„Ef maður er ekki hluti af lausninni er maður hluti af vandamálinu“
Sverrir Auðunsson, formaður Golfklúbbs Grindavíkur.
– Hver er maðurinn?
Ég heiti Sverrir Auðunsson og er fæddur í Keflavík þann 1. október 1975. Ég flutti til Bandaríkjanna þegar ég var tíu ára gamall og flutti svo aftur til Íslands eftir að ég lauk háskólanámi árið 1999. Í dag starfa ég sem framkvæmdastjóri DHL á Íslandi ásamt því að vera formaður Golfklúbbs Grindavíkur. Eiginkona mín heitir Sesselja Bogadóttir og er hún náms- og starfsráðgjafi hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Börnin mín eru fimm (þrjár dætur og tveir synir) og það elsta var að útskrifast úr FS og það yngsta af leikskólastigi. Fyrir utan golfið hef ég mjög gaman að nánast öllum öðrum íþróttum, sérstaklega fótbolta og ameríska fótboltanum.
– Hvenær byrjaðir þú að leika golf?
Spilaði smávegis með skólafélögunum þegar ég var í háskólanum í Bandaríkjunum á árunum 1997–1999. Tók svo langt hlé og byrjaði aftur árið 2009.
– Hvað fékk þig til að byrja í golfi?
Þegar við hjónin vorum að skoða möguleikann á að flytja til Grindavíkur nefndi ég við frúna að þá þyrfti ég að fara á fullt í golfið, sagði henni að það væri tilvalin leið til að kynnast bænum og bæjarbúum þar sem ég þekkti fáa í bænum. Konan samþykkti það með bros á vör og við fluttum til Grindavíkur árið 2009.
– Eru fleiri fjölskyldumeðlimir í golfi með þér?
Eins og er hefur bakterían ekki gripið neinn annan en mig. Sex ára sonur minn bað reyndar nýlega um og fékk sínar fyrstu golfkylfur. Hefði óskað þess að ég hefði byrjað svona ungur. Svo má maður alltaf binda vonir við að konan og aðrir fylgi manni út á völl enda er golfið frábær fjölskylduíþrótt.
– Ertu góður kylfingur, hvað ertu með í forgjöf?
Er ágætur, kem mér frá teig að flöt án þess að skapa mikla hættu fyrir aðra. Er a.m.k. farinn að tapa færri golfkúlum en áður. Eins og er stendur forgjöfin í 13,6.
– Hefurðu sett þér markmið fyrir golfsumarið?
Já, er með tvö meginmarkmið ofarlega í huganum í sumar. Hið fyrra er fyrst og fremst sem formaður langar mig að spila með tuttugu félagsmönnum sem ég hef aldrei áður spilað með [innsk. formaðurinn er kominn með níu félagsmenn], seinna markmiðið er svo langþráður draumur að komast undir tólf í forgjöf.
– Ertu mótaglaður kylfingur?
Ég hef lítið tekið þátt í mótum utan Grindavíkur en á heimavelli hef ég verið duglegur að taka þátt í innanfélagsmótum eins og Stigamótunum og Tóftabóndanum, svo reynir maður að taka þátt á hverju ári í Meistaramótinu.
– Hvað spilarðu oft í viku?
Reyni að komast einu sinni til tvisvar í viku en það fer oftast eftir veðri. Rástíminn klukkan 08:40 um helgar er að verða heilagur enda frábært að taka hring snemma í góðum félagskap og eiga nánast allan daginn eftir með fjölskyldunni.
– Hefurðu farið holu í höggi?
Ég hef orðið vitni að einu slíku höggi en hef aldrei afrekað það sjálfur. Fór reyndar með hálfa kúluna ofan í í einu höggi á 18. holunni í Grindavík. Eftir það högg er ég búinn að sætta mig við það að fara jafnvel aldrei holu í höggi.
– Hver er uppáhaldsholan þín?
Á Húsatóftarvelli er það önnur holan, ný par 3 hola. Hingað til hef ég oftar en ekki labbað í burtu með skramba. Þessi 169 metra hola er alvöru, fullorðins golfhola sem refsar slæmu höggi og ef maður kemur sér á rangan stað við flötina getur það reynst erfitt að bjarga parinu. Þannig á golfið að vera.
– Hver er uppáhaldskylfan þín?
Blendingurinn minn, Diablo Edge. Kylfa sem ég get púttað með eða slegið 100–150 metra nánast eftir þörfum. Þegar járnin klikka er blendingurinn traustur vinur sem getur gert kraftaverk.
– Hvert er draumahollið þitt?
Fyrir utan að spila Augusta National með félögunum í golfklúbbnum Einn yfir Pari væri ég til í að spila átján með Diego Maradona, Larry Bird og Patrick Reed.
– Nefndu þrjár uppáhaldsholur (ekki á Húsatóftavelli), eina par 3, eina par 4 og eina par 5:
Ég ætla mér að spila fleiri velli í sumar þannig að það er aldrei að vita að uppáhaldsholurnar gætu eitthvað breyst eftir sumarið. Par 3, það er þriðja holan á Akranesi, séríslensk stemmning að vera umkringdur litlum skógi við teighöggið. Par 4, það er tólfta í Korpunni, skemmtileg hola sem reynir á golfhæfileikana hjá manni. Hérna skiptir máli að halda boltanum á braut. Blint innáhögg á flötina er krefjandi högg. Par 5, er sú fjórtánda í Oddinum, hola sem býr yfir áhættum beggja megin við teighöggið og er hún upplögð fyrir mitt Baby Draw og komandi högg gefa manni gott tækifæri á fugli – en par á öllum þessum holum er mjög gott.
– Hvernig stóð á því að þú tókst að þér formennsku í Golfklúbbi Grindavíkur?
Rekstrarlega var klúbburinn ekki á góðum stað og nokkur mál hjá klúbbnum voru búin að dragast á langinn sem þurfti kraft til að klára. „Ef maður er ekki hluti af lausninni er maður hluti af vandamálinu,“ hugsaði ég – og mér fannst engin betri leið til að sýna það í verki en að taka að mér leiðtogahlutverkið og vinna að því að klára þessi mál og að rekstur klúbbsins endurspegli allt það góða sem í honum býr.
– Er þetta góður hópur með þér í stjórn?
Klárlega. Þessi hópur samanstendur af mörgum ólíkum einstaklingum sem gerir liðsheildina enn sterkari. Við erum með fulltrúa frá báðum kynjum og það er góð blanda af heima- og aðkomumönnum. Samstilltur hópur sem hefur það sameiginlega markmið að m.a. vera vel upplýstur um rekstur klúbbsins og saman stuðlum við að því að heimsóknirnar á Húsatóftarvöll sé góð upplifun fyrir bæði félagsmenn og alla okkar gesti.
– Hefurðu unnið lengi að félagsmálum í klúbbnum?
Já, frá árinu 2012 hef ég annað hvort verið í stjórn eða unnið náið með þáverandi stjórn.
– Hvernig leggst komandi golftímabil í þig?
Við höfðum smá áhyggjur af golftímabilinu eftir óveðrið í febrúar en dugnaðurinn hjá Helga og öðrum gerði það að verkum að völlurinn var opnaður tímanlega, á sumardaginn fyrsta. Fyrstu vikurnar voru heimsóknir á völlinn með því mesta í manna minnum og bara gaman að fá að taka þátt í þeirri vertíð. Mikil nýliðun hefur átt sér stað í ár og félagatalið okkar er komið yfir tvö hundruð félagsmenn. Eftir mörg ár í framkvæmdum á vellinum munum við verja tímanum á vellinum í sumar við að einblína á litlu hlutina sem skipta máli, eins og að fegra völlinn. Klúbburinn er búinn að opna inn á nýju brautirnar og bíða félagsmenn spenntir eftir nýju vallarmati frá Golfsambandinu. Bara spennandi tímar framundan!
– Hvernig er starfsmannahaldi háttað hjá Golfklúbbi Grindavíkur?
Í ár var gerð ákveðin breyting á stafsmannahaldinu og erum við búnir að sameina starf framkvæmda- og vallarstjóra. Þessi blanda hefur reynst vel hjá öðrum klúbbum og hef ég fulla trúa á okkar manni í brúnni, Helga Dan Steinssyni. Að öðru leyti erum við ekki með neina aðra fastráðna starfsmenn heldur munum við reiða okkur á sumarstarfsmennina í ár. Klúbburinn er líka mjög heppinn að eiga marga góða félagsmenn sem leggja fram mikla vinnu í sjálfboðavinnu. Fyrir lítinn klúbb eins og okkar eru þessir sjálfboðaliðar algjör fjársjóður.
– Aðstoðar Grindavíkurbær ykkur með starfsfólk, leggur hann til mannskap?
Aðkoma Grindavíkurbæjar að rekstri golfklúbbsins er ómetanleg og þar höfum við m.a. haft mjög góðan aðgang að vinnuaflinu frá vinnuskólunum í bænum í gegnum árin. Frá því ég flutti í bæinn hefur mér alltaf fundist aðkoma Grindavíkurbæjar að íþróttastarfseminni í bænum vera algjörlega til fyrirmyndar. Verðið sem barnafjölskyldur leggja út fyrir sín börn til að stunda allar þær íþróttir sem eru í boði er stillt í hóf. Það má segja að:
Það er gott að búa í Grindavík.