„Lifðu af daginn í dag“
Án vatns og rafmagns óttaðist fjölskyldan um líf sitt á hverjum einasta degi. Fólk ýmist dó vegna hungurs eða árása hersins. Þjóðernishreinsun hafði farið af stað.
„Í stríðinu í Bosníu og Hersegóvínu árið 1992 voru framdir hrottalegir stríðsglæpir, glæpir gegn mannkyni og þjóðarmorð eins og í Srebrenica þar sem um það bil 8.000 karlkyns hermenn voru myrtir af serbneska hernum. Serbnesk þorp í Srebrenica og þorp þar í kring höfðu verið brennd af bosníska hernum sama ár og þjóðernishreinsað Serba. Mikil átök voru á meðal Króata og Bosníu-múslíma í Mostar, þar sem Króatar sprengdu Ottoman-brúnna í borginni. Í lok stríðsins höfðu yfir 100 þúsund manns verið myrtir og meira en tvær milljónir þurftu að flýja heimili sín vegna ofsókna vegna uppruna síns eða trúarbragða, þar af um ein milljón úr landinu sínu. Ísland var eitt af þeim ríkjum sem tók við flóttamönnum frá Bosníu.“ Jasmina Crnac var þar á meðal en hún flutti til Íslands, vestur á land, ásamt fjölskyldu sinni á milli jóla og nýárs árið 1996, ári eftir að stríðinu í Bosníu lauk. Nokkrum árum áður höfðu frændur Jasminu flust til Íslands og spiluðu hér fótbolta, annar þeirra með Leiftri í Ólafsfirði. Á þessum tíma var Jasmina einungis 16 ára gömul og eftir gríðarlega átakanlega æsku var hún loksins komin í öruggt skjól til Íslands. Baráttan fyrir því að halda lífi sínu og fjölskyldunnar hafði þá staðið yfir í langan tíma sem er eitthvað sem ekki nokkurt barn ætti að þurfa að ganga í gegnum.
Jasmina hitti Sólborgu Guðbrandsdóttur blaðamann Víkurfrétta á Bókasafni Reykjanesbæjar og sagði frá sögu sinni og annarra flóttamanna og innflytjenda sem neyðst hafa að berjast fyrir lífi sínu, flýja heimili sín til að fá að búa við öryggi með fólkinu sem þau elska.