Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Við höfum sömu áhugamál og vinnum vel saman“
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
laugardaginn 29. janúar 2022 kl. 09:33

„Við höfum sömu áhugamál og vinnum vel saman“

Tvíburasysturnar Anna Lilja og Lára Ösp eru duglegar í námi og körfubolta

Tvíburasysturnar Anna Lilja og Lára Ösp útskrifuðust af raunvísindabraut frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja í desember 2021 með góðum árangri. Anna og Lára fengu báðar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur en Anna Lilja var dúx skólans með meðaleinkunnina 9,15.

Systurnar hafa sömu áhugamál og eru ávallt saman í einu og öllu. Þær hafa gaman af stærðfræði og því varð raunvísindabraut fyrir valinu. Þá segja þær að það að hafa verið samferða í náminu hafi hjálpað. 

„Við reyndum alltaf að vera í sömu áföngum á sama tíma svo við myndum ná að læra saman fyrir öll próf og verkefni,“ segir Anna. Þeim systrum finnst gaman að spila körfubolta en þær spila báðar með meistaraflokki Njarðvíkur og segjast gera „lítið annað en að vera í körfu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lykillinn að velgengni

Anna og Lára segja nám í miðjum heimsfaraldri hafa komið með áskorunum. „Það komu tímar þar sem við vorum eiginlega bara svolítið að kenna okkur sjálfar, það var alveg erfitt,“ segir Lára. „Í einum áfanga kenndi pabbi okkur bókina á einni viku fyrir lokaprófið. Hann er klár í stærðfræði og eðlisfræði, þannig það hjálpaði okkur,“ bætir Anna við. Systurnar eru sammála því að lykillinn að velgengni í námi sé þrautseigja og agi. „Þó maður nenni ekki að læra þá verður maður bara að gera það, maður verður ánægður eftir á,“ segir Anna.  

Vinna vel saman?

Aðspurðar hver framtíðarplön þeirra eru, svarar Anna: „Planið er að fara í háskóla í haust en við erum ekki búnar að ákveða í hvaða nám við ætlum.“ Lára tekur undir með henni og bætir við að þrátt fyrir erfitt val á námi sé öruggt að þær ætli í háskóla. Þá telja þær það mjög líklegt að þær muni fara að læra eitthvað saman. „Við endum bara alltaf á því, við höfum sömu áhugamál og vinnum vel saman,“ segir Lára.