að hafa garðana í laginu. Það þurfti líka að sjá hvernig væri að vinna í námunda við nýtt hraun og raunar fór það svo að það þurfti að fara með vélar út á nýja hraunið að hluta til. Sú reynsla nýttist gríðarlega vel þegar hraunið rann yfir Grindavíkurveg og það þurfti að leggja nýjan veg yfir hraunið. Stysti tíminn frá því að nýr vegur var kominn yfir nýrunnið hraunið var u.þ.b. vika. Eftir þessu hefur verið tekið úti í heimi og að sjálfsögðu hafa varnargarðarnir vakið mikla athygli,“ segir Jón Haukur.

Fyrirséð í hvað stefndi og allt fór á fullt

Vinna við varnargarðana hófst strax 10. nóvember 2023 þegar rýma þurfti Grindavík.

„Þá var fyrirséð í hvað stefndi og allt fór á fullt við að reisa garðana við Svartsengi og Bláa lónið. Blessunarlega kom fyrsta gosið upp nokkuð fjarri en síðan þá hafa þessir varnargarðar heldur betur sannað gildi sitt. Það er nokkuð ljóst að Svartsengi, Bláa lónið og Grindavík, væru komin undir hraun ef þessir garðar hefðu ekki risið. Við sem komum að þessu höfum tekið þátt í mörgum stórum verkefnum í gegnum tíðina, t.d. Kárahnjúkavirkjun og Vaðlaheiðargöngum. Það er ekki hægt að gera upp á milli barnanna sinna en þetta varnargarðarverkefni, og önnur verkefni í Grindavík, verða líklega alltaf ofarlega í huga allra þeirra sem þarna hafa starfað. Það er búið að vera einstakt að vera hluti af þessu liði og allt frá fyrstu mínútu var samheldnin ofboðslega mikil, allir voru hluti af liði, sama hvort voru verkfræðingar frá mismunandi verkfræðistofum, verktakar frá ólíkum fyrirtækjum eða hvað, þetta var ein öflug liðsheild. Við erum stolt af þessu verkefni en því er ekki lokið þó svo að ekki sé unnið í dag í varnargörðum, nú bíðum við eftir næsta atburði og tökum svo stöðuna,“ segir Jón Haukur.

Grindavík og framtíðin

Jón Haukur hefur komið að mörgum framkvæmdum í Grindavík síðan 10. nóvember 2023 og telur að hægt sé að taka fyrstu skrefin í átt að endurheimt og uppbyggingu samhliða því að yfirstandandi atburðir séu á lokametrunum.

„Við hjá Eflu höfum komið að mörgum óvenjulegum framkvæmdum í gegnum tíðina og þ.a.l. hefur skapast mikil reynsla, þess vegna er kannski leitað til okkar en margar aðrar verkfræðistofur hafa komið að málum líka. Jarðkönnunarverkefnið er t.d. rekið af Verkís og Ísor hefur líka verið stór aðili í því verkefni. Hvað varðar framtíð Grindavíkur og Deloitte-skýrsluna þá teiknar hún kannski ekki alveg upp sanngjarna mynd af stöðunni. Sumar forsendur eru skrítnar, aðalatriðið er að það er ekki gerður neinn greinarmunur varðandi enduruppbyggingu, þ.e.a.s. tímalínan. Það er nánast sagt berum orðum að það taki því ekki að hefja neina uppbyggingu fyrr en eftir langan tíma, þegar öllum jarðhræringum er að fullu lokið, en það þarf ekki að gera svo mikið til að gera bæinn starfhæfan. Það er mikill munur á að setja strax í gang aðgerðaráætlun sem miðar af því að gera bæinn starfhæfan, á móti því að fara í fullnaðar endurbætur. Þetta mun taka langan tíma og því fyrr sem vinnan hefst, því betra. Þeir Grindvíkingar sem búa og starfa í bænum upplifa sig nokkuð örugga, varnargarðarnir breyta miklu varðandi það. Hitaveitulagnir frá Svartsengi, hvort sem er út á Reykjanes eða til Grindavíkur, hafa haldið en báðar liggja þær inni í samloku af hrauni, þær liggja ofan á einu hrauni, og undir öðru. Þetta hefur haldið og engin ástæða til að ætla annað en svo verði áfram um einhver ár, þótt vissulega sé meira álag á meðan atburður er í gangi. Á einhverjum tímapunkti þarf að hefja uppbyggingu, ekki síst til að skapa tiltrú íbúa og atvinnurekenda. Einhvers staðar þarf að byrja. Það hafa engar sprungumyndanir átt sér stað í Grindavík síðan í janúar í fyrra, allt bendir til þess að það versta sé afstaðið og þ.a.l. sé hægt að hefja uppbyggingu en það taka aðrir ákvörðun um það,“ sagði Jón Haukur að lokum.