Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Allt í lífinu hefur breyst á síðustu sex vikum“
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 10. maí 2020 kl. 14:13

„Allt í lífinu hefur breyst á síðustu sex vikum“

– Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths veiktist alvarlega af COVID-19 í London.

Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths býr í Sydenham, Suð-austur London, með manninum sínum, Paul Griffiths, og börnunum þeirra tveimur, Sædísi Rheu, tólf ára, og Rhys Ragnari, sextán ára. Sigrún flutti til London 1997 til þess að stunda tónlistarnám við Guildhall School of Music and Drama. Hún endaði svo á því að giftast kennaranum sínum og taka við rekstri kúrsins sem hún lærði við.

Hér er viðtalið í nýjustu Víkurfréttum! - smellið hér til að sjá viðtalið í blaðinu.

Sigrún og Paul veiktust bæði alvarlega af COVID-19 fyrir um sex vikum síðan. Sigrún var flutt með sjúkrabíl undir læknishendur eftir að hún hætti að anda en hresstist fljótt aftur. Hún var þó ekki lögð inn á sjúkrahús. Daginn eftir var hún aftur flutt með sjúkrabíl og þá var hún komin með vatn í lungu vegna sjúkdómsins. Hún segir að ástandið hafi verið tæpt.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En aðeins um lífið í London. „Ég stýrði meistaranámi við Guildhall í tólf ár en í dag rek ég mitt eigið fyrirtæki og stýri ýmsum sjálfstæðum verkefnum sem stjórnandi og kenni við Guildhall innan tónlistardeildarinnar,“ segir Sigrún í samtali við Víkurfréttir.

Hún hefur sérmenntun og yfir tuttugu ára reynslu í því að stýra skapandi tónlistarverkefnum við hinar ýmsu samfélagslegu aðstæður. „Markmiðið með verkefnunum er að veita fólki tækifæri til þess að semja saman nýja tónlist og öðlast með því lífsfyllingu, aukið sjálfstraust, tengingu við náungann og nærsamfélagið, auk þess að eiga jákvæðar, fallegar og skemmtilegar samverustundir. Því ef okkur líður vel, höfum rödd og á okkur er hlustað, eru mun meiri líkur á því að við finnum tilgang í lífinu, orku til þess að takast á við erfiðleika og tökum jákvæðari ákvarðanir,“ segir hún.

Vinnur með heimilislausu fólki

Sigrún kennir sitt fag við Guildhall en jafnframt vinnur hún sjálfstætt fyrir listastofnanir á alþjóðlega vísu, auk þess sem hún er fengin sem gestakennari við tónlistarháskóla um allan heim, þar á meðal Listaháskóla Íslands.

„Í júní 2019 setti ég á stofn nýtt fyrirtæki, svokallað Community Interest Company (sem er óhagnaðardrifið), þar sem ég vinn með heimilislausu fólki og fólki sem er að byggja sig upp eftir ýmiss konar áföll og erfiðleika í lífinu. Fyrirtækið mitt heitir Metamor-Phonics og gengur út á að stofna hljómsveitir sem semja og flytja sína eigin, frumsömdu tónlist. Núna, tíu mánuðum síðar, stýri ég tveimur hljómsveitum í London, einni í Leicester, einni í Los Angeles og þremur á Íslandi í samstarfi við Starfsendurhæfingastöðvar á suðvesturhorninu“. 

Í Reykjanesbæ stýrir Sigrún hljómsveit sem ber nafnið 360°. Hún er rekin í samstarfi við Samvinnu á Suðurnesjum og var fyrsta hljómsveitin sem hún stofnaði hér á landi og nú hafa starfsendurhæfingastöðvar í Hafnafirði og á Akranesi fylgt í kjölfarið. 

Súperspennandi verkefni sem á erindi til heimsbyggðarinnar

„Hugmyndin er að þessar hljómsveitir bjóði þremur til fjórum einstaklingum frá hverri sveit að taka þátt í nýrri „súperhljómsveit“ sem sett verður á stofn í nóvember 2020. Sú hljómsveit verður starfrækt í samstarfi við Listaháskóla Íslands, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Tónlistarborgina Reykjavík. Við erum með tónleikadag bókaðan í Norðurljósum í Hörpu í maí 2021, svo nú er eins gott að COVID-19 fari að haga sér vel svo við getum haldið fyrri plönum,“ segir Sigrún og bætir við: „Nú í miðju útgöngubanni hér í Bretlandi gerðist nokkuð mjög spennandi en hljómsveitin sem ég stýri með Guildhall-nemendum og fólki sem hefur verið heimilislaust í London, The Messengers, gaf út sína fyrstu plötu. Þetta er ótrúlegt afrek út frá mörgum sjónarhornum en öll tónlistin á plötunni er samin af hljómsveitinni í heild. Það eitt og sér er áhugavert en þegar litið er til þess að helmingur hljómsveitarinnar hefur á einhverjum tímapunkti búið á götunni, þá er þetta stórmerkilegt. Svo þegar við skoðum að tónlistin er hrikalega flott, lögin falleg og vel flutt, þá erum við bara komin með súperspennandi verkefni sem á erindi til heimsbyggðarinnar.“

Platan heitir Bear Witness og er hægt að kaupa hana rafræna á Bandcamp, Spotify og iTunes og svo er líka hægt að kaupa smáskífu á Qrates.

Búið nánast öll fullorðinsárin í London

Sigrún hefur búið í London nánast öll sín fullorðinsár. Við spurðum hana hvort hún sakni einhvers frá Íslandi. „Ég var rétt rúmlega tvítug þegar ég flutti út og var orðin gift kona og stjúpmóðir þriggja yndislegra dætra tveimur árum síðar. Því má segja að ég hafi byggt mitt líf í Englandi en þrátt fyrir að hafa búið erlendis í rúm 22 ár hef ég alltaf haldið tengingunni til Íslands og er hálfpartinn búin að búa mér til umhverfi þar sem ég er virk á báðum stöðum. Þegar ég hlusta á útvarpið er það nánast alltaf íslenskar stöðvar. Ég hlusta á morgunútvarp Rásar 2 á hverjum einasta virkum morgni og það er í bakgrunninum þegar fjölskyldan borðar morgunmat. Ég fylgist með fréttum á báðum stöðum og rífst yfir pólítíkinni alveg jafnt á Íslandi sem og Englandi.“

Sigrún segist vera mjög náin fjölskyldunni sinni. „Við erum virkilega góðir vinir og höldum miklu sambandi, sem er afskaplega auðvelt að gera með nútímatækni. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að þegar ég flutti til London átti ég samskipti við mömmu og pabba með gamaldags bréfaskrifum og nú „hittumst“ við mamma í kaffi á hverjum degi og horfum framan í hvora aðra „í beinni“. Ég hef líka alltaf haldið „professional“ sambandi við landið. Ég byrjaði að kenna við Listaháskólann 2002 og held námskeið fyrir tónlistarkennara og stjórnendur á hverju sumri. Svo er ég líka fengin í alls kyns önnur verkefni á landinu þegar ég kem því við. Til dæmis stjórnaði ég 600 manna barnakór í Hörpu 2018. Þetta var á samnorrænu kóramóti, Norbusang, þar sem ég hafði samið nýtt tónverk af þessu tilefni en skilið eftir eyður svo þátttakendur gætu hjálpað mér að klára að semja verkið. Það var mjög krefjandi en skemmtilegt.

Ég kem með börnin mín á hverju sumri og svo erum við öll á Íslandi önnur hver jól. Að auki kem ég reglulega í vinnuferðir. Nú er bara að vona að það geti haldið áfram eftir Covid.“

Íbúðarhús frá Viktoríutímabilinu

– Hefurðu alltaf búið á sömu slóðum í London?

„Fyrir utan fyrsta árið mitt í London, hef ég búið nánast á sama punktinum, rétt í nágrenni við Crystal Palace síðan ég flutti hingað. Fyrst í íbúð sem ég leigði með vinum mínum á námsárunum og svo í tveimur leiguíbúðum með Paul. Við keyptum svo íbúð í hefðbundnu íbúðarhúsi frá Viktoríutímabilinu í Sydenham 2003. Okkur bauðst svo að kaupa efri hæðina nokkrum árum síðar. Við leigðum efri íbúðina í nokkur ár en þegar börnin tvö voru farin að stækka, og okkur fór að vanta meira pláss, létum við færa húsið aftur í sitt upprunalega horf og breyta íbúðunum tveimur í eitt hús. 

Þetta er afskaplega notalegt hverfi þar sem við erum umkringd yndislegum nágrönnum og fallegum almenningsgörðum í allar áttir. Hverfið er einstaklega grænt og auk almenningsgarðanna erum við með villtan skóg í fimmtán mínútna göngufjarlægð. Ótrúlegt en satt þá erum við samt í London og bara í fimmtán mínútna lestarfjarlægð frá miðborginni. 

Börnin mín ganga í sinn hvorn skólann. Sonur minn í strákaskóla og dóttir mín í stelpuskóla. Ég hefði frekar kosið að þau færu í blandaða skóla en okkur leist ekki nógu vel á þá sem voru í boði hér nálægt. Skólarnir þeirra eru nógu nálægt til þess að þau geti gengið í skólana.“

Ekkert sem heitir hefðbundinn dagur

– Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?

„Það er nú eiginlega ekkert sem heitir hefðbundinn dagur í lífi mínu. Starfi mínu samkvæmt er engin regla á neinu. Það fer allt eftir því hver verkefnin eru, hvort ég þurfi að ferðast eitthvað, hvort ég sé að vinna í Guildhall eða hvort ég sé að vinna heima. Það er allt breytilegt. Mér þykir þessi breytileiki mjög skemmtilegur. Mér finnst mjög gaman að vinna með nýju fólki en mér finnst líka mjög notalegt að vinna heima.

Umhverfið sem ég vinn í getur verið af öllum toga. Inni í skólum, sérskólum, geðdeildum, skýlum fyrir heimilislaust fólk, með ungu afbrotafólki, í fangelsum, risastórum tónleikasölum og þar fram eftir götunum. Oft er ég í stórkostlega ólíku umhverfi á einum og sama deginum. Sem dæmi get ég nefnt dag fyrir nokkrum vikum þar sem ég byrjaði daginn á fundi í skýli fyrir mjög viðkvæmt heimilislaust fólk, kenndi svo í Guildhall-tónlistarháskólanum um hádegið og endaði daginn í fátækrahverfi í nágrenni Northampton þar sem ég var að semja lög með börnum og unglingum.“

Alvarlega veik með COVID-19

– Líturðu björtum augum til sumarsins?

„Þetta er dálítið snúin spurning. Allt í mínu lífi hefur breyst á síðustu sex vikum. Ég átti að stjórna tónleikum á djassfestivali í London í apríl, átti að vera að vinna á Íslandi í maí, átti að tala á ráðstefnu í Búdapest í júní og vinna með heimililausa samfélaginu í Los Angeles í október en öllu hefur verið aflýst. Börnin mín munu að öllum líkindum ekki ganga í skóla aftur fyrr en í september og maðurinn minn, sem venjulega væri 1/3 hluta hvers árs á vinnutengdum ferðalögum um allan heim, er allt í einu heima alla daga og verður það þangað til annað kemur í ljós.

Að auki urðum við Paul fyrir þeirri hrikalegu lífsreynslu að verða alvarlega veik með COVID-19. Þó við höfum ekki verið lögð inn á sjúkrahús þá stóð ég mjög tæpt þar sem ég hætti að anda og féll saman. Sem betur fer var Paul hér hjá mér svo hann náði að aðstoða mig og þegar sjúkrabíllinn kom voru lífsmörk mín orðin eðlileg á ný. Daginn eftir var okkur ráðlagt að hringja á annan sjúkrabíl þar sem ég fann fyrir svo miklum verkjum í brjóstholi og efra baki. Á bráðamóttökunni var ég mynduð og þá kom í ljós vatn á lungum. Ég fékk fúkkalyf og við það hófst mitt bataferli en þá varð Paul mjög veikur. Nú eru liðnar sex vikur frá því að við urðum veik. Ég er nánast alveg orðin eins og ég á að mér að vera, þó ég finni af og til fyrir eftirköstum, og Paul er við það að ná sér. Það tók mun lengri tíma fyrir hann að komast almennilega á fætur, enda er hann astmasjúklingur.“

Lífsreynsla sem setti allt annað í nýtt samhengi

Sigrún segir að þessi lífsreynsla hefur skilið mikið eftir sig og sett allt annað í nýtt samhengi. „Ég er viss um að hefðum við ekki lent í þessu værum við eflaust miklu uppteknari af áhyggjum af atvinnunni okkar og áhrifum veirunnar á daglegt líf og framtíðarsýn en eins og stendur erum við ótrúlega þakklát fyrir það sem er. Við eigum yndislegt heimili þar sem við höfum öll nóg pláss til þess að eiga okkar einverustundir sem og samverustundir. Við erum með stóran garð þar sem við getum dundað okkur, grillað og haft það notalegt.“

Hún segir í gamansömum tón að fjölskyldunni komi vel saman enn sem komið er. „Sjáum hvernig ég svara þegar vikunum fjölgar en ofar öllu, við erum á lífi.“

– Hvað með áhugamálin og hefur ástandið haft áhrif á þau?

„Ég er nú svo heppin að aðaláhugamál mitt er matargerð svo nú snýst lífið aðallega um spekúlasjónir um hvað ætti að hafa í kvöldmatinn. Það er líka svolítið áhugavert hvernig COVID hefur haft áhrif á matarinnkaup. Það eru risavaxnar raðir fyrir utan búðirnar og enn er skortur á ákveðnum hlutum eins og hveiti og eggjum. Svo á spjallrás hverfisins skiptist fólk á vísbendingum um það hvar hægt sé að nálgast þessar lúxusvörur. Maður reynir því að elda með því sem maður á, frekar en að skjótast útí búð og kaupa það sem vantar. Það þarfnast svolítillar útsjónasemi og þetta verður allt svolítið meira krefjandi en spennandi um leið. Svo erum við líka farin að rækta meira ætilegt í garðinum okkar, t.d. jarðarber, tómata, kartöflur, rabbarbara, ólífur, spergilkál, kál og hinar ýmsu matjurtir.“

Langar heim til Íslands í sumar

– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?

Við vonumst heitt og innilega til þess að komast til Íslands í sumar en það verður bara að koma í ljós. Ég er líka alveg viðbúin því að svo verði ekki og að við verðum bara að vera heima. Við munum allavega ekki fara í hefðbundið sumarleyfi í ár, svo mikið er víst. Það er bara þannig á þessum tímum að við verðum að vera æðrulaus og taka því sem gerist og geta brugðist við aðstæðum eins og þær birtast. Það þýðir lítið að gera einhver langtímaplön eins og er, þó maður sé að reyna að ímynda sér hvernig langtímaáhrif þessa stórbreyttu heimsmyndar verði. Þetta verður bara allt saman að koma í ljós.“

– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?

„Uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi er Vík í Mýrdal þar sem pabbi og systkini hans voru fædd og uppalin. Við, systkinabörnin, eigum ennþá húsið þeirra og skiptumst á vikum þar yfir sumarið. Börnin mín þrá að komast þangað á hverju ári og sumarið 2018 fórum við þangað með stjúpdætrum mínum, mökum og dótturdóttur okkar. Það var alveg frábært.“

Víkka þægindaramma fólks

Um næstu vikur og mánuði hafði Sigrún þetta að segja: „Starfið mitt byggist upp á því að vera með fólki, aðstoða það við að víkka þægindarammann og reyna eitthvað nýtt. Oftast nær er ég að vinna með einstaklingum sem myndu flokkast sem „viðkvæmir“ á einn eða annan hátt. Ég veit að það er enn brýnni þörf en áður fyrir starf mitt nú á þessum tímum og ekki verður þörfin síðri þegar til lengri tíma er litið, til þess að byggja fólk og samfélög upp á ný eftir að þessu líkur öllu saman. Það er óvíst hvenær við getum farið að sitja saman, syngja og spila en hvenær sem það verður hægt, verð ég tilbúin.“