Grindavík kom sér í úrslitakeppni Bónusdeildar kvenna
Keflavík vann og kom sér í þriðja sætið Njarðvík tapaði en það skipti ekki máli þar sem þær voru fastar í öðru sæti
Lokaumferðin í deildarkeppni Bónusdeildar kvenna fór fram í kvöld. Að henni lokinni er ljóst að það verða þrjú Suðurnesjalið í úrslitakeppninni því Grindavík tókst að vinna Hamar/Þór Þ og tryggja sér þar með þriðja sæti B-deildar, sem jafngildir að enda í áttunda sæti í deildinni.
Grindavík - Hamar 91-90
Leikur Grindavíkur og Hamars/Þórs Þ var æsispennandi, hann endaði 91-90 eftir að Grindavík hafði verið undir í hálfleik, 52-60. Grindavík átti frábæran fjórða leikhluta, unnu hann 20-12. Sofie Tryggedsson fór á vítalínuna þegar sjö sekúndur lifðu leiks og setti bæði vítin niður og Hamar/Þór Þ tókst ekki að skora.
Fyrirliðinn Hulda Björk Ólafsdóttir var stigahæst með 26 stig. Hún hitti mjög vel, setti 6/12 tveggja stiga skot og 4/7 þriggja skot sín niður. Daisha Bradford var með 25 stig og Mariana Duran var með 15 stig. Sú síðastnefnda skilaði hæstu framlagi, 26.
Frábær sigur Grindavíkurkvenna og þær þar með komnar í úrslitakeppnina og mæta þar toppliði Hauka.
Þór Akureyri - Keflavík 88-90
Það var líka frábær fjórði leikhluti sem bjargaði Keflavík en þær unnu Þór á Akureyri, 88-90, eftir að hafa verið undir í hálfleik, 44-39. Keflavík vann fjórða leikhluta 20-31 og komst með sigrinum, upp fyrir Þór í þriðja sætið og mætir liði Tindastóls í fyrstu umferð úrslitakeppninar.
Keflavík lék án Jasmine Dickey sem hefur verið atkvæðamest hjá þeim í vetur og þ.a.l. þurftu aðrir leikmenn að stíga upp og gerðu heldur betur, engin þó betur en Sara Rún Hinriksdóttir, hún skoraði 28 stig og tók 9 fráköst. Þetta skilaði sér í 35 framlagspunktum, frábær leikur hjá Söru. Anna Lára Vignisdóttir skoraði 15 stig og tók 6 fráköst, og Agnes María Svansdóttir kom sterk af bekknum og skoraði 14 stig.
Haukar - Njarðvík 94-68
Njarðvík hafði ekki að neinu að keppa í þessum leik og voru hugsanlega ekki alveg búnar að snerta jörðina eftir bikarmeistaratitilinn á laugardaginn. Fyrsti leikhluti var jafn en leiðir skyldu í öðrum, Haukar unnu hann 26-15 og Njarðvík ógnaði aldrei eftir það. Brittany Dinkins var stigahæst, endaði með 15 stig, Paulina Hersler var með 13 og Eygló Kristín Óskarsdóttir var með 10 stig.
Það getur oft verið erfitt að gíra sig upp í leik sem skiptir ekki máli, sérstaklega eftir glæstan bikarsigur eins og á laugardaginn og þ.a.l. verða Njarðvíkurkonur eflaust fljótar að gleyma þessum leik. Þær mæta Stjörnunni í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.