Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Veiran er ennþá á ferðinni og hún ferðast með flugvélum eins og fólkið“
Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn, Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri, Eliza Reid, forsetafrú, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn, og Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, við lok heimsóknar forsetahjónanna. VF-myndir: Páll Ketilsson
Föstudagur 4. júní 2021 kl. 10:14

„Veiran er ennþá á ferðinni og hún ferðast með flugvélum eins og fólkið“

– Í mörg horn að líta hjá lögreglu- og landamæravörðum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Starfsemi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið með öðruvísi móti þá mánuði og misseri sem kórónuverufaraldurinn hefur staðið yfir. Þrátt fyrir að farþegum hafi fækkað mjög mikið þá hefur málum sem koma inn á borð lögreglu í flugstöðinni fjölgað á Covid-tímanum. Þá hafa störf landamæravarða einnig breyst mikið. Þeir hafa m.a. lagt smitrakningarteymi almannavarna lið í baráttunni við kórónuveiruna.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid, forsetafrú, kynntu sér starfsemi lögreglu og landamæravarða í flugstöðinni í síðustu viku. Víkurfréttir fengu að slást í för með forsetahjónunum og kynna sér starfsemina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gjörbreytt starfsumhverfi

Arngrímur Guðmundsson er aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum. Hans fólk hefur haft í nógu að snúast síðustu mánuði, enda regluverkið flókið þegar kemur að ferðalögum milli landa.

„Já, það má segja að þetta hafi gjörbreytt starfsumhverfinu hjá okkur. Það má segja að við höfum verið í fimmtán mánuði í starfsumhverfi sem við bjuggumst ekki við, þar sem hlutirnir hafa snúist meira um Covid en landamæramál“.

Allir sem koma til Íslands og hafa ekki verið bólusettir eða eru ekki með mótefni og hafa ekki fengið Covid-19 þurfa að taka próf erlendis, svokallað PCR-próf, til að staðfesta að þeir séu ekki smitaðir af -Covid-19. Í dag er það krafa við komuna til landsins og við komuna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar skoða landamæraverðir vottorðin og staðfesta þau. Eins er athugað hvort það séu einhver fölsuð vottorð á ferðinni. Þegar ferþegar hafa farið í gegnum eftirlit við komuna inn í flugstöðina þá fara þeir sýnatöku á öðrum stað í flugstöðinni. Eftir sýnatöku fara þeir sem ekki hafa verið bólusettir eða hafa fengið Covid-19 og eru með PCR-próf í fimm sólarhringa sóttkví. Þeir sem eru bólusettir fara í eina sýnatöku og fá niðurstöðu nokkrum klukkutímum síðar.

Breytingar næstum daglega

„Þetta er búið að vera skrítið umhverfi og breytingar næstum því daglega. Það koma reglur og svo koma aðrar reglur sem er bætt ofan á. Við erum komin með mörg lög af reglum og reglugerðum sem gera þetta óhemju flókið.

„Vinna landamæravarða í dag er ekki bara landamæragæsla. Við erum að kanna ferðir fólks áður en það kemur hingað, við erum að kanna gögnin sem ferðamenn koma með hingað og staðfesta þau og jafnframt að staðfesta að ferðamaðurinn megi halda áfram ferð sinni,“ segir Arngrímur.

Þegar kórónuveirufaraldurinn kom upp og fjöldi ferðamanna um flugstöðina dróst verulega saman þá var m.a. brugðist við með því að landamæraverðir lögðust á árarnar með Almannavörnum og gerðust hluti af smitrakningarteyminu sem svo mikið hefur verið í fréttum síðustu misseri.

Þrátt fyrir faraldurinn þá er allskonar fólk að ferðast, bæði ferðamenn og aðrir sem eiga erindi til landsins. Þrátt fyrir að færri séu á ferðinni þá hafa málin sem koma upp hjá lögreglunni í flugstöðinni verði fleiri en árinu áður.

Bæði skemmtileg og erfið mál

Arngrímur segir málin sem koma upp séðu bæði skemmtileg og einnig erfiðari mál. Hann sagði að nú nýverið hafi komið hingað til lands Bandaríkjamaður sem ætlaði að koma í dagsferð til Íslands. Hann kom um morgun og ætlaði heim um kvöldið og helsta erindið með ferðinni var að sjá eldgosið í Fagradalsfjalli. Honum var bent á það að hann þyrfti að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku. Þegar þær komu var orðið of seint að sjá gosið svo þetta var sneypuför.

Ennþá grímuskylda í flugstöðinni

Þegar útsendarar Víkurfrétta voru í flugstöðinni á þriðjudag í síðustu viku var fyrsti dagurinn í landinu þar sem ekki var grímuskylda. Í flugstöðinni var eitthvað annað uppi á teningnum og allir með grímur fyrir vitum.

„Það verður grímuskylda hjá okkur sem störfum í flugstöðinni í talsverðan tíma áfram. Við erum í samskiptum við fólk sem er að koma héðan og þaðan úr heiminum og við viðtum ekki hvort viðkomandi eru smitaðir eða ekki og við minnkum ekki kröfurnar til okkar þó svo flest allir starfsmenn séu orðnir bólusettir. Þannig að það má reiknað með því að grímuskyldan sé komin til með að vera eitthvað áfram.“

- Hafa farþegar verið óánægðir með niðurstöðu sem þeir hafa fengið við komuna til landsins og fá jafnvel ekki að fara inn í landið?

„Já, alveg klárlega. Það sem hefur verið stór breyta í þessu er hversu ört reglurnar hafa breyst. Við vorum hér með tíu Spánverja fyrir ekki svo löngu síðan og í þeirra máli breyttust reglurnar með tveggja daga fyrirvara. Þegar þeir skoðuðu síðast í tölvuna þá voru ákveðnar kröfur og þeir máttu koma til landsins sem ferðamenn en þegar þeir lentu í Keflavík var búið að breyta reglunum og þeir voru ekki lengur velkomnir sem ferðamenn og þurftu því að bíða á hóteli þar til hægt var að koma þeim til síns heima aftur.

Aðeins 10% heimsins bólusett á þessu ári

Núna um mánaðarmótin eru ferðamenn ekki lengur skikkaðir á farsóttarhótel en það breytir því ekki að fólk sem kemur frá ákveðnum svæðum þarf að fara í fimm daga sóttkví. Um miðjan júní eru svo væntanlegar frekari afléttingar. Í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli búast menn við því að þetta ástand tengt kórónuveirunni eigi eftir að vera viðvarandi áfram. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gerir ráð fyrir því að 10% heimsins verði bólusett á þessu ári, þannig að það er ljóst að það er talsvert af löndum langt frá Íslandi í fjölda bólusetninga og verða það ennþá eftir ár. „Veiran er ennþá á ferðinni og hún ferðast með flugvélum eins og fólkið,“ segir Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum.

Getum senn fagnað því að hér verði aftur ys og þys

„Það er skrítin tilfinning að koma til Keflavíkur þegar það eru svona fáir farþegar en það var mjög áhugavert að koma hingað og sjá allt það frábæra starf sem hér er í gangi og sjá samstöðuna og samstarfið á milli starfshópa,“ sagði Eliza Reid forsetafrú eftir heimsókn forsetahjónanna í flugstöðina í síðustu viku.

„Okkur þótti vænt um að geta heilsað uppá fólk og notað tækifærið til að þakka fyrir það góða starf sem hér hefur verið unnið. Það ber ekki eins mikið á því og því starfi sem unnið er annarsstaðar. Þetta fólk er búið að vera í fremstu línu núna í rúmlega ár og stundum að takast á við erfiðar aðstæður og síbreytilegar. Hér hefur gott starf verið unnið og við sjáum til lands núna og getum senn fagnað því að hér verði aftur ys og þys,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í samtali við Víkurfréttir.

Texti: Páll Ketilsson og Hilmar Bragi Bárðarson